18.05.1972
Efri deild: 95. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vona, að þessi þáttur ræðu minnar eða þagnar verði ekki talinn til málþófs, meðan ég beið eftir hæstv. ráðh. En ég tel, að það sé ekki óviðeigandi, þó að þm. ætlist til þess af hæstv. ráðh„ sem ber svo mjög fyrir brjósti, að þetta mál nái fram að ganga, að hann sé hér í salnum, því að varla verður talið, að málþóf hafi hér gengið úr hófi fram, þegar maður skyldi skoða innlegg hans, sem ekki hefur nú verið til þess fallið að draga úr líkunum fyrir því, að menn hafi uppi nokkur andsvör gegn þeim orðum, sem hann lét hér falla. Og ég verð satt að segja í framhaldi af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér, að lýsa furðu minni yfir þeim viðbrögðum, sem hæstv. félmrh. hefur sýnt hér í þessari hv. d. Það er mál út af fyrir sig, hvernig allur málatilbúnaður er og meðferð málsins í þingi, en fara hér sérstaklega að vera með hnútukast í garð þessarar hv. d., þar sem aðeins tveir hv. þm. höfðu tekið til máls auk hans um mál eins og þetta, — sem hann að vísu gerir allt til þess að reyna að sýna fram á, að sé í rauninni mál sem sé sáralítils virði, en þó er lagt ofboðskapp á að koma hér í gegn, — það fær nú illa samrýmzt hvað öðru. En þegar þessa er gætt, þá fer ekki hjá því, að manni þyki hér vera um ómaklegar ásakanir að ræða af hálfu þessa hæstv. ráðh., ekki sízt eftir að það liggur fyrir og er kunnugt hæstv. ráðh., að þó að okkur væri hjálpað í stjórnarandstöðunni, það væri enginn sérstakur áhugi á að koma þessu þingmáli fram eða það ekki talið með þeim málum, sem hæstv. forsrh. taldi, að væru í fremstu röð mála, sem þyrftu að komast fram, þá engu að síður höfum við tekið vel í það að reyna að afgreiða málið með þeim hætti, að ekki þyrfti að tefja það fram yfir hvítasunnu eða þingstörf að tefjast af þeim sökum. En að það skuli vera óskapazt yfir því, þó að við eyðum hér dagstund til þess að ræða málið, gegnir mikilli furðu. Og ég verð að segja það, að báðir þeir hv. þm., sem hér töluðu, og var nú vítum hæstv. ráðh. fyrst og fremst beint til hv. 5. þm. Vestf„ þeir hafa haldið sig eins vel að þessu máli og ég hef yfirleitt heyrt menn halda sig að málum. Það er kannske hins vegar mjög skiljanlegt hjá hæstv. ráðh., að hann sé ákaflega lítið hrifinn af því, að rakin séu hér í þd. afskipti hans af húsnæðismálum, og hlýtur það að vekja nokkra furðu þm., að hann skuli vera viðkvæmur fyrir því og telja, að það eigi að liggja á milli hluta, sem hann hefur fyrr og síðar sagt um þessi mál, og það skipti ekki heldur máli í sambandi við þetta frv., hvernig húsnæðismálin yfirleitt hafa þróazt og þessi stofnun, sem hér er nákvæmlega verið að ræða um. Ég veit ekki, hvernig á að ræða mál málefnalega, ef ekki með þeim hætti, sem hv. 5. þm. Vestf. hér hefur gert. Það er svo, eins og ég segi, annað mál sem kannske skýrir betur en nokkuð annað, hvað þessi ræða hefur hitt hæstv. ráðh. illa, þau dæmalausu og óráðherralegu viðbrögð, sem þessi hæstv. ráðh. hefur haft hér í frammi í þeirri svarræðu, sem hann flutti áðan, þar sem hann beinlínis neyddi menn til þess að standa á fætur til andsvara þeim furðulega málflutningi, sem þá var borinn á borð.

Hv. 2. þm. Reykv. vék hér að því og vítti réttilega, og ég endurtek þær vítur, hvernig að þessu máli er staðið. Það er búið að liggja fyrir þinginu í langan tíma, án þess að hæstv. ráðh. hafi þokað því nokkuð áleiðis, nema þá að það hafi verið erfiðleikar innan stjórnarliðsins, og sú er auðvitað eina skýringin, að það hafi verið erfiðleikum bundið innan stjórnarliðsins að koma málinu áleiðis. Og sannast sagna furðar mann ekkert á þeim erfiðleikum. vegna þess að málið var þannig í pottinn búið og þannig úr garði gert, að ekki er að undra, að einhverjum hafi ofboðið í stjórnarliðinu, hvernig að málinu er staðið. En það er eina skýringin, en ekki það, að rætt hafi verið um málið í tvær nætur eða málþóf verið í tvær nætur, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, í Nd., þegar þess er gætt, að langt er síðan frv. var til meðferðar í n. og n. skilaði fyrst áliti núna fyrir 2–3 dögum, þá var það tekið til meðferðar, en síðan er það lagt stjórnarandstöðunni til lasts, að hún skuli ekki steinþegjandi kyngja þessu öllu saman, án þess að láta nokkra skoðun í ljós. Þetta er ekki leið fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að fá skilning á framgangi mála. Ég held ekki, að hægt sé að víta stjórnarandstöðuna fyrir það hér, að hún hafi reynt að setja fótinn fyrir þau frv., sem ríkisstj. hefur borið fyrir brjósti, að kæmust fram með skjótum hætti. En það hlýtur að fá sín andsvör úr okkar hópi, þegar með jafnmikilli óbilgirni og ósanngirni er tekið á málum og hæstv. ráðh., sem þetta mál flytur, hefur gert hér í þessari d. í dag. (Gripið fram í: Hefur það þekkzt áður?) Hefur það þekkzt áður? Það er gott, að hæstv. ráðh. á þó einn málsvara hér í d., sem telur afsakanlegt að viðhafa þetta. Ég hefði þó ekki búizt við, að þessi hv. þm. yrði í þeim hópi, sem afsakaði svona vinnubrögð. Það er náttúrlega fróðlegt út af fyrir sig, sem er mjög tíðkað hér af hæstv. ríkisstj., að mæla sig alltaf við að gera það, sem fyrrv. stjórn er talin hafa gert lakast, og haga sér eftir því. (Forseti: Ég vil biðja menn að hafa hljóð í salnum.) Það eru upplýsingar út af fyrir sig, hverjum augum menn líta á þá hæstv. ríkisstj. og hverjar kröfur þeir gera til hennar, sem nú situr í stað. Hæstv. ráðh. hefur látið í ljós undrun yfir því, að ekki sé orðalaust kyngt því frv., sem hér liggur fyrir. Frv. í heild hefur verið rækilega rakið efnislega af hv. 5. þm. Vestf., og skal ég ekki fara að endurtaka þau rök eða gerast hér sekur um málþóf að því leyti að endurtaka það, sem sagt hefur verið, heldur aðeins drepa á nokkur atriði, sem mér finnst sérstaklega athyglisverð.

Það er auðvitað alveg ljóst, enda upplýst og staðfest af hæstv. ráðh., að það var rétt hjá hv. 5. þm. Vestf., að efnislega er höfuðkjarni málsins sá, að flokkur hæstv. ráðh. fái einn í þuklarahópinn til þess að fara höndum um umsóknir um húsnæðislánin. Það sagði hann hér í ræðu sinni áðan, og út af fyrir sig er ekkert við því að segja, og segja mátti á sínum tíma, að sá væri tilgangurinn með flutningi málsins. Það er nefnilega ekki sjáanlegt annað en að hitt atriði málsins, sem ætti að vera aðalatriði þess og vissulega er kjarni þessa frv., um vísitölubindingu lánanna, það hafi ekki verið eins mikið áhugamál hæstv. ráðh. og hann vill vera láta, þegar það er dregið að afgreiða þetta mál, þar til liðinn er gjalddagi húsnæðislánanna í ár. Mér er þannig ekki ljóst, hvernig á að fara að láta það gilda um þær afborganir, sem þegar er búið að greiða af þessum lánum. Það held ég að liggi í augum uppi og sé staðreynd málsins, að það hafi efnislega enga þýðingu, eins og við höfum bent á, þó að afgreiðsla þess væri geymd til hausts, vegna þess að menn hafa þegar orðið að greiða afborganir sínar eftir gildandi reglum eða gildandi árgjöld nú á þessu ári. Þannig að það út af fyrir sig hefur engin áhrif til hagsbóta fyrir það fólk, sem ætlunin er, að hagsbæturnar nái til, þó að málið fengi ekki afgreiðslu, vegna þess að það mundi geta gerzt með mun eðlilegri hætti og að betur athuguðu máli með því að fresta málinu til haustsins. Eina efnislega atriðið, sem eftir stendur því í frv. og veldur því, að verið er að reyna að knýja það í gegn, er því þetta, að flokkur hæstv. ráðh. fái fulltrúa í stjórnina, því að nú er búið að hverfa frá þeim sparnaði, sem hæstv. ráðh. var að stefna að. Ég tel líklegt, að það hafi verið sparnaður að fækka í húsnæðismálastjórninni. Nú hefur hann fallið frá því aftur, þannig að ekki er lengur í rauninni þörf á þeirri 1. gr., sem er í frv., vegna þess að hún er þegar orðin eins og efni þessa máls er í dag, þannig að það eina, sem eftir er af þeim þætti málsins, er ákvæðið um, að nú skuli kjósa nýja stjórn. Og auðvitað er eini tilgangurinn með því að setja þá menn frá, sem nú eru þarna, að svo miklu leyti sem hæstv. ráðh. hefur tök á því og stjórnarliðið, að ná völdum í þessari stjórn. Nú er ég ekki að segja, að þetta sé einstakt fyrirbæri, en það er mjög fátítt, að tekinn hafi verið upp sá háttur, þegar nýjar ríkisstjórnir taka við völdum, að endurkjósa og breyta lögum til þess að ryðja burtu þingkjörnum stjórnum. Þær eru ótal margar til, og ef farið væri að marka þessa stefnu, þá væri auðvitað hægt að gera marga hluti, ef menn vildu láta hafa sig í það og taka upp þau vinnubrögð. En þetta hefur almennt ekki verið gert. Það heyrir til algerra undantekninga, að til slíks sé gripið af ríkisstj., þegar hún kemur til valda, að láta breyta lögum til þess eins að svipta þá menn umboði, sem hafa með réttum hætti verið til þess kjörnir samkv. gildandi lögum frá Alþ. Þetta var að vísu gert af vinstri stjórninni, ef ég man rétt, með bankaráð ríkisbankanna á sínum tíma. Það var þá látið heita, að verið væri að endurskoða bankalöggjöfina, en ég held að megi telja þau skipti nokkuð á fingrum sér, að svona atferli hafi verið í frammi haft. Og ekki sízt kannske verður þetta undarlegt fyrir þá sök, að hæstv. ráðh. virðist bera, eftir orðum sínum að dæma, litla virðingu fyrir vinnubrögðum þessarar stjórnar.

Hæstv. ráðh. segir, að sig furði mjög á því, að stjórnarandstæðingar skuli vera að tala um, að þetta mál sé ekki þess eðlis, að það þurfi að fá afgreiðslu nú, og það sé einmitt þvert á móti nauðsynlegt, að það fái afgreiðslu. Hér sé, eins og hann orðaði það áðan og vildi gera að tilfinningamáli, verið að bæta úr miklu ranglæti, sem lántakendur húsnæðislána búi við vegna vísitölubindingarinnar, og þess vegna beri brýna nauðsyn til þess að gera þessa breytingu. Ég hef áður sagt, að út af fyrir sig skiptir engu máli, þó að það bíði til hausts, vegna þess að gjalddaginn í ár er liðinn. En hins vegar er rétt að víkja svolítið að sögu þessa máls. Hann vék að því, að verkalýðssamtökin hefðu átt þátt í því á sínum tíma með launaskatti, og það er alveg rétt, að það var í sambandi við kjarasamninga, að sá mikilvægi tekjustofn var fenginn fyrir húsnæðismálastjórnina eða stofnunina og er það vel. En ég man ekki betur en það hafi einnig verið á sínum tíma með fullri vitund og ekki andstöðu verkalýðshreyfingarinnar, að vísitöluákvæðin voru sett á lánin. Það var einhliða yfirlýsing, en það var hins vegar ósköp vel vitað, að rætt hafði verið um það við verkalýðshreyfinguna og engin sérstök andmæli höfð í frammi um það, vegna þess að menn lögðu upp úr því, og það veit ég, að hæstv. ráðh. man vel, að brýn nauðsyn væri að reyna að tryggja sem mest fjármagn, og það var einmitt hugsunin að gera það með því að gefa út vísitölutryggð bréf og reyna að fá menn — þá var orðuð þessi hugmynd t. d., sem hv. 1. landsk. þm. vék hér að í dag — til að stuðla að frjálsum sparnaði og eitt og annað gert til þess að reyna að laða fjármagn inn í kerfið. Og það liggur auðvitað í augum uppi, að með því að breyta þessu aftur, þó að við getum verið út af fyrir sig sammála um, að mjög æskilegt sé að gera það, þá hefur þetta víðtæk áhrif á allt fjármálakerfi Húsnæðismálastofnunarinnar. Það hefur alls ekki verið rannsakað ofan í kjölinn, hver þau áhrif verða og hvort þar verði ekki um slíka skerðingu að ræða á tekjum Húsnæðismálastofnunarinnar, að þetta mál þurfi að skoða betur, — og hver á þá að taka á sig þá bagga, sem það leiðir af sér, að lánin verða veitt með þessum breyttu kjörum?

Hæstv. ráðh. sagði, að einkennilegt væri, að við settum fótinn fyrir þetta frv., og vildi halda því fram, að við værum sérstaklega að setja fótinn fyrir þetta atriði. Það er mikill misskilningur. Boðið hefur verið af hálfu stjórnarandstöðunnar að gera samkomulag um málið, þ. e. að taka vísitölumálið út úr og afgreiða það að svo miklu leyti sem hægt er, vegna þess að sannleikurinn er nú sá, að þetta þarf allt að skoða betur, og það er ekki eingöngu skoðun stjórnarandstöðunnar, að þetta þurfi að skoðast betur. Það er enginn ágreiningur um meginstefnuna, sem er talið, að eigi að felast í þessu frv. um að fella niður þessa vísitölubindingu. En það er einn aðili, sem þekkir þetta betur en nokkur annar, og þar sitja ekki eingöngu fulltrúar stjórnarandstöðunnar, heldur einnig stjórnarflokkanna, og það er húsnæðismálastjórn, sem þekkir þetta betur en nokkur annar. Hún hefur gefið um þetta mál umsögn, og þar segir m. a. um þetta atriði:

„Húsnæðismálastjórn er samþykk þeirri meginhugsun, sem liggur að baki 3. gr. frv., að því er varðar breytingu frá núverandi vísitölubindingu afborgana og vaxta. Það er þó mikið álitamál hvort hér er fundin heppilegasta lausn þessa máls.“ Þetta er umsögn húsnæðismálastjórnarinnar, og hún segir áfram: „Mætti eins og ekki síður taka til athugunar og ákveða fasta ársvexti, sem væru lágir fyrstu árin, en hækkuðu nokkuð, er fram í sækti um lánstímann, og stöðvuðust t. d. í 7–8% að nokkrum árum liðnum frá veitingu lána.“

Þá er einnig vikið að því, hvaða áhrif þetta kunni að hafa á fjárhag húsnæðismálakerfisins. Hv. 5. þm. Vestf. vék hér að einu atriði, sem ég efast um, að hafi verið hugsað, og hæstv. ráðh. svaraði ekki fsp. um það atriði, hvaða áhrif þetta hefði t. d. á skyldusparnaðinn. Skyldusparnaðurinn er merkilegt mál, og það er vert að þakka hæstv. félmrh. fyrir það út af fyrir sig að hlutast til um að koma honum á. Það má vera, að menn hafi ekki sýnt réttan skilning á því. Og það er rétt, að fyrrv. ríkisstj. hækkaði skyldusparnaðinn, og þó að þetta að vísu sé ekki orðinn, eins og hér hefur verið vakin athygli á, eins mikilvægur tekjustofn fyrir Húsnæðismálastofnunina eins og það var fyrstu árin, þá er þarna að vísu mikið fé í umferð, sem vex lítið ár frá ári. En ég held, að það sé gersamlega útilokað mál að ætla að fara að láta unglinga leggja til hliðar fé, án þess að tryggja þeim fulla vexti. (Félmrh.: Þetta er misskilningur.) Ég held, að vafasamt sé, að það sé misskilningur. En a. m. k. þarf að kanna þetta mun betur en tök hafa verið á að gera hér, því að það er vægast sagt mjög mikið vafamál og virðist ekki hafa verið skoðað ofan í kjölinn. Það er gott og blessað, ef svo er ekki, en það er eitt af því, sem enn þá er alveg óljóst.

Það eru fleiri atriði, sem ekki hafa verið gefnar neinar upplýsingar um og virðast vera í lausu lofti. Það er, hver á að taka á sig þær greiðslur og kvaðir, sem kunna að verða eftir í sambandi við þau vísitölutryggð bréf, sem þegar hafa verið seld. Það getur vel verið, að hægt sé að fá Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að breyta lánum sínum, það skal ég ekkert um segja, og taka lægri vexti. En það er auðvitað ekki hægt við marga aðila að gera slíkt. Það er því áreiðanlegt, að þarna verður um að ræða þunga bagga, sem leggjast á Húsnæðismálastofnunina, og er hætt við, að dragi úr lánamöguleikum hennar. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh. um eitt, ef hann hefur tíma til þess að hlusta. Það er varðandi það atriði, sem hann gat um í sambandi við lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðunum er skylt að ávaxta fé sitt á hæstu vöxtum og þess vegna er auðvitað vonlaust að ræða við þá um að lána fé sitt með lægri vöxtum heldur en fáanlegir eru hæstir á verðbréfamarkaði hverju sinni, annað er óleyfilegt. Og svo er annað, sem mér skilst að hafi gerzt og hæstv. ráðh. hafi gert eða þeir, sem hafa rætt við lífeyrissjóðina í hans umboði væntanlega, en það er að bjóða lífeyrissjóðunum verðtryggingu þeirra lána, sem þeir láta í veðlánakerfið. Er hugmyndin, að Byggingarsjóður ríkisins taki á sig áhættuna og kvaðirnar af þessari skuldbindingu og öðrum slíkum, eða er kannske hugsunin, að ríkissjóður leggi fram aukið fjármagn til að standa straum af þessum kvöðum? Það hefur áður gerzt hér á Íslandi, og gæti ég nefnt ákveðin dæmi þess, eins og t. d. stofnsjóði landbúnaðarins á sínum tíma, því að á þá voru lagðar kvaðir, sem þeir fengu að lokum ekki undir risið, og urðu þeir fjárþrota, vegna þess að það var lánað með öðrum kjörum það fé, sem þeir endurlánuðu til hinna einstöku lántakenda. Þetta má auðvitað ekki henda Byggingarsjóð ríkisins. Það er mikil gæfa, að þessi sjóður hefur þegar eignazt mikið fé, en ekki má ganga á þennan stofn nema farið sé mjög varlega, og ég vænti þess, að það sé í samræmi við skoðun hæstv. ráðh. að skerða ekki þennan sjóð, og spurningin verður þá, sem vaknar í sambandi við breytingar á þessum vísitölutryggingum lánanna, hvernig fer um t. d. þetta mál og önnur hliðstæð í sambandi við lán, sem kunna að verða tekin, eða lán, sem þegar hafa verið tekin og ógerlegt er annað heldur en greiða samkv. þeim ákvæðum, sem í gildi voru um vísitölutryggingu, þegar lánin voru gefin út og bréfin seld. Þetta er veigamikið atriði, sem stjórn Húsnæðismálastofnunar hefur nokkrar áhyggjur af.

Það eru áreiðanlega allir sammála um, að æskilegt væri, að það færi fram heildarendurskoðun á öllu íbúðarlánakerfinu, og skal ég ekki út í það mál fara, svo að ég verði ekki sakaður um að vera að fara út fyrir efni málsins, þó að það sé vissulega efni þess, að þetta er nauðsynlegt. Þó að gert hafi verið verulegt átak á s. l. ári, er enn þá margt ógert í þessu efni, og það er einmitt eitt af því, sem húsnæðismálastjórnin segir, og á þeim grundvelli leggur hún hreinlega til, að afgreiðslu þessa frv. sé frestað. Það er húsnæðismálastjórnin sameiginlega, sem leggur til, að frv. sé frestað í trausti þess, eins og segir í áliti húsnæðismálastjórnar, að Alþ. og ríkisstj. beiti sér fyrir skipun eða kosningu nefndar, er endurskoði löggjöfina í heild, og verði niðurstaða þeirrar endurskoðunar lögð í frv.-formi fyrir næsta þing. Og húsnæðismálastjórnin segir enn fremur orðrétt: Telur engar þær breytingar í umræddu frv. vera svo aðkallandi eða veigamiklar, að ekki sé unnt að fresta afgreiðslu málsins að þessu sinni. — Og í framhaldi af því segir hún, sem ég áðan gat um, að í því sambandi skal bent á, að ákvæði þau um meðaltalsársvexti, sem um ræðir í 3. gr., mundu ekki geta komið til framkvæmda á þessu ári. Þetta er kjarni málsins og fyrir liggur álit þeirra manna, sem mest og bezt eru inni í þessum málum og hafa um þau fjallað, og ég held, að það sé alveg ósæmilegt að vera í hnútukasti við þessa menn fyrir það, að þeir hafi ekki vel unnið að sínum störfum, heldur hafi þeir góðan vilja á að reyna að leysa mál þessi á farsælan hátt. En þegar fyrir liggur, að það er skoðun þessara manna, að frv. hafi enga þýðingu, það sé til tjóns að fækka í húsnæðismálastjórn, eins og þarna er lagt til, þó að því hafi nú að vísu aftur verið breytt, og það sé varhugavert að íhuga ekki betur, hvaða breytingar skuli gera á ákvæðunum um afnám vísitölubindingarinnar, sem húsnæðismálastjórn er samþykk alveg eins og við, sem höfum haldið uppi gagnrýni á frv. að öðru leyti, erum einnig sammála um, — þegar þetta er allt skoðað, gegnir það vægast sagt furðu, að það skuli vera talið árásarefni á okkur í stjórnarandstöðunni, að við skulum halda fram svipuðum skoðunum og húsnæðismálastjórn ríkisins hér gerir, af því að ég held, að það sé nokkuð einstætt, að slík umsögn berist einróma frá fulltrúum allra flokka, — nema að vísu fulltrúa þessa hæstv. ráðh., sem ekki er þangað enn þá kominn, — þar sem sameiginlega er lagt til jafnákveðið eins og hér er gert að fresta máli, sem ríkisstj. er með. Og það er áreiðanlega ekki að ófyrirsynju, þegar slíkt er gert, vegna þess að opinberar stofnanir reyna nú heldur að fara bil beggja og hlífa hæstv. ráðh., ef þær mögulega geta, við því að fá á sig bein andmæli frá þeim í sambandi við frv., sem viðkomandi ráðh. flytja.

Ég held, að ekkert sýni betur en einmitt þessi skoðun húsnæðismálastjórnar, að það er fullkomlega efnislega eðlilegt, hvernig hér hefur verið tekið á þessu máli af hálfu okkar sjálfstæðismanna, sem um það höfum talað hér og lagt fram till. um það. Það er mál út af fyrir sig, þó að hæstv. ríkisstj. hafi í sáttaskyni við Alþfl. lagt til að breyta aftur eða fjölga í húsnæðismálastjórninni. Það er mál, sem ég skal ekki út í fara og er samningamál hans og þess ágæta flokks, en það er aukaatriði í þessu máli. Það má segja að vísu, að það hljómi mjög kynduglega, að þó að ekki eigi að gera neinar breytingar á stjórninni, þá skuli samt vera ákveðið að kjósa nýja húsnæðismálastjórn, því að venjulega er kosið í sambandi við einhverja breytingu, sem er gerð. Nú á enga breytingu að gera, en hins vegar er þó ákveðið, að kjósa skuli nýja stjórn.

Ég endurtek það og legg á það áherzlu, að við sjálfstæðismenn erum þeirrar skoðunar, að rétt sé að endurskoða ákvæðin og orðið fullkomlega tímabært miðað við verðlagsþróun að endurskoða ákvæðin um vísitölubindinguna. Og við erum efnislega sammála því atriði. Við teljum hins vegar nauðsynlegt að skoða það mál frá öllum hliðum, hvernig það verði bezt framkvæmt og ekki flaustrað af á þann hátt, sem því miður virðist vera gert í þessu frv. að skoðun húsnæðismálastjórnar, og það þurfi jafnframt, sem alls ekki hefur legið fyrir í sambandi við meðferð þessa máls, að gera sér grein fyrir því, hvaða áhrif breyting sem þessi hefur á húsnæðismálakerfið. Og að segja, að það sé í rauninni mál, sem ekki skipti neinu eða a. m. k. litlu og sé eiginlega utan við þetta frv., fjárhagsmál húsnæðislánakerfisins, eins og hæstv. ráðh. segir, það er auðvitað í rauninni ekki hægt að láta sér um munn fara, því að undirstaðan að öllum þessum málum, undirstaða þess, að hægt sé að greiða götu fólksins, sem stendur í þessum mikilvægu framkvæmdum, er auðvitað fjármálalega undirbyggingin og það að tryggt sé, að til sé það mikið fjármagn til þessara þarfa, að uppfylli þarfirnar hverju sinni eins og þær eru, þannig að ekki þurfi að koma þar til neitt pólitískt mat eða þukl, eins og hæstv. ráðh. komst að orði. Það er eina tryggingin fyrir því, að ekki verði rangsleitni beitt í þessu máli. Ef hins vegar á að fara svo, sem skal játað, að var á sínum tíma, þegar mikið vantaði á, að hægt væri að fullnægja þörfum, þá skapast hættan á því, að fari að koma upp pólitísk sjónarmið. Ef hægt hefur verið að fullnægja þörfunum, eins og hefur verið undanfarin ár nokkurn veginn, þá hefur þessa ekki orðið vart, enda hygg ég, að þm. hafi ekki orðið varir við, að það hafi verið við erfiðleika að stríða í því efni eða hægt að hafa uppi ásakanir um það, að þar væri mönnum mismunað. Leið hæstv. ráðh., sem ég þykist vita, að hann hafi áhuga á að fara til þess að koma í veg fyrir pólitíska misnotkun, er því einmitt sú að reyna að tryggja fjármagnsútvegun til kerfisins. Og það, að allur vandinn stafi af því, að fyrrv. ríkisstj. hafi étið upp alla sjóði, er auðvitað gersamlega sagt út í hött. Það þarf að gera kerfisbundna athugun á áhrifum breytingarinnar, sem felst í þessu frv., og gera þarf kerfisbundna áætlun, hvort sem það er í sambandi við útvegun fjár frá lífeyrissjóðum eða með einhverri annarri tekjuöflun, um hvernig á að tryggja nægilegt fjármagn til þess að hægt sé að fullnægja þessum mikilvægu þörfum, sem hér er um að ræða. Þetta á og verður að fara saman, það er óaðskiljanlegt. Það þýðir ekkert að vera að karpa um stjórn á einhverjum fjárvana sjóðum. Við þurfum að láta þetta fara saman, og það er áhugamál okkar, sem höfum viljað, að þetta biði til hausts og heildarathugun færi fram á þessu máli, þannig að það gæti verið skoðað ofan í kjölinn frá öllum hliðum og gerðar þær fjármálalegu athuganir, sem algerlega skortir í sambandi við þetta frv. Það er undirstaða þeirrar till., sem við höfum verið með, að málið yrði látið bíða haustsins og unnið að því í sumar að rannsaka málið alhliða, eins og ég hef hér vikið að. Það þarf að skoða t. d. þessar hugmyndir, hvort hægt er að taka upp frjálsan sparnað. Það getur vel komið til álita, að hægt sé að taka upp skattfrjálsan sparnað í einhverju formi. Það er ekki einfalt mál, og verður, að því er ég ætla, erfitt — það má út af fyrir sig samþykkja það hér sem stefnuyfirlýsingu — að koma því á, án þess að það þurfi að skoða frá mörgum hliðum, hvaða skilyrði menn þurfi að uppfylla til þess að fá slíkan sparnað og annað þess konar. Vafalaust geta einhver önnur úrræði komið til greina, en ég legg áherzlu á, að það er tómt mál að vera að gefa út ávísun með innistæðulausum tékkum, ef það er verið að fjalla um þessi mál án þess að afla aukins fjár um leið og tryggja þessa mikilvægu starfsemi, sem er ein undirstöðustarfsemin í þjóðfélaginu, tryggja fólki húsnæði í landi, þar sem er eins ástatt og hjá okkur, að einstaklingarnir vilja einmitt sjálfir byggja og eiga sín hús, og mun í fáum eða engum löndum vera eins mikið um eigið húsnæði og hér. Það er mikils um vert, að að þessu sé kerfisbundið unnið og málið jafnan skoðað frá öllum hliðum, þetta er það flókið og viðtækt mál eins og greinilega kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf., en ekki flumbrað af einstökum atriðum bara til þess að koma að einhverjum pólitískum sérsjónarmiðum. Og eins og hér var vikið að af hv. 2. þm. Reykv., þá gegnir mikilli furðu með jafnvaskan mann og hæstv. félmrh. vissulega er, þegar hann vill taka skörpum tökum á málum, að það skuli hafa verið látið bíða allan þennan tíma að koma saman ekki stærra frv. en hér er, þar sem sannast sagna er um sáralitla athugun málsins að ræða og hefði auðvitað verið hægt að leggja þetta frv. fram strax í haust og tryggja það, að fólk nyti við afborgun lána núna á þessu ári þeirra hlunninda, sem hæstv. ráðh. telur sig vera að berjast fyrir. Það er sannarlega ekki okkur í stjórnarandstöðunni að kenna, að það hefur ekki gerzt, heldur er það eingöngu því að kenna, að rn. hefur verið seint í svifum og hæstv. ráðh. hefur verið seinn í svifum að koma þessu á framfæri við hið háa Alþingi.

Herra forseti. Ég skal ekki flytja lengri ræðu um þetta mál og vonast til, að mér verði ekki gefið að sök að halda uppi málþófi, og það er ekki ætlun okkar sjálfsræðismanna að halda uppi neinu málþófi hér, en orð mín hér hefðu kannske ekki einu sinni verið sögð, ef hæstv. ráðh. hefði ekki haft í frammi þann ósmekklega málatilbúnað og ásakanir að ráðast hér á okkur fyrir það að leyfa okkur að segja nokkur orð um mál sem við eigum að hafa til meðferðar, einnig til athugunar í nefnd, einn einasta dag. Það finnst mér meiri óbilgirni en svo, að hægt sé að láta henni ómótmælt, og sannast sagna efast ég ekkert um, að hæstv. ráðh. sér eftir því eftir á að hafa borið hv. d. þessum sökum algerlega að tilefnislausu.