18.05.1972
Efri deild: 95. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er dálitlum erfiðleikum bundið að ræða málið á þeim skamma tíma, sem hér er til stefnu, þegar við það bætist, að þskj. eftir afgreiðslu hv. Nd. liggur ekki fyrir endanlega, þó að, eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan, við höfum heyrt óminn af þeim umr., sem fram hafa farið í Nd., og getum svona í stórum dráttum gert okkur í hugarlund, hver afgreiðsla frv. hafi endanlega orðið í hv. Nd. En þegar frá er tekið það ákvæði, sem fjallar um lánskjörin, þ. e. vísitölutrygginguna og vaxtakjörin, þá sé ég nú ekki, hverja nauðsyn ber til að keyra þetta frv. áfram með þeim hætti, sem hér er ráð fyrir gert, og ef á komandi þeim 3 mánuðum, sem eru til næsta Alþ., hefði verið að kreppt í þessum efnum, þá hefur nú hæstv. ráðh. afrekað annað eins og það að hrista fram úr erminni brbl. til þess að leysa þá hnúta.

Ég er ekki að kynnast hæstv. ráðh. í dag og þekki hann vel að því og tel það einn af höfuðkostunum í stjórnmálastarfi hans, að hann hafi verið hreinskilinn, en það finnst mér á skorta um þetta mál, því að hefði sannleikurinn verið sagður umbúðalaus fyrir svona um það bil 5–6 vikum, þegar málið sá fyrst dagsins ljós hér, þá hygg ég, að allt það málaþras, sem um þetta hefur verið, hefði orðið mun skemmra og hægt hefði verið að sneiða hjá þeim umr., sem út af þessu hafa spunnizt. Það verður þá að virða mér það til vorkunnar, ef ég álykta rangt í þessu efni, en ég get ekki séð annan tilgang með flutningi þessa máls en þann, að hæstv. ráðh. kann því illa, — og ég skil það vel, ég hef setið í stólnum hans um sinn, — hann kann því illa, að stjórnmálasamtök hans eigi ekki fulltrúa í jafnmikilvægri stjórn og húsnæðismálastjórn er. Þetta skil ég mætavel. Í annan stað kann það að vera sameiginlegt álit stjórnarflokkanna allra, að þeir uni því illa að eiga ekki meiri hluta í jafnmikilvægri stjórn. Hefðu allar þær umbúðir, sem utan um þetta mál hafa verið, verið teknar af og þetta sagt í upphafi, þá efast ég ekki um, að hægt hefði verið að sníða af og minnka til stórra muna allar þær umr., þarfar og óþarfar, sem orðið hafa um þetta mál. En eigi að síður eru staðreyndirnar þær, að málið er hingað komið með þeim hætti, að okkur er nánast ætlað að afgreiða það í þessari hv. þd. með þremur umr., ég hygg nánast í dag, a. m. k. hefur maður ekki heyrt annað. (Forseti: Í dag eða á morgun.) Í dag eða á morgun er sagt. Þingslit eru sem sagt á næstu grösum.

Ég skal ekki að öðru leyti blanda mér í þessa hlið málsins, en ég hygg, að þetta sé raunverulega það rétta, sem um málið verði sagt í heild. En að húsnæðismálum almennt vildi ég þó nota tækifærið til þess að víkja örlítið, og hefði verið æskilegra, að umr., sem um málið hafa þegar farið fram á þingi, hefðu snúizt meira um efnishlið málsins en þær hliðar, sem helzt hafa verið fram dregnar í þeim umr. og ég hygg af þeim ástæðum, sem ég áðan gat um, að sannleikurinn var ekki sagður um málið við tilkomu þess á Alþ.

Það var opinberlega viðurkennt í umr. um önnur hliðstæð mál hér á Alþ. fyrr, að í dag vantaði upp á, til að húsnæðismálastjórn gæti sinnt fyrirliggjandi lánshæfum umsóknum, sem fyrir lágu um s. l. áramót, um 500 millj. kr. Ekki er einn stafur í þessu frv. um auknar tekjur húsnæðismálastjórn til handa. Samkv. heimild í B-lið 8. gr. gildandi laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins eru fullar líkur á því, að um næstu áramót verði lánin, sem í dag eru 600 þús. kr. að hámarki á íbúð, að hækka um 200 þús. kr. En þessi hluti B-liðsins í gildandi lögum er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsnæðismálastjórn getur, að fengnu samþykki ráðh., breytt lánsfjárhæð þessari á tveggja ára fresti til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.“

Ef gera má ráð fyrir því, að um 1000 lánshæfar umsóknir berist á hverju ári, svo sem reynsla undanfarinna ára ber með sér, þá hækkar þessi lánsfjárþörf eða þessi fjárþörf um 200 millj. kr. vegna þessarar hækkunar einnar saman. Vandinn eykst um 200 millj. kr. Ég efast ekkert um, að bæði ráðh. og húsnæðismálastjórn nota sér þessa heimild, og fullt útlit er því á, að væntanlegir lántakendur sitji ekki við betra borð, þó að þeir fái umrædda hækkun á lán sín, heldur en þeir, sem hlotið hafa lán á undanförnum 2–3 árum, þegar hafðar eru í huga þær gífurlegu verðlagshækkanir, sem orðið hafa á síðustu misserum, og ég efast um, að nokkur okkar hér í hv. þd. vefengi þörf lántakenda fyrir umrædda hækkun á núgildandi hámarkslánum. Ég trúi því ekki heldur að óreyndu að standa mundi á samþykkt hæstv. ráðh. til þeirrar leiðréttingar. Þar er einungis um eðlilega leiðréttingu að ræða, sem eins og ég áðan sagði, væri aðeins til þess að jafna aðstöðu manna miðað við þá, sem á undanförnum misserum hafa fengið lánafyrirgreiðslu.

Með hliðsjón af því, sem ég nú hef sagt, vona ég, að öllum sé ljóst, hve gífurlegur vandi er á höndum um þetta efni. Ef úrlausnir eiga að fást til handa öllum þeim geysilega fjölda manna, sem bíða með lánshæfar íbúðir og fullgildar umsóknir, en fá nú ekki fyrirgreiðslu, ef áfram heldur sem horfir í þessum efnum, sé ég ekki annað en við göngum stórstígir inn í nýjar biðraðir, eins og því miður áttu sér stað hér á árunum fyrir 1960, þegar oft og tíðum var ekki hægt að veita úrlausn nema kannske 20–30% af þeim umsækjendum, sem fullgildar umsóknir höfðu. Við siglum því hraðbyri að þessu fyrra ástandi og lengjast biðlistar óafgreiddra umsókna, nema til komi, eins og ég áðan sagði, virkilega raunhæf tekjuöflun, ný leið til tekjuöflunar til viðbótar við þær leiðir, sem Húsnæðismálastofnunin í dag hefur upp á að hlaupa. Ég vil a. m. k. ekki óska neinum þess að eiga að sitja í þeirri húsnæðismálastjórn, sem fengi þann vanda við að glíma, sem húsnæðismálastjórn bjó við á þessum árum, þegar fjallháir bunkar af lánshæfum umsóknum lágu óafgreiddir oft árum saman og verið var að reyna að mylgra úr sér úrlausnum til úrlausnar sárasta vanda fólks. Það verður alltaf um deilt, svo sem fram hefur komið í umr. um þessi mál áður, og þeim þá kennt um, sem búa við þann vanda að eiga að skipta því litla fé, sem til ráðstöfunar er.

Síðan 1965 og til og með 1971 hefur hins vegar verið hægt að fullnægja öllum lánshæfum umsóknum miðað við ákveðið tímabil, þ. e. umsækjendum hefur verið gert skylt að koma með umsóknir sínar áður en framkvæmdir hófust og ekki hafa þurft að líða nema sex mánuðir frá því að fullgild umsókn var inn lögð eða húsið orðið veðhæft, þ. e. fokhelt, þar til fyrri hluti lánsins hefur verið afgreiddur. Þessari reglu hefur verið hægt að halda á undanförnum árum, en sú nýbyggingaralda, sem á s. l. ári reis og virðist enn vera í vexti, framkallar þá fjárþörf, sem ég áðan minntist á og getur hæglega orsakað, ef ekki verður að gert í tíma, langar biðraðir á ný, og þá stöndum við enn þá í þeim sporum, sem við stóðum því miður í á árunum fyrir 1960. Ég hygg, að enginn okkar, og á ég þá ekki sízt við þá, sem vandann hafa á sínum herðum, ráðh. og húsnæðismálastjórn, verði öfundsverður af þeim aðstæðum eða því ástandi, sem við virðumst því miður vera að sigla hraðbyri að.

Og þá komum við enn og aftur að stjórn stofnunarinnar. Uppi hafa verið mörg undanfarin ár, ég hygg frá því að fyrsta endurskoðun laganna um húsnæðismálastjórn fór fram á árunum 1956 og 1957 og reyndar þar áður, 1952–1955, ýmsar skoðanir á því, hvernig þessari stofnun skyldi stýrt, eins og hæstv. ráðh. kom inn á hér í ræðu sinni áðan. Og það er engin ný hugmynd út af fyrir sig, að veðdeildin verði gerð að eins konar stjórntæki þessara mála. Þetta er gamalt mál. En það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Það strandaði þá á fulltrúum annarra banka, sem töldu, að með því móti væri of mikið tyllt undir Landsbankann, sem væri nægjanlega stór fyrir, og veldi hans í þessum efnum gert of mikið. Þá kom upp hugmynd, sem ég hygg, að enginn hafi nú bókstaflega hafnað, og hugmynd, sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á, því að hver sem afdrif þessa frv. verða, þá er augljóst, að endurskoðun þessara mála verður að vera í gangi nánast samfellt. Og það er sú hugmynd, að ríkisbankarnir þrír tilnefndu menn í stjórn til þess að stjórna Húsnæðismálastofnuninni. Þetta er gömul hugmynd. Og með því yrði ríkisbönkunum öllum gert jafnt undir höfði. Þeir hefðu þar sína fulltrúa og mynduðu stjórn stofnunarinnar. Það er hins vegar rétt, eins og ráðh. gat um í framsögu sinni áðan, að innan veggja Alþ. hefur sú skoðun ávallt orðið ofan á, að þar sem Alþ. hefði svo mikið með tekjuöflunarmöguleika stofnunarinnar að gera og yrði sífellt að hlaupa þar undir bagga með því að lögfesta nýjar tekjuöflunarleiðir, þá væri eðlilegt, að Alþ. hefði einnig stjórn stofnunarinnar á hendi. Þetta má segja, að sé frekar vandamál framtíðarinnar heldur en það, að þörf sé á að ræða það nú í sambandi við þetta frv., en hjá því verður ekki komizt að undirstrika mjög rækilega það ógnarútlit, sem knýr á um úrlausn þessara mála. Það óskar víst enginn eftir því, eins og ég vék að áðan, að við upplifum aftur það vandræðaástand, hver sem með stjórn stofnunarinnar fer, að við eigum eftir að þurfa að upplifa ástandið fyrir 1960 aftur. Heiðarlegra og betra væri þá að koma framan að fólki og segja því, að því sé beinlínis óheimilt að byggja íbúðir, heldur en lokka það til þess að byrja að byggja og síðan horfi það á hálfköruð hús árum saman haldandi annarri íbúð fyrir fólki, sem vantar íbúð, en horfandi á sitt hálfbyggða hús, án þess að úrlausn fáist Ég leyni þeirri persónulegu skoðun minni ekki, að ég teldi það heiðarlegar að verki staðið heldur en lokka alla, sem áhuga hafa og vilja til þess að komast yfir íbúð, af stað með voninni um, að úrlausn fáist, úrlausn, sem svo ekki sér dagsins ljós.

Nú er því oft fleygt í sambandi við þessi mál þegar við stjórnarandstæðingar erum að ræða þau hér á Alþ., að við séum orðmargir um vandann, málum vandamálin á vegginn og drögum þau fram, en þessi málatilbúnaður okkar sé ekki raunhæfur, þar sem við bendum aldrei á tekjuöflunarleiðir eða leiðir út úr vandanum. Það er e. t. v. einnig of seint að koma með slíkar tillögur á þessu stigi málsins, þegar til stendur að hraða því svo sem ætlunin mun vera, en ég vil þó nota tækifærið til þess að koma hér að einni brtt. Þegar lögin voru endurskoðuð 1957 og skyldusparnaðurinn lögtekinn, var einnig gert ráð fyrir því, að opnað skyldi fyrir möguleika til svonefnds frjáls sparnaðar; svo sem 10. gr. laganna fjallar um. Þessi grein hefur því miður reynzt algerlega óraunhæf eða ekki „effektív“, ef ég má nota það leiðinlega orð, ekki raunhæf, því að samkv. þessari grein hefur ekki ein einasta króna komið til kerfisins. Og ég hygg, að ástæðan til þess, að svo er, sé fyrst og fremst sú, að menn eru ekki hvattir til þess með neinum öðrum hlunnindum en þeim, að þeir eigi að fá forgangsrétt til lána að öðru jöfnu, ef þeir spara tiltekinn hluta á ári í svo og svo mörg ár. Ég geri það því að tillögu minni núna, að gerð verði tilraun til þess að gera þessa grein virka og reynt verði að fá hana til þess að sinna því hlutverki, sem upphaflega var áætlað, að koma fé inn í kerfið með því að það verði sett inn sama ákvæði í þá grein laganna og er í ákvæðinu um skyldusparnaðinn, 11. gr. laganna, sett verði inn í 10. gr., sem fjallar um frjálsa sparnaðinn, það sama ákvæði, sem reynzt hefur vinsælast í skyldusparnaðinum, og það er, að fé það, sem sparast á þennan hátt, eins og í greininni segir, verði undanþegið tekjuskatti og útsvari. Reynslan sýnir okkur eftir þau 17 ár, sem stofnunin hefur starfað, að verðlauna verður það fólk, sem til kerfisins leggur með einhverjum hætti, eigi að takast að fá þarna aukna fjármuni. Ég leyfi mér því, herra forseti, að flytja þessa skrifl. brtt. og vænti þess, að forseti leiti afbrigða um hana, svo að hún megi koma hér til umr. líka, en skal að öðru leyti á þessu stigi málsins ekki fjölyrða um frv.

En ég álít, að því miður sé ekki nægjanlega vel að málatilbúnaði varðandi frv. staðið, og hefði allur sannleikurinn í upphafi verið sagður, sannleikur, sem ég hygg, að enginn alþm. hefði vefengt, hefði þetta mál verið afgreitt fyrir löngu með betra samkomulagi en því miður virðist vera útlit fyrir nú. Æskilegra hefði verið, að umr. um þetta frv. hefðu ekki snúizt um menn eða þátttöku flokka í stjórn stofnunarinnar, heldur um að leysa þann vanda, sem sýnilega er fyrir hendi, og þm., sem vel flestir eru tengdir þessum vanda með því að ýta á eftir fyrirgreiðslu fyrir kjördæmi sín og það fólk, sem til þeirra leitar, því að það eru ekki fá sporin, sem þeir eiga inn í þessa stofnun í ýmiss konar erindum fyrir umbjóðendur sína, á þeirra herðum ætti einnig skyldan að hvíla að sjá stofnuninni fyrir þeim tekjustofnum, að hún gæti sinnt verkefni sínu með svipuðum hætti og hún hefur gert undanfarin ár, en því miður virðist vera á öfugri leið nú.