18.05.1972
Efri deild: 95. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. taldi mig hafa álasað þessari hv. þd. fyrir málþófstilburði. Ég leyni því ekki, að mér fannst nú vera málþófsbragð að ræðu hv. S. þm. Vestf., en það, sem ég gerði að umtalsefni, var málþóf í Nd., og það viðurkenndi hv. 2. þm. Norðurl. e. líka, að þar hefðu átt sér stað umr. tvær nætur og rúmlega það meira að segja, og það voru sannarlega málþófsumræður.

Hins vegar eru ásakanirnar í minn garð, hvað ég komi seint með frv., ekki á rökum reistar, því að það er einn mánuður og tveir dagar síðan frv. var lagt fram, og vísa ég því alveg frá mér, að það hefði þurft að vera hér alveg á síðustu stundu. Það var a. m. k. ekki mín sök. Ég er hins vegar sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. um það, að ef séð er fyrir nægu fjármagni til húsnæðismálakerfisins, þá þarf enga úthlutun lána, þá þarf enga átta eða níu manna stjórn til þess að úthluta lánum. Þá er það einfalt afgreiðsluatriði, sem bezt væri komið að fá afgreiðslu í banka. Já, við erum sammála um það, og þá þyrftu ekki tvær stofnanir að fást við þetta, heldur dygði ein. Og að því ber að hyggja, þó að hv. Alþ. hafi ekki áttað sig á því enn.

Þá er það varðandi þá spurningu hv. 5. þm. Vestf., hvort skyldusparnaðarkjörin eigi að breytast. Skyldusparnaðarkjörin standa óhögguð algerlega í frv. eins og þau eru í lögum og það er ekkert við þeim hróflað. 7.5% meðaltalsvextir allan lánstímann varða þá, sem fá lán hjá Húsnæðismálastofnuninni, og þá eina. (ÞK: Er þetta skilningur eftir breytingu Nd.?) Þetta er minn skilningur á málinu, já. (ÞK: Eins og málið liggur fyrir núna?) Já, minn skilningur er sá, að ekki eigi að breytast kjör skyldusparnaðarþega.

Hv. 5. þm. Reykn. leiddi talið að fjármagnsþörfinni. Ég hafði áður sagt, að sá liður, svo þýðingarmikill sem hann er, er ekki tekinn með að neinu leyti í frv. af því að það var verið og er verið að vinna að lausn á fjármagnsþörfinni alveg óháð því, hvernig afgreiðslu þetta frv. fær. Og það er áreiðanlegt, að gert verður allt sem hægt er til þess að útvega fjármagn í þeim mæli, að hægt verði að afgreiða þær umsóknir, sem berast á árinu. En það er mikið átak, ég játa það. Þangað til geta þm. ekki sagt annað en ef ekki tekst að útvega fjármagnið, fer allt í óefni. En það er ef. Ég vona a. m. k., að nokkurn veginn takist að leysa þá fjármagnsþörf. Það er ekkert fjarri því, sem hann sagði, að það þurfi á annan milljarð króna til þess að fullnægja þessari þörf. Við skulum segja, að sú áætlun hjá honum sé rétt, að á ári þurfi að fjármagna 1500–1600 íbúðir. Nú eru lánsupphæðirnar 600 þús. En í löggjöfinni eins og hún er, um það þarf enga lagabreytingu, er heimilt að hækka lánin í samræmi við hækkun byggingarvísitölu eftir tvö ár. Nú eru um það bil eða innan skamms tvö ár liðin síðan gildandi löggjöf um húsnæðismál fékk staðfestingu. Það er því að koma sá tími, að heimild sé til þess að endurskoða lánsupphæðina, sem nú er 600 þús., og mundi hún samkv. breytingu á byggingarvísitölu þá fara upp í rúmar 800 þús. Það er rétt. Og 1600 sinnum 800 þús. er sama sem 1 milljarður 280 millj. kr. Það má búast við, að byggingarþörfin á Íslandi á árinu 1972, ef lánin verða hækkuð, sem ég reikna með, upp í 800 þús. kr. úr 600 þús. samkv. heimildinni í löggjöfinni, um það þarf ekki nýja lagasetningu á neinn hátt, fjármagnsþörfin verði um það bil 1 milljarður og 300 millj. Og að því verður stefnt að útvega það fjármagn, svo að ekki þurfi að koma til neins vals á milli umsókna og úthlutunar, eins og hv. 5. þm. Vestf. fékkst lengi við með misjöfnum árangri.