18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., en ekki orðið ásátt um afgreiðslu málsins. Þó flytja meiri hl. og minni hl. sameiginlega eina brtt. á þskj. 958. Standa allir nm. að henni. Sú brtt. er þess efnis, að í stað þess ákvæðis í A-lið 8. gr. laganna, sem kveður svo á, að húsnæðismálastjórn sé heimilt að verja allt að 70 millj. kr. árlega til lánveitinga til kaupenda eldri íbúðarhúsa, þá verði þessi heimild hækkuð úr 70 upp í 80 millj. kr. árlega. Jafnframt er kveðið svo á, að af þessu fé megi einnig verja eftir reglugerð og frekari ákvörðun húsnæðismálastjórnar hluta til endurbóta, til lána, sem notuð yrðu til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja. Þetta er efnislega að mestu leyti sama till. og hv. 3. þm. Reykn. flutti hér snemma á þessu þingi. Nefndin varð ásátt um á sínum tíma að láta það mál bíða, þangað til fyrir lægi stjfrv. um Húsnæðismálastofnunina, en hafði allan tímann hug á því að gera því einhver skil. Í upphaflegu frv. hv. 3. þm. Reykn. var að vísu gert ráð fyrir verulega hærri upphæð til þessara hluta en mögulegt yrði eftir þessari samþykkt, en n. hefur litið til þess, sem öllum er kunnugt um, að miklir erfiðleikar eru á að útvega það fjármagn, sem húsnæðismálakerfið þarfnast til þess að geta staðið undir sínum eðlilegu og hefðbundnu og raunar að mestu leyti lögbundnu lánum, og því hefur ekki þótt fært að taka inn alla till. hv. 3. þm. Reykn. Nefndin hefur með þessari breytingu viljað sýna þessu góða máli, sem hann hefur flutt, nokkurn lit og opna þann möguleika, sem hans till. gerði ráð fyrir, og vænti ég, að allir hv. þdm. séu sammála um, að hér sé þarft mál á ferðinni, ljái þessu máli lið og fallist á þessa úrlausn, þó að hún sé ekki höfðingleg að þessu sinni. En vissulega er það von okkar, sem skipum heilbr.- og félmn., að þegar betur rætist úr um fjárhag þessarar stofnunar og nægjanlegt fé verður til ráðstöfunar, þá sé hægt að sinna þessu verkefni betur en unnt verður nú, þó að þessi till. verði samþykkt. En að einhverju gagni kemur hún áreiðanlega.

Við í meiri hl. heilbr.- og félmn. flytjum einnig brtt. við 6. gr. frv. Þar er eingöngu um formsatriði að ræða, sem ekki þótti nægilega tryggilega frá gengið í frv. eins og það lá fyrir frá hv. Nd., þ. e. að í frv. segir:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Alþ. kýs húsnæðismálastjórn þegar eftir gildistöku laganna, sbr. 1. gr., og fellur þá niður umboð núverandi húsnæðismálastjórnar.“

Það var talið, að ekki væri alveg öruggt, að þetta nægði til þess, að kosin yrði ný húsnæðismálastjórn á þessu þingi, sem er þó að sjálfsögðu meiningin með þessu frv. og hefur alltaf verið raunverulega kannske aðaldeiluefnið milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna. En ég ætla, að menn geti þó alla vega fallizt á það, þó að þeir séu ósamþykkir um þetta atriði sjálfs frv., að rétt er að hafa þetta í því formi, sem allir ætlast til og allir skilja, að verður auðvitað að vera í fullu samræmi við þann tilgang, sem er með þessari lagabreytingu.

Ég sé ekki í raun og veru neina ástæðu til þess, og situr það líka sízt á mér, að lengja umr. með því að hætta mér út á sjói sögu húsnæðismálanna síðustu 10–20 árin. Það er ég hvorki fær um að gera né hef undirbúið mig til að kljást við það, og ég sé í raun og veru ekki heldur ástæðu til þess að fara mikið efnislega út í málið sjálft. Hér er um ákaflega einfaldar breytingar að ræða og í raun og veru auðskildar, þó að mér finnist nú, að það hafi verið hafðir uppi nokkrir tilburðir til að flækja málið meira en nokkur ástæða er til. Ég sé í raun og veru ekki, að í grundvallaratriðum sé um að ræða deilu nema um eitt atriði í sambandi við þetta frv., og hún er sú, hvort kjósa skuli nýja húsnæðismálastjórn. Það er í raun og veru eina grundvallaratriðið, sem hér er deilt um, eftir því sem ég fæ bezt séð. Á því geta menn að sjálfsögðu haft tvær skoðanir, hvort það er réttmætt eða ekki. Ég bendi þó á, að húsnæðismálastjórn er þannig skipuð núna, að Sjálfstfl. á þar þrjá fulltrúa, sem hann hefur engan þingstyrk til að hafa eftir núverandi skipan Alþingis. Og það er nú svo og hefur verið frá upphafi, að húsnæðismálastjórn hefur verið kosin af Alþ. og megnið af tímanum eða lengst af, kannske alltaf, hefur meiri hl. þar verið í samræmi við þingstyrk flokkanna. Ef stjórn slíkrar stofnunar á að vera kosin af Alþ., þá hlýtur það eðli málsins samkvæmt að teljast eðlilegt, að meiri hl. hennar sé skipaður af þeim flokkum, sem hafa meirihlutavald á Alþingi. Og ég vildi nú bara spyrja, ég beini spurningunni, held ég, til hv. frsm. minni hl., af því að ég er nú ekki að hvetja fleiri til að standa hér í pontunni lengur en efni standa til, hvort hún teldi eðlilegt, ef Sjálfstfl. færi með húsnæðismálin, að t. d. fulltrúi okkar flokks væri þar í oddaaðstöðu og gegndi þar formennsku. (MJ: Þá á bara að segja þetta hreinskilnislega.) Ja, ég er að segja þetta hreinskilnislega, að ég tel eðlilegt, að skipan húsnæðismálastjórnar sé í samræmi við skipun Alþ. og þeir, sem ábyrgð bera á húsnæðismálunum, — eins og hér hefur komið fram, því að ég held, að hæstv. félmrh. hafi verið sæmilega dreginn til ábyrgðar fyrir ástand húsnæðismálanna, — eiga líka að hafa vald til þess að koma þeim málum fram, sem þeir vilja, og hafa þau eðlilegu áhrif, sem þeir þurfa að hafa til þess að með þau mál sé farið eftir því, sem þeir álita rétt og vilja. Og ég held, að hvorki ríkisstj.hæstv. félmrh. muni mælast neitt undan þeirri ábyrgð. En ríkisstj. getur hins vegar ekki haft slíka ábyrgð, ef stjórnarandstöðuflokkarnir ráða lögum og lofum í húsnæðismálastjórn og hafa þar meira að segja forustu. Þetta er atriði, sem ég held, að allir raunverulega skilji og finni raunverulega, að hér er um algert og eðlilegt og sanngjarnt mál að ræða. Hitt er svo annað mál, að hæstv. félmrh. beitti sér fyrir því, þegar hann lagði þetta frv. fram í öndverðu, að það yrði fækkað úr sjö í fimm í húsnæðismálastjórn, og sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að það hefði verið til bóta, því að ég hef aldrei orðið þess var, að neinar af þeim nefndum, sem kosnar eru á Alþ. og er nú orðið mjög algengt, að séu skipaðar sjö mönnum, vinni neitt betri störf heldur en áður var, meðan það var almenn regla, að þrír menn skipuðu nefndir. Og ég segi það sama líka um fjölda í nefndum hér á Alþ. Ég held, að það hafi verið misráðið að breyta þar nokkurn tíma um. Hitt er annað mál að ég tel þetta ekki vera neitt úrslitaatriði og tel sjálfsagt af stjórnarflokkunum og hæstv. félmrh. að hafa gengið inn á það að hafa óbreytta tölu, ef betra samkomulag gat þá orðið um málið. En ég sé ekki, yfir hverju Sjálfstfl. hefur að kvarta, þegar inn á það er gengið, að sjö menn skipi stjórnina eins og nú er. Það er þá ekki yfir öðru en því, að þeir krefjist þess að halda sinni aðstöðu þar, þrátt fyrir það að þeir hafi engan þann þingstyrk á bak við sig, sem geri það eðlilegt.

Um vaxtaspursmálið ætla ég ekki að vera langorður. Það hefur öllum verið ljóst lengi, að núverandi fyrirkomulag leiðir til þess, að vextir verða óhæfilega háir miðað víð almenn lánakjör í landinu, og ég held, að allir séu sammála um, að á því þurfi að gera breytingu. Hvort sú aðferð, sem hér er höfð, að ákveða meðaltalsvexti, en halda vísitölukerfinu að öðru leyti, er sú hagkvæmasta og bezta, skal ég alveg ósagt látið, en það er þó a. m. k. alveg öruggt, að með þessu verða lánakjörin sambærileg við það og þó heldur betri en almennt gerist á peningamarkaðinum. Og þó að það sé að vísu rétt, sem komið hefur fram, að gjalddaginn nú á þessu vori sé umliðinn, þá er það hins vegar ekki rétt, að þýðingarlaust sé, að lög um þetta séu sett nú, því að vel getur nú svo farið, — dæmin eru æðimörg um það, að frv., sem eru lögð fram í byrjun þings, eru ekki afgreidd alveg umsvifalaust, — það gæti svo farið, ef frá þessum málum væri ekki gengið núna, að leiðrétting hefði ekki orðið á þessu fyrir næsta gjalddaga. Hins vegar finnst mér skjóta nokkuð skökku við, þegar hæstv. félmrh. er mjög sakaður um það að hafa ekki lagt þetta frv. fram fyrr og því svo á hinn bóginn haldið fram, að það geri ekkert til, þó að þetta bíði í hálft ár eða svo í viðbót. Þar finnst mér skjóta nokkuð skökku við. En sannleikurinn er sá, að ég held, að hæstv. félmrh. eigi hér enga sök á. Hann lét athuga þetta mál mjög vel og farið var út í ítarlegar reikningslegar rannsóknir á því, hvernig hinir ýmsu lánaflokkar kæmu út, bæði af sérfræðingum Seðlabankans og eins af sérfræðingi, sem Alþýðusambandið réð til þeirrar rannsóknar. Þessi rannsókn tók, svo ótrúlegt sem það kann að virðast, miklu lengri tíma en ætlað var í upphafi, og henni var ekki að fullu lokið fyrr en nokkru eftir áramót, þannig að ég held, að sök hæstv. ráðh. í þessum efnum sé ekki stórkostleg, þó að það kunni að vera hugsanlegt, að málin hefðu getað legið eitthvað fyrr fyrir, og að sjálfsögðu hefði það verið æskilegt, ef hægt hefði verið að koma þessu í horfið fyrir afborgunartímann nú. En um það er að sjálfsögðu ekki að fást núna, heldur verða menn að taka málið eins og það liggur fyrir, þegar við erum að fjalla um það nú í dag.

Um 5. gr. frv. held ég að sé ekki neinn ágreiningur, um hugsanlegt hærra framlag til mjög fámennra þéttbýlisstaða varðandi verkamannabústaði heldur en nú er heimilt. Ég held, að um þetta séu allir sammála og þurfi ekki mikið um að ræða. Ég tel sem sagt, að öll barátta hv. sjálfstæðismanna gegn þessu frv. sé eitthvað lík því sem gerðist með Don Quixote, þegar hann barðist við vindmyllurnar, að öðru leyti en því, að þeir eru að reyna að verja það, að einn fulltrúi, sem þeir hafa engan siðferðilegan rétt á, sitji lengur í húsnæðismálastjórn. Það er málið eins og það er núna. En þó að ég ætli mér ekki að verða langorður, þá get ég ekki stillt mig um að fara örfáum orðum um fullyrðingu, sem hér var í frammi höfð af hv. 5. þm. Vestf., þar sem hann hélt því fram, — ég segi ekki gegn betri vitund, því að ég er sannfærður um, að það hefur ekki verið, heldur er þar um misskilning að ræða, — að frv. fæli í sér með einhverjum mjög flóknum hætti, sem ég náði nú ekki utan um að skilja, þegar hann var að skýra það, að það væri verið að fella niður vísitölutrygginguna á skyldusparnaðinum. Eftir því sem ég hef getað athugað þetta mál enn frekar núna í kvöldmatartímanum, þá sýnist mér, að þetta eigi enga stoð í veruleikanum, og ég trúi sannast að segja ekki öðru, þegar hann athugar málið í ró og næði, en hann fallist á það og hafi það, sem sannara reynist. Ég efast ekkert um það. En það, sem mér skildist að væru röksemdir hans fyrir þessu máli, er, að í 11. gr. frv. væri vísað til 5. mgr. 5. gr. laganna. En í 11. gr. frv. er fjallað um skyldusparnaðinn, og segir þar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar sá, sem sparað hefur fé og lagt í sjóð samkv. 1. mgr., hefur náð 26 ára aldri — eða stofnað til hjúskapar, verði það fyrr, kaupir eða byggir íbúð til eigin þarfa, sbr. e-lið 12. gr. — skal hann eiga þess kost að fá endurgreitt sparifé sitt samkv. 1. mgr. með 4% vöxtum frá þeim tíma, er það var innlagt, og með viðbót samkv. kaupvísitölu, sbr. 5. mgr. 5. gr.

Kjörin eru þau, að hann á að fá 4% vexti frá þeim tíma, sem féð er lagt inn, með viðbót samkv. kaupvísitölu, og er vísað til skýringar um kaupvísitöluna í 5. mgr. 5. gr. En sú mgr. hljóðar svo, svo að menn átti sig á því, hvað hér er um að ræða:

„Hagstofa Íslands skal reikna vísitölu, er sýnir breytingar á dagvinnutímakaupi fyrir almenna verkamannavinnu í Reykjavík, samkv. nánari ákvörðun hennar. Grunntími þessarar vísitölu skal vera 1. febr. 1968, og skal hún framvegis reiknuð fjórum sinnum á ári, miðað við fyrsta dag mánaðanna febr., maí, ágúst og nóv. Gildistími hverrar vísitölu í sambandi við útgáfu skuldabréfa samkv. 2. mgr. þessarar gr. og C-lið 8. gr. er þrír mánuðir og reiknast frá fyrsta degi þess mánaðar, er vísitalan er við miðuð.“

Hvorki er hér um að ræða, að 11. gr. eða þeim hluta, sem ég las, sé breytt, né heldur þeim útreikningi, sem ákveðinn er í 5. mgr. 5. gr. um það, hvaða vísitöluuppbót skuli reiknuð á skyldusparnaðinn. Við hvorugu þessu er hróflað og það er sú einfalda ástæða, sem er fyrir því, að fullyrðing hv. þm. hefur ekki við rök að styðjast og hefur verið fram sett, vegna þess að hann hefur ekki athugað málið nægilega vel. Hins vegar er sú breyting, sem gerð var í hv. Nd. og ég tel í raun og veru sjálfsagða, við 6. mgr., en ekki þá 5., og fjallar um það. Þar segir í lögunum, eins og þau eru: „Á ársgreiðslur lána, er Byggingarsjóður tekur samkv. 2. mgr.,“ — þar er um veðlánakerfið að ræða eða sölu veðskuldabréfa veðdeildarinnar — „skal greiða hlutfallslega viðbót, sem svarar helmingi þeirrar hækkunar, er hverju sinni hefur orðið á kaupvísitölu (sbr. 5. mgr. þessarar gr.)“, — þ. e. á sama hátt og Hagstofan reiknar þetta út frá útgáfutíma skuldabréfa til 1. febr. næst fyrir hverja ársgreiðslu. Við þetta bætist samkv. frv., eins og það liggur núna fyrir, að meðaltalsársvextir allt lánatímabilið skulu þó aldrei vera hærri en 7.5%. Viðbót sú, sem þarna fellur til á afborganir samkv. þessari mgr., telst vextir. Hér er eingöngu fjallað um skuldabréfin, sem veðdeildin gefur út. Það kunna að vera skiptar skoðanir hins vegar um það, hversu réttmæt þessi breyting er og hversu heppileg hún sé, en ég hygg þó, að þeir, sem mest hafa talað um fjárþörf Byggingarsjóðsins og fjárþörf húsnæðismálastjórnar, hljóti að átta sig á því, að ef breytt væri svo mjög til batnaðar þeim kjörum, sem lántakendur taka við, en haldið hins vegar þeim uppbótum í vísitölu, sem þeir, sem féð skaffa, — ef því væri hvoru tveggja haldið, þá mundi það jafngilda því, að kveikt væri í sjálfum Byggingarsjóðnum og allur grunnur undir lánakerfinu og starfsemi húsnæðismálastjórnarinnar settur í stórkostlega hættu. Og ég tel þess vegna, a. m. k. að svo komnu, meðan enn þá eru ekki fundnir fjáröflunarmöguleikar til þess að greiða vexti verulega niður, að þá hefði verið algerlega nauðsynlegt að samræma þau kjör, sem lánveitendurnir hafa og lántakendurnir njóta. En ég hygg þó, að þegar betur er að gætt, þá sé ekki hér neitt slíkt alvörumál á ferðinni, sem eigi að hindra eðlilega fjáröflun til sjóðsins, eins og maður gæti haldið kannske við fyrstu sýn. Ef málið er athugað, þá kemur í ljós, að að þeim 2–3 milljörðum kr., sem hér er um að ræða og hafa verið gefnir út sem bankavaxtabréf af veðdeildinni, eru kaupendurnir fyrst og fremst Byggingarsjóðurinn sjálfur og Atvinnuleysistryggingasjóðurinn, og hygg ég, að gengið hafi verið úr skugga um það, að ekki sé torvelt að semja við þessa aðila um þau vaxtakjör, sem hér ræðir um. Það er aðeins af þessum 2–3 milljörðum kr. Ég hef ekki nákvæma tölu um það, hvað þessi bréf eru há alls, en einhvers staðar er það á því bilinu, líklega er það nær þremur, og þá eru það ekki nema 50–60 millj. kr., sem um er að ræða frá öðrum aðilum en þessum tveimur. Það er nú allt og sumt, sem hefur fengizt á svokölluðum frjálsum peningamarkaði, ef hann þá á annað borð er til.

Aftur á móti hvað lífeyrissjóðunum viðkemur, þá fjallar þessi 5. gr. alls ekki um þau lán og það er ekki hugmyndin, að það fari fram í venjulegu bankavaxtakerfi, heldur verði gerðir um það alveg sérstakir samningar og þá væntanlega með eitthvað betri kjörum en þessir almannasjóðir, sem ég hef nefnt, yrðu að sæta. En ég bendi þó á það, að megnið af lífeyrissjóðunum er lánað til húsbygginga félagsmanna með lítið eitt lakari kjörum en hér er um að ræða eða nálega þeim sömu. Og ef fallizt er á, að þeirra hlutverk sé að styðja að því, að almenna lánakerfið sé í sæmilegu horfi, þá hygg ég, að samningar um þá yrðu ekki ákaflega örðugir eða ákaflega dýrir.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi, að ég ætlaði ekki að efna hér til neinna kappræðna, enda tel ég mig ekki hafa eytt meiri tíma í að skýra málið en brýna nauðsyn bar til. Læt ég nú máli mínu lokið og endurtek það, að meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur eindregið til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef gert grein fyrir og prentaðar eru á þskj.