17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fjármálahlið húsnæðismálanna er ekki með í þessu frv., en búið að skýra frá því, hvaða fjárútveganir séu í gangi, og þær verða í gangi þangað til búið er að fullnægja lánaþörf húsnæðismálasjóðsins á þessu ári. En það verður ekki gert með þessari lagabreytingu, svo að það á ekki að bögglast fyrir brjóstinu á hv. stjórnarandstæðingum. Hitt er rétt, að farið hefur verið fram á það við lífeyrissjóðina, að þeir veittu 200–250 millj. kr. lán og rætt hefur verið um það við þá, að það yrði ef til vill með vísitölukjörum, en til tiltölulega skamms tíma. Á skömmum tíma ættu lánin ekki að vera búin að rúlla upp á sig mjög miklum vísitöluviðbótum. Satt er það, að þetta er í litlu samræmi við það, að við erum að losa byggjendurna við vísitölukvöð og teljum þá ekki geta borið hana, en ef ekki fæst lánsfé með öðrum en þessum hætti, þá er að sæta því.

Það er nú mál manna, að það sé mikið vandamál sem eigi að koma til móts við, að tryggja fjármuni lífeyrissjóðanna, þannig að þeir eyðist ekki í verðbólgu, og e. t. v. þarf þjóðfélagslegar aðgerðir til þess. Ég tel því, að við eigum að halda þessum fjárhagslega vanda húsnæðismálanna utan við þetta frv., því að ekkert er um það í frv. Það verður að taka með öðrum hætti á því máli.