03.12.1971
Neðri deild: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þó að þetta sé stórmál, stytting vinnuvikunnar úr 44 stundum í 40 stundir, þá er ekki ástæða til þess að hafa um það langar orðræður, þar sem svo giftusamlega hefur til tekizt, að í hv. Ed., þar sem málið var fyrst flutt, hefur orðið fullkomið samkomulag um afgreiðslu þess. N., sem hafði það til meðferðar, skilaði óklofnu áliti, og í gær var frv. samþ. með shlj. atkv. út úr hv. Ed. Ég fagna þessari niðurstöðu, að allir flokkar þingsins skuli þannig hafa orðið á einu máli um að afgreiða þetta réttindamál verkalýðssamtakanna, og tel, að það eitt með öðru spái góðu um það, að samkomulagsvilji beggja aðila vinnumarkaðarins leiði til fullrar lausnar á öðrum ágreiningsmálum, sem þar er við að fást.

Meginefni frv. er, eins og öllum hv. dm. mun kunnugt, að vinnuvikan styttist úr 44 stundum í 40 stundir. Ákvæði eru í frv. um, að heimilt skuli vera að færa til dagvinnutíma, þannig að dagvinnutímar verði fleiri en 40 stundir á tilteknum árstímum, en þá aftur færri á öðrum, og eru mörg slík ákvæði í frv., sem gefa það til kynna, að þetta er rammalöggjöf, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa orðið ásáttir um, og rúmar heimildir eru víða í frv. um, að aðilar megi með samkomulagi vinnuveitenda og verkalýðssamtaka og í einstökum tilfellum heildarsamtakanna fyrir báða aðila koma sér saman um breytta tilhögun innan ramma laganna.

Til málsins var stofnað á þann hátt, að í stað þess að setja strax löggjöf og leggja hana fyrir þingið í þingbyrjun, var þess óskað við aðilana, að þeir tækju þátt í samningu frv. um styttingu vinnuvikunnar, og þó að fyrir lægi strax yfirlýsing um það, að atvinnurekendur vildu síður, að þetta ákvæði væri tekið út úr samningum og lögfest, þá vildu þeir þó, ef löggjöf skyldi um þetta sett á annað borð, eiga hlutdeild í því, hvernig slíkri lagasetningu yrði háttað, og tóku þannig bæði fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna þátt í nefndarstarfi til þess að undirbúa þetta frv., sem í öllum aðalatriðum varð strax í því nefndarstarfi samkomulagsmál, þó að um nokkur einstök atriði bæri þar á milli, og þó aðallega um það, hvort um þetta bæri að setja löggjöf eða hafa það eingöngu á samningaborðum aðilanna.

Um það atriði, hvort slíkt atriði sem þetta eigi að festa í lögum, þá er um það að segja, að í öllum nágrannalöndum okkar hefur vinnutíminn verið lögfestur, þó að það hafi ekki verið hér fram að þessu. Og alls staðar, þar sem almenn vinnuverndarlöggjöf hefur verið sett, þá hefur vinnutíminn verið atriði í vinnuverndarlöggjöf þessara landa. Á mörgum undanförnum þingum Alþýðusambandsins höfðu verið gerðar samþykktir um að fá setta vinnuverndarlöggjöf, og þær samþykktir margendurteknar, og í krafti þess höfðu frv. verið borin fram hér á Alþ. um almenna vinnuvernd. í þeirri löggjöf voru ákvæði um vinnutímann, um 40 stunda vinnuviku og um heimildir til þess, að undir vissum kringumstæðum mætti vinnutíminn vera styttri. Ákvæði í þessu frv. um 40 stunda vinnuviku eru hámarksákvæði, en heimild beinlínis gefin til þess að semja um styttri vinnutíma, þegar sérstaklega standi á.

Um matartíma er og samið, að hann skuli ekki skemmri vera en 30 mínútur, og telst hann ekki til vinnutímans, en aðalaðilar skulu semja um það, hvenær matartímar séu teknir.

Sú hefð hefur fyrir löngu skapazt hér á landi, að kaffitímar hafa verið viðurkenndir sem hluti af vinnutímanum og talizt til hins greidda vinnutíma, og þetta er staðfest í 5. gr. frv. Þar segir, að kaffitímar teljist til vinnutíma, en um lengd þeirra og fjölda fari eftir samkomulagi aðila. Það er sem sé eitt af mörgu, sem aðilar áskilja sér innan þessarar rammalöggjafar að semja um. Það eru því aðeins útlinur málsins, sem verða lögfestar, en mjög rúm aðstaða fyrir aðilana á vinnumarkaðinum að semja um ýmiss konar tilhögun innan ramma þeirra. Það er hins vegar venja víða í nágrannalöndum okkar, að kaffitímar teljist ekki til hins greidda vinnutíma, en hins vegar framkvæmdin sú og kannske betra að koma henni við í hinum þróuðu íðnaðarlöndum, að fólk hefur frjálsræði til þess í vinnutímanum að taka sér bita eða sopa, og fara auðvitað í það einhverjar mínútur hverju sinni. Það er ekki talið utan vinnutímans og ekki ákveðin hlé gerð á vinnu til kaffidrykkju.

Það má segja, að þessi stytting vinnutímans á viku hverri um 4 stundir leggi nokkrar byrðar á hendur atvinnurekendum, atvinnulífinu í landinu, því að þeim er með þessu gert að borga sömu krónutölu fyrir 40 stundir nú eins og þeir áður greiddu fyrir 44, og hefur þetta þannig áhrif á greiðslu fyrir hverja vinnustund til hækkunar. En á móti kemur það, að vafalaust á þessi stytting vinnutímans að geta leitt til aukinna vinnuafkasta, og kæmi það þá aftur í teknadálk atvinnurekenda, ef svo fer. En alls staðar, þar sem vinnutíminn hefur verið styttur niður í svo hófleg mörk sem hér er um að ræða, hafa rannsóknir sýnt það, í öllum löndum, að vinnuafköst hafa aukizt nokkuð við styttingu vinnutímans. Atvinnurekendur verða ekki fyrir auknum útgjöldum umfram þær launagreiðslur, sem þeir nú annast, og verkafólk fær ekki auknar atvinnutekjur við styttingu vinnutímans á viku hverri eða mánuði, nema því aðeins að atvinnurekendur ákveði, að yfirvinna skuli unnin eða nætur- og helgidagavinna. Þá kemur að vísu fyrr í hana, og þar með geta komið náttúrlega auknar launagreiðslur yfir á herðar þeim, auk þess sem þeir borga, eins og ég áðan sagði, sömu krónutölu fyrir hverja unna viku, 40 stunda vinnuviku, eins og þeir áður greiddu fyrir 44 stundir.

Þeir menn, sem um þetta mál hafa fjallað í n., sem tók það verk að sér á liðnu hausti að semja frv. um þetta, voru fyrir hönd Alþýðusambandsins Björn Jónsson, Eðvarð Sigurðsson og Magnús Geirsson, en af Vinnuveitendasambandi Íslands voru til starfsins nefndir Björgvin Sigurðsson framkvstj. sambandsins og Haukur Björnsson og fyrir hönd Vinnumálasambands samvinnufélaganna Júlíus Valdimarsson. Formaður þessarar n. var svo ráðuneytisstjórinn í félmnn., Hjálmar Vilhjálmsson, og var hann í oddaaðstöðu í n. En það mæddi lítið á honum sem slíkum, þar sem samkomulag náðist um flestöll meginatriði þessarar rammalöggjafar. N. var sem sé falið að semja frv. til laga um vinnutíma, sérstaklega með það fyrir augum, að vinnuvikan yrði með lögum stytt í 40 stundir án skerðingar á vikukaupi. Það er það, sem í þessu frv. felst, þó að mikið svigrúm sé, eins og ég áðan sagði, gefið atvinnurekendum og verkalýðsfélögum að semja um margvisleg tilbrigði um tilhögun vinnu innan þess ramma, sem lögin marka.

Ég held, að málið skýri sig að öðru leyti sjálft og þurfi því ekki langa framsögu fyrir því. Niðurstaðan varð sú við meðferð málsins í hv. Ed., að þar var það samþ. shlj. í gær og hefur þannig gengið fljótt og greiðlega og farsællega í gegnum þrjár umr. þar.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.