18.05.1972
Efri deild: 95. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, kom fyrst til umr. í hv. Nd. 21. apríl þegar skammt var að þingslitum.

Það er nokkuð furðulegt, að hæstv. félmrh. skuli ekki hafa verið fyrr á ferðinni með svo þýðingarmikið mál sem endurskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar hlýtur að vera. Þetta er í fyrsta lagi nokkurt undrunarefni.

Það er enn fremur nokkurt undrunarefni, hve hægt var unnið í þessu máli í hv. Nd., ef það hefði verið meiningin að ljúka því fyrir þingslit. Allt er þetta nokkuð með sérkennilegum hætti, og það skýrist betur, þegar frv. er athugað. Í fyrsta lagi kemur þá í ljós, að hér er ekki um neina almenna endurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni að ræða, eins og ætla hefði mátt af mörgum ummælum hæstv. félmrh., bæði fyrr og síðar. En það, að frv. er þess eðlis, sem raun ber vitni um, kann að vera nokkur skýring á því, hve hægt var unnið í þessu máli í hv. Nd. Maður hefur haft ástæðu til þess að ætla og það hefur legið í loftinu, að meðal stjórnarliðsins hér á Alþ. hafi ekki verið nein sérstök ánægja með þetta frv., og er það ekki óeðlilegt. Það hefur meira að segja heyrzt, að það væri mikil andstaða gegn ýmsum ákvæðum þessa frv. innan stjórnarliðsins. Og það hefur meira að segja heyrzt, að það hafi verið ákveðinn vilji og fyrirætlun ýmissa í stjórnarliðinu að koma í veg fyrir, að þetta frv. næði fram að ganga. Allt þetta getur maður skilið, þegar frv. er nánar athugað.

En af þessu leiðir, að þau vinnubrögð, sem hér á nú að viðhafa, eru í hæsta máta óeðlileg, að koma með svo viðamikið mál til afgreiðslu í þessari d. fyrst á síðasta degi þingsins. Það verður að mótmæla mjög sterklega slíkum vinnubrögðum sem þessum. Það þarf ekki að færa sérstök rök fyrir þessum mótmælum. Það er svo augljóst, að hér er um algera óhæfu að ræða. Það er ekki hægt að koma við í þessari d. þeirri athugun þessa máls, sem væri eðlileg og makleg og nauðsynlegt, að d. viðhefði. Þess vegna getur þetta mál ekki fengið, hvernig sem það verður afgreitt úr þessari d., neina eðlilega afgreiðslu. Auk þess, sem þessi vinnubrögð hafa mjög alvarleg áhrif á það, að hægt sé að afgreiða þetta mál af einhverju viti, þá er þessi framkoma hrein móðgun og lítilsvirðing við hv. d. og Alþingi í heild.

En þetta frv. liggur hér frammi og þá er spurningin, hvers vegna frv. er fram komið. Til að svara þeirri spurningu er eðlilegast að líta nokkuð á frv. sjálft. 1. gr. frv. fjallar um það að breyta tölu stjórnarmanna í húsnæðismálastjórn. Að vísu er nú búið með afgreiðslu hv. Nd. að gera breytingu á þessari 1. gr. En hæstv. ráðh. kom að ástæðunum fyrir því, hvers vegna hann leggur til fækkun í húsnæðismálastjórn samkv. 1. gr. frv. Mér þykir því eðlilegt að víkja nokkrum orðum að því. Það er einkennilegt með þennan hæstv. ráðh., að þegar hann kemst í þá aðstöðu að fara með æðstu stjórn húsnæðismálanna og vera yfirmaður húsnæðismálastjórnar, þá er það jafnan það fyrsta, sem skeður, að hann gerir till. um breytingar á skipun húsnæðismálastjórnar.

Þetta skeði 1956, þegar hæstv. félmrh. tók þá við stjórn húsnæðismálanna. Hann var ekki búinn að vera þá yfirmaður húsnæðismálastjórnar nema í nokkrar vikur, þegar hann setti brbl. um það að breyta skipun húsnæðismálastjórnar. Ekki lá honum minna á þá heldur en nú. Þá voru fimm menn, sem áttu sæti í húsnæðismálastjórn, en hæstv. ráðh. lá svo á að breyta þessu, að hann setti brbl. um, að þeir skyldu verða sjö. Og í forsendum fyrir þessum brbl. var tekið fram, að lánsfjárskorturinn væri svo mikill, það væru svo erfið störf af þeim ástæðum fyrir húsnæðismálastjórnarmenn, að það yrði að fjölga þeim. En jafnframt var tekið fram í lögunum um leið og tala húsnæðismálastjórnarmanna var hækkuð úr fimm í sjö, að einungis þrír af þessum sjö mönnum skyldu fara með öll framkvæmdastörf í húsnæðismálastjórn. M. ö. o.: Það var of mikið starf fyrir fimm menn að vinna í húsnæðismálastjórn. Þess vegna þurfti að bæta við og hafa töluna sjö. En það var tekið fram, að ekki mættu nema þrír vinna störfin. Þetta var nú hin fyrsta ganga hæstv. félmrh.

En þessi ganga er þyrnum stráð. Þetta var í sept. 1956 og í jan. 1957 var lagt fram frv. í Alþ. til staðfestingar þessum brbl. En í apríl sama ár leggur hæstv. félmrh. fram frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þá er hann kominn á þá skoðun, að það sé rétt, að fimm menn séu í húsnæðismálastjórn. Þetta gerist allt á nokkrum mánuðum. Þar er að vísu ekki tekið fram, að það megi einungis þrír menn vinna störfin. Hins vegar er það tekið fram í frv. ráðh. 1957, sem var samþ. og varð að lögum, að af þessum fimm mönnum skyldi sá maður, sem var fulltrúi Landsbankans og hafði mesta sérþekkingu á lánamálum, ekki koma nálægt þeim. Þetta var nú skoðun hæstv. félmrh. á hæfni veðdeildarinnar til þess að fjalla um þessi mál. Þetta skeði 1956 og 1957.

Og nú er það fyrsta, sem við heyrum frá hæstv. félmrh., auðvitað það, að breyta þurfi skipun húsnæðismálastjórnar, svo að sjaldan bregður mær vana sínum. En það er ekki nóg með það, að hæstv. félmrh. sé haldinn sjálfur þessari áráttu, heldur er hann búinn að gegnumsýkja sinn eigin flokk í þessu efni. Það eru hvorki meira né minna en þrjár skoðanir uppi um það í flokki hæstv. félmrh. núna, hvað margir eigi að eiga sæti í húsnæðismálastjórn. Sjálfur lagði hann til í frv., að það væru sex. Hv. þm. Bjarni Guðnason leggur til, að það verði þrír og hv. þm. Karvel Pálmason leggur til, að þeir verði átta. Það verður gaman að sjá, hvert framhaldið verður í þessum efnum. Þetta er aðeins byrjunin, eins og 1956. Það var aðeins byrjunin, brbl., sem voru sett. Svo hélt dansinn áfram.

Hv. síðasti ræðumaður vék að því, að ekkert væri óeðlilegt, þó að hæstv. félmrh. vildi eiga fulltrúa eða flokkur hans í húsnæðismálastjórn. Ég skal nú ekkert um það segja. Það eru ýmis sjónarmið í því máli. Það er hægt að mæla vel fyrir því sjónarmiði, að það eigi að skipta um öll ráð og nefndir við alþingiskosningar. Það er svo ákveðið í mörgum tilfellum, að það skuli fara fram kosning í ráð og nefndir að loknum hverjum alþingiskosningum. En það er líka sú regla, að ráð og nefndir séu kosnar til ákveðins tíma. Það er á síðari árum, hygg ég, meir horfið að því ráði, t. d. er það svo í núverandi lögum um Húsnæðismálastofnunina, að stjórnarmenn skulu kosnir til fjögurra ára. Það er þannig ástatt líka t. d. með útvarpsráð. Útvarpsráðsmenn eru kosnir til fjögurra ára samkv. gildandi lögum. En samkv. eldri lögum . . . (Forseti: Ég hið ræðumann afsökunar, en ég vil gefa honum færi á að fresta ræðu sinni, þegar honum hentar, ef hann óskar eftir, þangað til á framhaldsfundi.) Já, þökk fyrir. En áður gilti um útvarpsráð að kjósa skyldi útvarpsráð að afloknum hverjum alþingiskosningum. Hvers vegna var þessu breytt? Það var engin tilviljun, að þessu var breytt. Það var viss hugsun, sem lá þar á bak við. Þetta varð til þess að undirstrika það sjónarmið, að viss ráð og nefndir ættu ekki að starfa flokkspólitískt. Þeim var treyst til þess, að svo væri ekki, og þá litu menn svo á, að ekki þyrfti að breyta í þessum ráðum og nefndum, þó að breyting yrði á skipan Alþingis. Og þetta varð einnig til þess að undirstrika það sjónarmið, að þessi ráð og nefndir ættu ekki að vinna flokkspólitískt. Mér finnst þetta ekki einungis athyglisvert sjónarmið. Mér finnst, að það eigi mikinn rétt á sér. Samkv. þessu ættu þeir, sem vilja og telja sig hafa þá stefnu, að húsnæðismálastjórn eigi að vinna óflokkspólitískt, ekki að hrófla við þessari reglu, heldur væri það þá eðlilegt, að viðkomandi stjórn sitji út sín fjögur ár, eins og hún var kosin til að gera. Þessi till. hæstv. félmrh. um að breyta skipan húsnæðismálastjórnar um leið og hann tekur við stjórn þessara mála, gengur því þvert á sjónarmið þeirra manna, sem vilja, að unnið sé óflokkspólitískt í þessari stofnun, og þetta gengur þvert á allan málflutning hæstv. ráðh. um þessi efni nú á undanförnum vikum. Þetta gengur þvert á móti því, sem hann er sjálfur að halda fram, ef menn vilja þá annars taka nokkurt mark á því. [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði lokið nokkrum aths. við 1. gr. frv., eins og frv. var lagt fram, að gefnu tilefni vegna ummæla hæstv. félmrh. um það efni. En ég vil enn fremur af sömu ástæðu víkja nokkuð að till. þeirri, sem er í 4. gr. frv., eins og það var upphaflega lagt fram. Hæstv. félmrh. gaf ástæðu til þess að vikið yrði nokkuð að því efni.

Samkv. þeirri till. er lagt til að fækka um tvo menn í stjórnum byggingarfélaga verkamanna. Og rökin fyrir því eru þau, eftir því sem hæstv. félmrh. lagði áherzlu á, að það tæki svo langan tíma að skipa sjö menn í stjórn verkamannabústaðakerfisins á hverjum stað, að eiginlega væri óvinnandi vegur að koma slíku í framkvæmd.

Hæstv. ráðh. skýrði nú ekki, í hverju þetta er fólgið. Það hefði verið gaman að fá skýringar á því, hvers vegna það er svona mikið atriði af þessum ástæðum að hafa fimm menn í stjórn verkamannabústaða í staðinn fyrir sjö. Hann segir, að það hafi verið ófært að taka upp þessa reglu, að hafa sjö menn í stjórn verkamannabústaða. Frá hverju var horfið? Það var horfið frá því fyrirkomulagi, að til þess að hægt væri að byggja verkamannabústaði í einhverju sveitarfélagi, þá þurfti ekki aðeins að tilnefna stjórn verkamannabústaða, það þurfti að stofna heilt félag. Það þurfti að stofna byggingarfélag verkamanna. Auðvitað, eins og allir vita, þá þarf ýmislegt að gera í sambandi við stofnun eins félags og öll félög þurfa svo að velja sér stjórn. Kemur nú einhverjum í hug, að það sé frambærileg ástæða, sem hæstv. félmrh. ber hér fram, að það sé brýnt nauðsynjamál að fækka um tvo í stjórn verkamannabústaða, af því að það hefði verið gert svo erfitt fyrir, frá því sem áður var, þegar þurfti að stofna byggingarfélög með öllu því, sem því fylgdi? Það er ekki hægt að halda slíkri fjarstæðu fram sem þessari. Og það er alveg furðulegt, að hæstv. félmrh. skuli láta sér sæma að gera slíkt hér í umr. á hv. Alþ. dag eftir dag. En það er nú búið að koma vitinu fyrir hæstv. ráðh. í þessu efni og frv. kemur til okkar þannig, að það er búið að fella niður þessa gr.

Það er eitt ákvæði, sem komið er inn í frv. og sett var inn af Nd. varðandi verkamannabústaðina. Það er, eins og frv. liggur nú fyrir, 5. gr., þar sem tekið er fram, að ráðh. geti ákveðið hærra framlag úr ríkissjóði vegna mjög fámenns þéttbýlisstaðar, enda framlengist þá greiðsluskylda hlutaðeigandi sveitarfélags. Ég hef ekkert á móti þessari breytingu, og það kann að vera, að hún sé að einhverju gagni og geri enga aths. við hana. En hvað er þá orðið eftir af því frv., sem lagt var fram á Alþ. í síðasta mánuði? Í raun og veru ekki annað en 4. gr. frv. varðandi vísitöluákvæðin. Það má að vísu ekki gleyma 3. gr., en hún er um það að hækka heimild húsnæðismálastjórnar til lánveitinga til kaupenda eldri íbúðarhúsa úr 50 millj. kr. árlega í 70 millj. kr. Það er gott út af fyrir sig að geta veitt meiri lán út á gamlar íbúðir, en ef það er gert á kostnað þess að lána út á nýjar, þá er það vafasamara. En full ástæða er til þess að ætla, að svo verði, meðan ekki er betur séð fyrir fjárþörf almenna veðlánakerfisins en nú er gert og hefur komið fram her á Alþ. og m. a. samkv. upplýsingum hæstv. félmrh.

En ég vil þá víkja að því, sem eftir stendur og raunar er umtalsvert í frv. því, sem lagt var fram, 4. gr., þar sem fjallað er um vísitölubindinguna. Það er orðin alllöng saga um vísitölubindingu húsnæðislána. Hún var fyrst tekin upp með lögum um húsnæðismálastjórn 1955. Þá var gert ráð fyrir því, að af 70 þús. kr. lánum væru svokölluð B-lán 20 þús., en það voru vísitölulánin. Þegar lögunum var breytt og sett voru lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins 1957, færðu menn sig upp á skaftið með vísitölubindinguna, þannig að þá var gert ráð fyrir, að helmingur íbúðarlánanna væri í formi vísitölulána. Það ástand hélzt í nokkur ár, en árið 1964, þegar gerðar voru veigamiklar breytingar á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, var tekið upp ákvæði um það, að öll lánin skyldu vera vísitölulán. Var það í samræmi við júnísamkomulagið svokallaða frá 1964. Þegar ákveðið var að geta öll lán húsnæðismálastjórnar að vísitölulánum árið 1964, þá var það svo, að talað var um að gera öll fjárfestingarlán í landinu að vísitölulánum. Ég hygg, að flestir, sem vildu þess vegna gera húsnæðismálastjórnarlánin að vísitölulánum árið 1964, hafi verið á þeirri skoðun, að það ætti að fylgja á eftir að vísitölubinda önnur lán. A. m. k. var ég þeirrar skoðunar, að slíkt ætti að gera. Nú hefur það ekki verið gert, eins og kunnugt er,. og mér sýnist, að þess vegna sé brostin forsenda fyrir því að hafa vísitölubindingu á þessum lánum. Og það hefði mátt vera búið að breyta því. Það er engin sanngirni, sem mælir með því, að þeir, sem byggja íbúðarhús, skuli vera bundnir þeim kvöðum, sem vísitöluákvæðinu fylgir, en aðrir, sem fjárfesta í öðrum byggingum, skuli ekki vera það. Ég sé ekki, að það sé neitt réttlæti í slíku fyrirkomulagi. Og hvað sem má segja um gildi vísitölubindingarinnar, þá er hún í mínum huga einungis réttlætanleg, ef það eru almenn ákvæði um vísitölubindingu fjárfestingarlána.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að fella niður vísitöluna. Vísitalan á að vera áfram, en það á að setja viss takmörk fyrir því, hvað hún getur þýtt miklar byrðar, og þau takmörk eru bundin við það, sem samsvarar 73/4% vöxtum. Mér virðist þetta vera framför frá því ástandi, sem nú er. Ég er þó ekki viss um það, að þetta hafi verið eðlilegasta og bezta lausnin, sem gert er ráð fyrir nú í 4. gr. frv. Mér finnst, að alveg eins hefði komið til greina að afnema hreinlega vísitölubindinguna og hafa fasta vexti. Það væri fróðlegt að vita, en það hefur ekki komið fram í þessari hv. d., hverjar eru ástæðurnar fyrir því, að þessi leið var farin, en ekki sú að fastbinda vextina. Mér finnst sérstök ástæða til þess að spyrja hæstv. félmrh. um þetta, vegna þess að 1970, þegar lá fyrir Alþ. frv. um breytingar á þessari löggjöf, lagði þessi hæstv. félmrh. til, að vísitölubindingin yrði algerlega afnumin og ákveðnir vextir væru á lánunum. Það er fróðlegt að heyra, hvað hefur hér komið til, hvað veldur sinnaskiptum hæstv. ráðh. í þessum efnum.

Eins og ég sagði áðan, er þetta eitt meginefnisatriði frv. Með því að mér þykir þetta mál harla óljóst, þá styður það þá skoðun mína, að miklu eðlilegra sé að afgreiða ekki þetta mál á þessu þingi, heldur athuga þetta nánar, því að hér er vissulega um mjög þýðingarmikið atriði að ræða. Það er líka svo, að þetta breytir engu í framkvæmd mála, hvort samþykkt er nú breyting, sem snertir vísitöluákvæði lánanna, eða hvort það bíður til þingsins á n. k. hausti, vegna þess að gjalddagi þessara lána er fallinn og þetta kemur ekki til að hafa áhrif fyrr en við næsta gjalddaga.

En það, sem ég hef hér vikið að, er aðeins einn þáttur þessa máls. Þetta vísitölumál er miklu margþættara. Ef vísitalan er afnumin eða takmörkuð eins og gert er ráð fyrir í frv., þá hefur það margháttaðar afleiðingar í sambandi við framkvæmd þessara mála, og það er ekki hægt að víkja svo að þessu atriði, án þess að koma að því. Samkv. húsnæðislöggjöfinni er gert ráð fyrir því, að aflað sé fjár til veðlánakerfisins með sölu bankavaxtabréfa. Og þessi bankavaxtabréf eru vísitölubundin. Af því leiðir, að þau eru miklu auðseljanlegri eða ættu að vera, vegna þess að það þýðir miklu hærri raunvexti en ella, og um leið og við erum að finna að vísitölubindingunni, að hún sé mikill baggi á lántakendum, þá er hún hins vegar mikill hagur fyrir þá, sem kaupa bankavaxtabréfin, sem fjármagnsins er aflað með. Ef þessum hvata að kaupum á bankavaxtabréfunum er svipt burt og ekkert kemur í staðinn, þá er þar með vegið að rótum húsnæðismálakerfisins. Þetta sjá allir og ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minna enn frekar á það, að á Alþ. 1970, þegar frv. var til umr. um Húsnæðismálastofnunina, þá bar núverandi hæstv. félmrh. fram till. um niðurfellingu vísitöluákvæða. En hann gerði sér þá grein fyrir þessu. Hann gerði sér þá grein fyrir því, að ef ekkert væri gert annað, væri vegið að rótum veðlánakerfisins. Og hann tók afleiðingunum af þessu, sem ábyrgum manni sæmir, og gerði till. um stórkostleg skattfríðindi til þeirra, sem keyptu bankavaxtabréfin, þannig að það yrði unnið upp á þann veg, sem þeir töpuðu við afnám vísitölubindingarinnar. Samkv. tillögu Hannibals Valdimarssonar og tveggja annarra þáverandi stjórnarandstöðuþingmanna skyldi Byggingarsjóður gefa út og selja skuldabréf til 35 ára. Kaupendur slíkra bréfa skyldu hafa rétt til að draga andvirði þeirra frá skattskyldum tekjum það ár, sem þeir keyptu bréfin af Byggingarsjóði.

Hér er um stórkostleg skattfríðindi að ræða. Nú vil ég spyrja: Hvað veldur sinnaskiptum hæstv. félmrh. í þessu veigamikla efni frá 1970? Ég sagði, að 1970 hefði hann sýnt í þessu efni mikla ábyrgðartilfinningu. Ég verð að segja, að maður gæti vænzt þess, að hann sýndi ekki minni ábyrgðartilfinningu nú sem ráðh., og ég vil ekki væna hann um það. Hinu gæti ég frekar trúað, að hæstv. ráðh. hefði sézt yfir þetta nú við þessa endurskoðun og það er náttúrlega eitt með öðru, sem sýnir, hvílík fjarstæða það er að hlaupa nú til á síðustu klukkustundum þingsins að afgreiða þetta mál. Og ég vil ekki trúa því fyrr en ég reyni á, að hæstv. félmrh. ætli sér að láta afgreiða þetta frv., eins og það er núna hvað þetta atriði snertir, án þess að gerðar séu ráðstafanir hliðstæðar þeim, sem hann lagði sjálfur til 1970, til þess að tryggja undirstöðu veðlánakerfisins sjálfs.

En afnám vísitölubindingarinnar hefur líka önnur stórkostleg áhrif, ekki minni. 1957 var skyldusparnaður unglinga gerður að einum aðaltekjustofni veðlánakerfisins. Þá var ákveðið, að ungmenni á aldrinum 16–25 ára skyldu leggja 6% af tekjum sínum til hliðar til ráðstöfunar fyrir húsnæðismálakerfið. Þegar þessi ákvæði voru sett, þóttu þau mikil kvöð á þennan aldursflokk þjóðarinnar. Það var hægt að færa rök bæði með og móti í þessu máli. En hvort sem menn voru með því eða á móti, þá voru allir sammála um, að það yrði að búa svo um framkvæmd þessara mála, að komið væri í veg fyrir, að fólkið, sem þurfti að taka á sig þessar kvaðir, skaðaðist beinlínis af þessum ráðstöfunum. Þess vegna var ákveðið strax, að skyldusparnaðarfólkið skyldi fá ekki einungis venjulega vexti af fé sínu, heldur skyldu vextirnir bundnir vísitölu, sem þýddi það, að raunverulegir vextir, sem þetta fólk fékk fyrir fé sitt, voru langt yfir almennum bankavöxtum.

1964 var þessi kvöð á þessum ungmennum aukin úr 6% upp í 15%. Sjá þá allir, að ef það var þýðingarmikið að gæta hags skyldusparenda, þegar þeir þurftu að leggja til hliðar 6%, þá var það ekki minni þörf, þegar það voru 15%. Og nú eru það 15%. En nú er það alvarlega samkv. þessu frv., sem hér er lagt fram, að nú eru settar takmarkanir á þessa vexti, sem greiddir eru til þeirra, sem lúta skyldusparnaðinum, þannig að vextirnir geta ekki að meðaltali yfir tímabilið farið yfir 7.5%. Þeir geta ekki farið yfir það. Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé ekki rétt. Ég held því fram, að þetta sé svona. Hann skýrir mál sitt þá á eftir. Ég er ekki að væna, eins og ég sagði áðan, hæstv. félmrh. um það, að hann vilji gera verr við skyldusparendur en hefur verið gert, dettur það ekki í hug. En ég leyfi mér að láta mér koma til hugar, að honum hafi sézt yfir þetta atriði, og það væri fróðlegt að heyra skýringar hans á því hér síðar. En ef það er svo, eins og ég held fram, þá sé ég ekki, að skyldusparnaðarkerfið geti haldið áfram. Það er ekki hægt, það er ekkert réttlæti í því að skylda skyldusparnaðarfólkið til þess að lúta því að geta aðeins fengið 7.5% vexti af fé sínu á sama tíma sem það getur fengið 9% vexti með því að leggja það inn í sparisjóðsbók. Ég sé ekkert réttlæti í þessu máli og það er meira en það. Þetta er það alvarlegt mál að mér sýnist það höggva nærri stjórnarskrárákvæði því, sem verndar eignarréttinn í þessu landi. Og það mál þyrfti að athuga. En hvað sem því líður, þá segir mér svo hugur um, að unga fólkið í landinu sætti sig ekki við slíkt óréttlæti. Menn geta sætt sig við byrðar og kvaðir, hvort sem þeir eru gamlir eða ungir. En menn geta ekki sætt sig við óréttlæti, og það á enginn að gera það, hvort sem hann er ungur eða gamall.

Ég hef hér bent á, hve það er víðtækt mál að hreyfa ákvæðunum um vísitölubindinguna. Ég er ekki á móti því, að þeim ákvæðum sé hreyft. Ég tel að það eigi að afnema vísitölubindinguna, eins og ég hef sagt áður, undir þeim kringumstæðum, sem við búum nú við, að þetta er ekki látið gilda nema um þessi einu fjárveitingalán. En það verður . . . (Félmrh.: Ósköp erum við lengi að verða sammála um þetta.) að gæta þess í leiðinni, að tryggður sé fjárhagslegur grundvöllur fyrir veðlánakerfið, og það er það, sem hæstv. félmrh. hefur gert sig sekan um að gleyma. Og hann verður í þessum umr. aldrei of oft minntur á það.

Með tilliti til þess, sem ég hef núna sagt, þá tel ég mikið óráð að ætla að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. Frv. er ekki einungis vanhugsað, það er hættulegt og í því er ekkert varðandi þann vandann, sem mestur er í dag, sem er fjárhagsvandamál íbúðarlánakerfisins. Ég held því, að það eigi að athuga þetta mál miklu betur og á miklu breiðari grundvelli en hæstv. félmrh. hefur gert og það eigi að nota tímann til næsta þings til þess að vinna það verk, og það verk verður að vinna. Það er augljóst mál.

Ég vil þá leyfa mér að víkja nokkuð að því, sem sérstaklega þarf að veita athygli í sambandi við endurskoðun þessara mála í heild. Ég skal þá víkja að lánskjörunum. Það er atriði, sem þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar. Þetta á við lánskjörin varðandi lengd lánstímans og varðandi lánsupphæðina. Ég hef áður vikið að vaxtakjörunum. Lánin núna, hin almennu íbúðarlán eru til 25 ára. Það þótti mikið átak á sínum tíma, 1955, þegar núverandi húsnæðismálalöggjöf var fyrst sett, að hafa lánin til 25 ára, vegna þess að þá a. m. k. um áratuga skeið höfðu ekki þekkzt nein lánskjör með lánum til svo langs tíma. En þó að það þætti vel af sér vikið 1955 að stíga þetta skref, þá er mönnum orðið löngu ljóst, að hér er brýnt verkefni að stíga þetta skref áfram. Það er brýnt verkefni að gera það. Við erum í þessu efni langt á eftir þeim þjóðum, sem við oftast viljum bera okkur saman við, eins og nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Það eru fleiri en ég, sem hafa þessa skoðun. 1970 hafði núverandi hæstv. félmrh. þessa skoðun. Þá lagði hann til, að lánstíminn yrði lengdur upp í 35 ár, úr 25 árum í 35 ár, og lánin yrðu fyrstu þrjú árin afborgunarlaus. Nú hefur hæstv. ráðh. ekki lagt þetta til. Má ég spyrja hæstv. ráðh., hver er ástæðan til þess? Ef það var þörf 1970 í þessu efni, er hún ekki nú fyrir hendi? Mér finnst, að hæstv. ráðh. þurfi að gera deildinni grein fyrir þessu máli. (Félmrh.: Svona skildi íhaldið við þetta.) Svona skildi íhaldið við þetta, segir hæstv. ráðh. Hann um það. En húsnæðismálalöggjöfin, fjáröflunin til húsnæðismálalöggjafarinnar er fyrst og fremst verk íhaldsins, það, sem við höfum í dag. Og Sjálfstfl. hefur aldrei talið, að við værum komnir á leiðarenda í þessum efnum. Sjálfstfl. og ríkisstj. hans bar fram frv. til breytinga á þessari löggjöf 1970, sem miðaði mjög í framfaraátt, og ég efast ekki um. að það hefði verið haldið áfram á sömu braut, ef áhrifa Sjálfstfl. gætti í dag. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvað hefur breytzt síðan 1970? Hvers vegna leggur hann ekki til, að lánstíminn sé lengdur eins og hann lagði þá til?

Í frv., sem lagt var fram 1970 og samþ. var, var gert ráð fyrir, að lánsfjárupphæðin yrði 600 þús. kr., en í frv. var gert ráð fyrir því, að þessi upphæð skyldi endurskoðast á tveggja ára fresti. Hæstv. ráðh. lagði þá til, að þessi upphæð, lánsupphæð veðlánakerfisins, yrði endurskoðuð árlega. Hann lagði til, að þetta yrði gert árlega. Nú eru liðin tvö ár frá því að þessi lög voru sett, og hæstv. ráðh. gerir ekkert til þess að endurskoða þetta, þó að honum beri lagaskylda til þess. En samkv. eigin áliti hefði átt að gera það fyrir ári. Það væri fróðlegt og mér finnst, að hv. d. eigi kröfu á því að fá skýringar á þessum sinnaskiptum hjá hæstv. ráðh. Hvað dvelur hæstv. ráðh. að endurskoða upphæð húsnæðislánanna?

Ég hef hér farið nokkrum orðum um lánskjörin. En þá er hinn meginþáttur þessa máls og ekki veigaminni að sjálfsögðu. Það er fjáröflunin til veðlánakerfisins. Hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir oftar en einu sinni á undanförnum vikum í umr. hér á hv. Alþ., að veðlánakerfið væri í mikilli fjárþröng og það vantaði 500 millj. kr. á þessu ári til þess að geta fullnægt þörfunum. Það hafa aldrei verið nefndar þvílíkar tölur eins og þessar. Ég tek hæstv. ráðh. alvarlega, þegar hann gefur svona yfirlýsingar. En mér þykir miður að þurfa að vekja athygli á því, að hann virðist sjálfur ekki taka svona yfirlýsingar alvarlega, því að ef hann tæki yfirlýsingar sínar um þetta efni alvarlega, þá hefði hann auðvitað lagt til úrræði í þessum efnum í frv. því, sem hér liggur fyrir. En um þetta efni er ekki að finna eitt einasta orð, ekkert.

Fjáröflun veðlánakerfisins er byggð upp að veigamiklum hluta á launaskattinum og skyldusparnaðinum. Þetta eru þýðingarmestu tekjustofnar veðlánakerfisins. En þetta dugir ekki. Atvinnurekendur greiða 1% af launum til Byggingarsjóðsins. Ég held, að á sínum tíma, þegar þetta var ákveðið, hefði mjög átt að koma til greina, að það væru greidd 2% í Byggingarsjóðinn, 1% frá atvinnurekendum og 1% frá launþegum. Að vísu er það ekki fagnaðarefni fyrir neina að greiða skatta: En hér er um ákaflega mikið hagsmunamál að ræða fyrir launþega og ekki sízt fyrir þá, sem ættu verst með að greiða þennan skatt, hefðu minnst launin og ættu eftir að koma sér þaki yfir höfuðið, en engir hefðu meiri hagnað af því, að hægt væri að fullnægja lánaþörf úr Byggingarsjóðnum.

Ég er ekki að segja, að þetta eigi að gera nú. Það geta komið ýmsir hlutir til álita. Hæstv. félmrh. lagði til 1970, að hækkað yrði beint fjárframlag úr ríkissjóði til þessara mála um 50 millj. kr. Þá var þörfin ekki eins mikil og hæstv. ráðh. hefur lýst núna og ég hef áður gert grein fyrir. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvers vegna leggur hann ekki þetta til núna eða samsvarandi upphæð, sem væri töluvert hærri? Hver er ástæðan fyrir þessum sinnaskiptum hæstv. ráðh,?

Hæstv. núverandi ráðh. hélt því fram í umr. 1970, að það væri verðugt viðfangsefni fyrir Seðlabanka Íslands að sjá kerfinu fyrir fjármagni. Hann skýrði þetta nú ekki gaumgæfilega, en ekki má maður gera ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi farið með neitt fleipur í þessu efni. Ef hér eru einhver úrræði og ef það hefði verið ástæða til að grípa til þeirra 1970, þá sýnist mér, að þeim mun meiri ástæða sé að gripa til þeirra núna. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi rætt þetta mál við Seðlabankann núna og hver niðurstaðan hafi orðið. Ég geri ráð fyrir því, að hann hafi viljað halda fram svo snjöllum hugmyndum sem hann var með 1970, og hann hafi ekki minni ástæðu núna til þess að leysa þetta mál með þessum hætti, ef það er mögulegt, heldur en hann hafði þá. (Félmrh.: Við skulum geyma þessa fsp.) Ég held, að hæstv. ráðh. hafi nú nóg með, ef hann ætlar að svara öllum mínum fsp., og ég ætla ekki að íþyngja honum með svona lítilræði. Annars veit ég, að hann er hjálpsamur og mundi gera bæði þetta og fleira fyrir mig, ef ég bæði hann vel.

En áður en ég lýk máli mínu varðandi tekjustofnana, þá vil ég aðeins víkja nokkrum orðum að skyldusparnaðinum. Í sambandi við það, sem ég var að tala um skyldusparnaðinn áðan, kom fram, að hæstv. ráðh. vegur algerlega að því kerfi, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til þess að bæta skyldusparnaðarmönnum upp það, sem þeir tapa við takmörkun á ákvæðum vísitölubindingarinnar á íbúðalánin. En í þessu sambandi er einnig þess að geta, að að vissu leyti hefur skyldusparnaðarkerfið alltaf minni áhrif og minni þýðingu fyrir fjáröflunina að því er varðar aukningu á fjármagni því, sem inn í kerfið kemur. Þetta er vegna þess, að þegar skyldusparnaðurinn byrjar, á fyrsta árinu, þá leggja allir til hliðar, en það þarf ekkert að greiða út úr kerfinu. Á næsta ári þarf að greiða út til eins árgangs og þetta heldur áfram stig af stigi, þannig að það leitar jafnvægis það fjármagn, sem kemur inn í kerfið, og það, sem fer út úr kerfinu, og að öðru óbreyttu kemur loks ekki meira inn í kerfið en það, sem fer út úr því, nema sem svarar fólksfjölgun í landinu. Af þessu leiðir, að það er kominn núna tími til þess að gera sérstakar ráðstafanir til þess að skjóta nýjum stoðum undir fjáraflakerfi veðlánakerfisins, vegna þess að skyldusparnaðurinn hefur ekki sömu þýðingu og áður. En auðvitað hefur skyldusparnaðurinn, á meðan hann stendur, ákaflega mikla þýðingu með því, að hann bindur mikið fjármagn í kerfinu. En það verður þó því aðeins, að hægt sé að halda við þessu kerfi. En í því efni vísa ég til varnaðarorða minna hér áður um það, að þar er öllu stefnt í voða eins og nú horfir, ef frv. þetta verður samþykkt.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um fjáröflunarmöguleika kerfisins. En það er náttúrlega grundvallaratriði, að séð sé fyrir nægilegu fjármagni. Þá verða ýmsir hlutir, sem við höfum rætt um núna á undanförnum dögum og vikum, miklu auðveldari. Þá leiðir af því, að það verður fjármagn til þess að byggja leiguíbúðir, þá leiðir af því, að það verður fjármagn til þess að veita lán út á gamlar íbúðir og þá verður líka möguleiki til þess að veita sérstök lán vegna öryrkja og annarra hópa í þjóðfélaginu. En hæstv. félmrh. minntist ekki á þessi stóru mál, sem ég hef hér verið að ræða um, í frumræðu sinni í þessum umr. Hann minntist ekki á tekjuöflunina og ekki á lánskjörin. Og hann minntist ekki á önnur mjög veigamikil atriði í þessu sambandi, eins og t. d. tæknimálin. Þó verður að geta þess, að hann minntist lítillega á tæknimálin í sambandi við teiknistofu húsnæðismálastjórnar. En húsnæðismálastjórn hefur frá upphafi átt að láta til sín taka tæknimál varðandi húsbyggingar. Þetta var strax tekið fram í lögum 1955. Þar var getið um nokkur atriði, sem húsnæðismálastjórn ætti sérstaklega að láta til sín taka. Í þeim lögum var þetta ekki mikið að vöxtum eða sérlega mikil verkefni, sem húsnæðismálastjórn þurfti að taka að sér samkv. anda og orðum laganna. En 1957 var þessu gerbreytt. Þá voru sett mjög ítarleg ákvæði um þetta efni samkv. stefnu núverandi og þáverandi hæstv. félmrh. Samkv. lögunum frá 1957 var það svo, að húsnæðismálastjórn var nærri ekkert óviðkomandi í tæknimálum, sem varðaði húsbyggingar, og voru sett undir Húsnæðismálastofnunina hin margvíslegustu verkefni. Mér þótti þetta þá töluvert orka tvímælis. Með þessu væri verið að setja upp embættisbákn og fela ákveðin verkefni ákveðnum aðila, sem í fyrsta lagi væri ekki víst, að væri sérlega fær um eða eðlilegt, að annaðist marga þessa hluti og að með þessu væri verið að fara inn á verksvið ýmissa annarra stofnana í landinu, eins og t. d. Iðnaðarmálastofnunar Íslands, Byggingardeildar atvinnudeildar Háskólans o. fl. o. fl. Ég hélt því þá fram, að hér væri um lýðskrum að ræða eða algert ábyrgðarleysi. Það kom líka á daginn. Það tóku engir allt alvarlega, sem þarna var gert ráð fyrir. Sumir tóku sumt alvarlega, og ég hygg, að það hafi verið farin nokkuð rétt leið í stefnumörkun varðandi þessi mál í löggjöfinni frá 1955. Árið 1970, þegar frv. er lagt fram um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er mjög dregið úr þessu, vegna þess að það sáu allir, sem vildu sjá, að hér var um algerlega óraunhæfa hluti að ræða, algerlega óraunhæfa hluti. Það er óþarfi fyrir mig að fara að benda á fjarstæðurnar í þessum efnum, eins og t. d. það, að húsnæðismálastjórn var heimilað að undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa og fara út í stórkostleg fyrirtæki og framkvæmdir. Þetta var sett inn í lögin 1957, en þetta var ekki í frv. 1970. En þegar frv. kemur fram, þá rís núverandi hæstv. félmrh. upp og segir, að þetta megi ekki eiga sér stað, það megi ekkert draga úr verkefnum húsnæðismálastjórnar í þessum efnum. Það séu svik við fólkið í landinu og megi ekki ske og ber fram till., þá öfgafyllstu, sem sézt hefur í þessu efni. Þetta var árið 1970. Nú, árið 1972, segir hæstv. félmrh. og ítrekar í umr. hér áður, að mjög komi til greina að leggja niður húsnæðismálastjórn og leggja öll störf hennar undir veðdeild Landsbankans. Og ég verð áð segja, að þótt margt væri ábyrgðarlaust í því efni, þegar var verið að setja húsnæðismálastjórn verkefni í tæknimálum 1957, finnst mér enn þá ábyrgðarlausara að ætla veðdeild Landsbankans að sjá um öll þau verkefni. Slíkt er auðvitað alger fjarstæða. En ég tek undir það með hæstv. ráðh., að mér finnst ekkert óumbreytanlegt í sambandi við húsnæðismál. Ég get vel talið, að það komi til greina að fela lánamálin veðdeild Landsbankans, eins og hæstv. félmrh. hefur verið að tala um. En ég tel það fjarstæðu að ætla að leggja öll tæknimálin undir veðdeild Landsbankans, eins og hæstv. ráðh. hefur verið að tala um. Ég tel að það eigi að hætta þeim skrípaleik, liggur mér við að segja, að samþykkja hér á Alþ. að fela húsnæðismálastjórn margþætt tæknimál, sem hún hefur engan möguleika til þess að sinna og aðrar opinberar stofnanir í landinu sinna. En hæstv. ráðh. gerir engar tillögur í þessu efni í frv. þessu, sem hann leggur hér fram núna. Hann talar aðeins um það að bæta gráu ofan á svart með því að fela veðdeild Landsbankans öll þau verkefni, möguleg og ómöguleg, sem húsnæðismálastjórn eru falin samkv. núgildandi lögum. Ég segi núgildandi lögum. því að því miður voru fleiri en hæstv. félmrh., sem þótti rétt 1970 að setja sömu fjarstæðuna inn í lög og áður hafði verið. En ég held, að það verði ekki margir, þegar á reynir, sem eru reiðubúnir að hlaupa með hæstv. ráðh. gönuskeið hans á enda og fara með öll þessi verkefni til veðdeildar Landsbankans.

Það, sem ég hef hér rætt um, eru verkefni, sem sérstaklega þarf að sinna, og atriði, sem þarf að taka til athugunar við endurskoðun þessara laga og varða almenna veðlánakerfið. En í þessari löggjöf er margt fleira en hið almenna veðlánakerfi. Þar eru m. a. ákvæðin um verkamannabústaðina. Verkamannabústaðakerfinu var gerbylt 1970 og það er ekki komin mikil reynsla á framkvæmd laganna. Það hefði verið fjarstæða að mínu viti að ætla að hrófla við þeim með þeim hætti, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, gerði ráð fyrir í upphafi og ég hef komið hér að áður. Ég skal þess vegna ekki fara að ræða hér nú nema að gefnu frekara tilefni um verkamannabústaðakerfið. Ég ætla ekki heldur núna að ræða um Breiðholtsframkvæmdirnar og ég ætla ekki að ræða heldur um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, en öll þessi atriði eru veigamiklir þættir varðandi löggjöfina um Húsnæðismálastofnun ríkisins. En það gefst kannske tækifæri síðar í þessum umr. að ræða þau atriði. En mér sýnist, að ég sé þegar búinn að víkja að svo mörgum og svo veigamiklum atriðum þessa máls, að það séu full og frambærileg rök fyrir því sjónarmiði, sem ég setti fram í upphafi máls míns, að þetta mál væri svo illa undirbúið, svo vafasamt og svo hættulegt í núverandi tillöguformi, að hyggilegast sé að bíða með afgreiðslu þess og nota tímann til næsta þings til þess að undirbúa málið betur.