18.05.1972
Neðri deild: 88. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Halldór Þ. Jónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er mál sem snertir beina hagsmuni stórs hluta þjóðarinnar, og má því ætla, að margir, ekki sízt þeir, sem nú standa í húsbyggingum og fá nær daglega yfir sig stórfelldar hækkanir á flestum liðum byggingarkostnaðar, hafi beðið þess með nokkurri óþreyju að heyra héðan úr sölum Alþ., hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hyggst gera til að tryggja hag þess fólks og til að hindra, að allar húsbyggingar einstaklinga stöðvist vegna fjárskorts. Í hinum opinbera málefnasamningi hæstv. ríkisstj. er heitið aðgerðum til lækkunar á byggingarkostnaði. Vegna aðgerða eða aðgerðaleysis hæstv. ríkisstj. hafa nú orðið og eru fyrirsjáanlegar stórfelldari hækkanir á byggingarkostnaði á skömmum tíma en dæmi eru til á síðari árum. Og hverjar eru svo þær ráðstafanir í húsnæðismálum, sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað? Þær liggja hér fyrir í frv.-formi frá hæstv. félmrh. Í þessu frv. er gert ráð fyrir afnámi vísitölubindingar á lánum húsnæðismálastjórnar, sem allir hv. alþm. eru sennilega sammála um, að sé réttmætt, þó að ágreiningur kunni að vera um, hvort sú aðferð, sem hér er lögð til, sé sú heppilegasta fyrir hagsmuni lántakenda og getur t. d. skapað nokkra örðugleika í sambandi við sölu íbúða, sem slík lán hvíla á.

Þá er einnig í frv. þessu heimiluð nokkru hærri upphæð til ráðstöfunar vegna kaupa á eldri íbúðum, og er ekki nema gott um það ákvæði að segja, jafnvel þó að sú upphæð hefði verið ákveðin hærri. Hins vegar virðist ekki liggja fyrir, hvernig þessa fjár eigi að afla og ekki heldur mikils hluta þess fjár, sem afla þarf til fullnægingar á lánaþörf á yfirstandandi ári, jafnvel þó að aðeins sé miðað við þá hámarksupphæð, sem nú er veitt, hvað þá til frekari lánveitinga, sem hin gífurlega hækkun byggingarkostnaðar virðist þó gera nauðsynlegt, ef ekki á að koma til algerrar stöðvunar byggingarframkvæmda. Hæstv. félmrh. gat þess hér í umr. á hv. Alþ., að vonir stæðu til, að fé fengist að láni í þessu skyni frá lífeyrissjóðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er það tryggt, að slík lánveiting úr lífeyrissjóðum til hins almenna húsnæðislánakerfis skerði ekki möguleika sjóðfélaga í þessum sjóðum til lána úr sjóðunum, til þess að eignast þak yfir höfuðið með nýbyggingu eða með kaupum á eldri íbúðum? Sé svo, væri hér um beina skerðingu á hagsmunum lífeyrissjóðsfélaga að ræða. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh., hvaða ráðstafanir hann og hæstv. ríkisstj. ætli að gera til að tryggja, að ekki verði um stórfelldan samdrátt að ræða í byggingarframkvæmdum á yfirstandandi ári og til að tryggja hagsmuni þeirra húsbyggjenda, sem þegar hafa hafið framkvæmdir eða hyggjast gera það nú á næstunni, til þess að mæta þeim stórfelldu hækkunum á byggingarkostnaði, sem dunið hafa yfir á síðustu mánuðum og fyrirsjáanlegar eru á næstu mánuðum í jafnvel enn stærri stíl en verið hefur. Þar ber einnig að hafa í huga þá skerðingu lánamöguleika byggingarvöruinnflytjenda, sem orðið hefur vegna aðgerða hæstv. ríkisstj. og minnkandi lánamöguleika banka, m. a. vegna víxlasölu hæstv. fjmrh.

Ég tel, að þetta fólk eigi rétt á því, að hæstv. félmrh. skýri þessi mál hér á hv. Alþ. Það er ekki seinna vænna. Fundum Alþ. er að ljúka og framkvæmdatíminn við húsbyggingar er hafinn. Ef hæstv. ráðh. hefur engin úrræði, er heiðarlegast að skýra frá því, þó að segja megi, að þögn hæstv. ráðh. sé nægileg yfirlýsing í þá átt. Vel má líka vera, að það sé vilji hæstv. ríkisstj. að draga úr byggingu íbúðarhúsa, því að það er í rauninni það, sem gerist, ef ekkert er að gert. Í umr. hér á hv. Alþ. um þáltill. hv. 1. þm. Vestf. o. fl. um aðstoð við sveitarfélög til byggingar leiguhúsnæðis dró hæstv. félmrh. mjög í efa gildi slíkra bygginga og taldi þær þýðingarlitlar, þessar íbúðir festust og í þeim væri venjulega setið af einhverjum embættismönnum. Þetta mál væri út af fyrir sig full ástæða að ræða í sambandi við húsnæðismál almennt. Þörf sveitarfélaga á að hafa ráðstöfunarrétt á húsnæði er fyrst og fremst bundin við það að geta fengið til starfa sérhæfða starfskrafta á ýmsum sviðum. sem nauðsynlegir eru til eðlilegrar þróunar byggðarlaganna. Þessa starfskrafta er oftast erfitt að fá nema húsnæði sé fyrir hendi, og það væri því ánægjuefni, að húsnæði, sem reist væri í þessu skyni, festist. Það þýddi varanlega búsetu ómissandi og vandfenginna starfskrafta í byggðarlaginu. Hitt er svo annað mál, að ef sveitarfélögum væri veitt aðstoð umfram það, sem nú er í lögum til að koma upp slíku húsnæði, þyrfti að vera opin leið fyrir sveitarfélögin til að selja það húsnæði með hagkvæmum kjörum þeim, sem í því búa, því að ætíð hlýtur að vera æskilegra, að fólk búi í eigin húsnæði en það sé leigutakar, hvort sem heldur er hjá sveitarfélögum eða öðrum aðilum. Það fé, sem sveitarfélag síðan gæti losað við sölu þessara íbúða, mætti nota til byggingar nýrra í sama skyni. Þörfin fyrir slíkt húsnæði verður aldrei leyst í eitt skipti fyrir öll. Ég er því ekki sammála hæstv. félmrh. í því, að slíkar byggingar séu þýðingarlitlar, af því að þær festist. Í rauninni mætti þá alveg eins segja, að það væri þýðingarlítið að byggja, af því að húsnæðisskorturinn yrði alltaf fyrir hendi.

Ég kem þá að þeim ákvæðum frv., sem, ef dæma má eftir því ofurkappi, sem hæstv. ráðh. hefur lagt á að koma þeim í gegn í einhverri mynd, hljóta að hans dómi að vera aðalatriði frv. Hæstv. ráðh. virðist að vísu hafa á það fallizt, að þær breytingar, sem hann taldi svo þýðingarmiklar á fjölda manna í stjórnum verkamannahústaða og húsnæðismálastjórn, nái ekki fram að ganga, ef það eitt fái að standa eftir, að hæstv. ráðh. fái aðstöðu til að koma einhverjum stuðningsmanni sínum í húsnæðismálastjórn með því að fella niður umboð núverandi húsnæðismálastjórnarmanna og kjósa nýja. Þannig er hismið fallið utan af, kjarni málsins stendur eftir. Ég held, að húsbyggjendur í landinu láti sig litlu skipta, hvort í húsnæðismálastjórn sitja þrír eða átta menn eða einhver tala þar á milli. Ég held, að húsbyggjendur í landinu láti sig líka litlu skipta, hvort frjálslyndir og vinstri menn eiga fulltrúa í húsnæðismálastjórn. Og ef eina lausnin, sem hæstv. félmrh. hefur að bjóða í þessum málum, er sú að fá aðstöðu til að koma einhverjum stuðningsmanni sínum í húsnæðismálastjórn, held ég, að öllum megi vera ljóst, að stefna hæstv. ríkisstj. í húsnæðismálum er ekki sú að auðvelda fólki að eignast þak yfir höfuðið, heldur einhver önnur. Það skyldi þó aldrei vera, að auk hins opinbera, langa og fagurlega orðaða stjórnarsáttmála sé til annar styttri, sem meira er farið eftir, orðaður eitthvað á þessa leið: Stjórnarflokkarnir skuldbinda sig til að styðja hver annan í því að koma stuðningsmönnum flokkanna í vel launaðar áhrifastöður.