03.12.1971
Neðri deild: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vildi mega segja nokkur orð um þetta mál, áður en það fer til nefndar. Ég er alveg sammála hæstv. félmrh. um það, að of langur vinnutími er engum til hagræðis, hvorki atvinnurekstrinum, atvinnuveitendum né heldur launþegunum, og þessi sjónarmið eiga mikið rúm í hugum manna hér á landi. En ég vil líka biðja menn að gæta þess, að of stuttur vinnutími er ekki heldur til góðs, hvorki fyrir atvinnureksturinn né fyrir launþegana. Ýmsar þjóðir, sem gengið hafa lengst í þessum efnum, hafa þegar fengið smjörþefinn af því að hafa gert frístundir fólksins of miklar, almennings í landinu. Menn hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að lífsgleðin er meiri við að vinna hæfilegan vinnutíma við vinnu og með hæfilegu móti heldur en í frístundum, sem oft og tíðum er varið til annarra hluta og eykur lífsgleðina engan veginn jafnt og vinnustundin hjá öllum almenningi. Þess vegna ber að gæta þess, að vinnustundirnar séu ekki heldur of fáar.

Varðandi það, sem rætt hefur verið hér um, að það sé mikil samstaða um þetta frv. hét í þingi, þá vil ég gera við það þá aths., að það er samstaða yfirleitt um hæfilegan vinnutíma í landinu. Um það atriði er samstaða. En það er langt í frá, að það sé mikil samstaða um þetta frv., þó að menn hafi ekki viljað bregða fyrir það fæti, heldur láta það ganga fram, og það er vegna þess, að það eru margir, sem telja, að það hafi verið mikið óráð hjá hæstv. ríkisstj. að taka það inn í pólitískan málefnasamning að lögfesta vinnutíma hér á landi.

Þó að sumir hafi haldið fram, að það mundi greiða fyrir kjarasamningum, þetta frv. og lögfesting þess, þá er ég algerlega annarrar skoðunar. Ég áiít, að það hafi tafið fyrir samningum. Og spyrja mætti: Hvers vegna hafa samningar tekið svo langan tíma í bezta árferði, sem við höfum haft á Íslandi, eins og raun ber vitni um?

Við höfum búið við þá þróun hér á landi á undanförnum árum, að vinnutíminn hefur verið að styttast smátt og smátt og í áföngum og í frjálsu samkomulagi á vinnumarkaðinum, og ég álít, að áframhaldandi þróun á þessum vettvangi hefði verið farsælli en að löggjafarvaldið gripi inn í, enda hefur það verið gagnrýnt af hv. þm., sem þó hafa ekki viljað bregða fæti fyrir frv. og fylgt því í Ed.

Hæstv. félmrh. sagði, að frv. legði verulegar byrðar á atvinnureksturinn, og þá verða menn auðvitað að meta það og launþegar hafa eflaust metið það á mismunandi hátt, hvað þeir legðu upp úr styttum vinnutíma annars vegar og beinum kauphækkunum og kjarabótum í þeim skilningi hins vegar. Atvinnurekendur hafa sjálfsagt verið sömu skoðunar og hæstv. félmrh., að þetta frv., ef að lögum yrði, legði á þá verulegar byrðar og þar af leiðandi talið sig miður færa til þess að verða við öðrum kröfum launþeganna, sem eru þess eðlis, að sumir þeirra meta þær miklu meira en þessa vinnutímastyttingu, og það er vegna þess, að vinnutímastytting, Lögboðin yfir alla línuna, ef svo má segja, eins og hér, kemur mjög mismunandi niður. Hún felur í sér mismunandi hlunnindi fyrir launþegana, og hún felur í sér mismunandi álögur á atvinnurekendur. Að því leyti væri æskilegra, að málin þróuðust á frjálsum grundvelli og ekki aðeins út frá almennu sjónarmiði, að varhugavert sé, að löggjafinn gripi fram í kjarasamninga, heldur einnig frá sérsjónarmiði þessa máls.

Þegar ég segi, að það sé varhugavert, að löggjafinn grípi almennt inn í kjaramál aðila vinnumarkaðarins, þá geta sumir sagt, að ég hafi staðið að því að lögfesta atriði í sambandi við kjarasamninga í einum eða öðrum tilfellum. En það hefur aldrei verið gert af minni hálfu vegna þess, að ég teldi það æskilegt eða ætti að vera almenn regla, heldur sem undantekning í neyðartilfellum. Það er hins vegar eftirtektarvert, að hæstv. félmrh. taldi heimildir til samkomulags innan frv. vera mjög rúmar. Nú hef ég ekki getað áttað mig á, að þær séu svo mjög rúmar, eins og hann vill vera láta, en það er gott, ef það er, og æskilegt að athuga það nánar við meðferð málsins í n. Ef einhver efi er á því, að heimildirnar séu nógu rúmar, t.d. að hæstv. ríkisstj. ætlar þeim meira rúm en menn hafa skilið, þá kemur það fram undir meðferð málsins og við athugun í nefnd.

Þegar ég taldi, að það væru mjög mismunandi hlunnindi, sem þetta frv. veitti stéttunum, þá er það af ýmsum ástæðum. Sumar stéttir hafa þegar samið á frjálsum grundvelli um styttingu vinnutímans í áföngum og eru komnar langt að því að ná því marki, sem hér um ræðir, en aðrar ekki. Að þessu leyti verða þetta mismunandi hlunnindi. Að öðru leyti er aðstaða stéttanna þannig og starfsgreinanna, að sumar eygja von um aukna yfirvinnu og meta það, telja það til gildis að eiga von á aukinni yfirvinnu og bera þá meira úr býtum með ekki lengri vinnutíma en þarna er lögfestur. Aðrar gera sér enga von um það og vita, að það verður ekki um neitt slíkt að ræða, þær fá engar beinar kauphækkanir, heldur aðeins þau hlunnindi, sem af því leiðir að vinna skemmri tíma. Og ég spyr, þó að það þurfi ekki að svara því hér, bæði tímans vegna og af öðrum ástæðum, en væri rétt, að kæmi til athugunar í n.: Hvernig á að fara t.d. með ákvæðisvinnuna? Er ekki ætlað, að þetta frv. snerti neitt slíkt, eða á að meta t.d. styttingu vinnutímans hjá öðrum til hlunninda fyrir ákvæðisvinnufólk, þannig að það fái eitthvert beint álag eða viðbót á kaupgreiðslur, sem það fær fyrir ákvæðisvinnu sína?

Það er ofmælt hjá hv. 8. landsk. þm., að það hafi orðið samkomulag beggja aðila við samningu frv. Ég ætla ekkert að fara út í þann ágreining, sem þar varð, en hann er auðvitað verulegur, eins og fram kemur í frv., því að aðilar atvinnurekendanna telja allt of langt gengið. Ég er ekkert að mæla því bót. En þeir segja, að hér sé allt of langt gengið, vegna þess að við förum niður fyrir öll Norðurlöndin um vinnutíma með samþykkt þessa frv. Það hefur einnig heyrzt hér í þinghúsinu, þó að það hafi ekki verið rætt opinberlega í þingsölunum, að ýmsir þm. töldu allt annað felast í stjórnarsáttmálanum að þessu leyti heldur en nú er komið fram, og á ég þar einnig ekkert síður við þm. úr röðum stjórnarliðsins. Þeir hafa alls ekki gert sér grein fyrir því, að unnar vinnustundir væru innan við 40 stundir á viku almennt, eins og fram kemur í grg. atvinnurekendanna, eða 38 stundir og 50 mínútur, sem er minna en hjá nokkru hinna Norðurlandanna. Þess vegna er það mín skoðun, að þessi mál hefðu þróazt betur almennt í frjálsu samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins, og einnig er ég mjög vantrúaður á það, eins og ég sagði áður, að lögfesting þessa máls geti með nokkru móti orðið til þess að greiða fyrir kjarasamningunum eða geri það. Við skulum segja, að ef samkomulag hefði orðið um að taka vinnutímastyttinguna upp í áföngum almennt, eins og um hefur verið samið í einstökum tilfellum, þá hefðu auðvitað atvinnurekendur verið færari um að gefa aðrar kjarabætur í beinum kauphækkunum til verkafólksins. Með þessu frv., ef að lögum verður, yrðu raunverulega unnar vinnustundir orðnar innan við 35 tíma á viku hjá okkur, eins og fram kemur í fskj. málsins, og í raun og veru miklu styttri sums staðar vegna flutninga á vinnustað og annars slíks. Og það mun fara að nálgast það, að sums staðar séu ekki unnar vinnustundir nema rétt liðlega 30 stundir á viku.

Það er rétt, sem fram kemur í grg., að ákvæði í íslenzkum lögum um vinnutíma hafa yfirleitt miðað að því að vernda menn gegn ofþjökun við vinnu. En hér sé farið inn á aðra leið, að stytta hinn almenna vinnutíma almennt, og ég held, að sá almenni vinnutími hafi ekki verið um of þjakandi fyrir Íslendinga. Hitt viðurkenni ég, sem fram hefur komið, að íslenzka þjóðin hefur verið vinnusöm þjóð, og hún hefur lagt mikla vinnu á sínar herðar og byggt af þeim sökum upp á skemmri tíma meiri verðmæti í þjóðfélaginu en í ýmsum öðrum nálægum þjóðfélögum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri um frv. Það var ekki mín meining að bregða fæti fyrir framgang þess. En ég legg megináherzlu á það, að ef nokkur kostur væri að rýmka heimildir frv. til frjáls samkomulags á milli aðila vinnumarkaðarins, þá verði það athugað í n. og einkum og sér í lagi með vísun til þeirrar skoðunar hæstv. félmrh., að heimildirnar í þessum efnum séu mjög rúmar, og ætti þar ekki á milli að bera. En það, að ég legg áherzlu á þetta, er vegna þess, sem áður hefur komið fram í máli mínu, að þetta kemur mjög mismunandi við hinar einstöku stéttir og starfsgreinar, og þess vegna gæti aukið frjálsræði jafnað nokkuð metin að þessu leyti. Ég held, að þróun undanfarinna ára gefi einnig það til kynna, að slíkt mál þurfi ekki að vera erfitt baráttumál af hálfu launþeganna gagnvart atvinnurekendum, þótt sumum finnist, að það hafi sótzt of seint, og kann vel að vera, að það hafi sótzt of seint. Það verður að leggja á það mismunandi mat líka, því að það er mjög mismunandi í hinum einstöku starfsgreinum.

Ég skal ekki tefja tímann lengur að þessu sinni, en þætti vænt um, ef það gætu komið til athugunar einhverjar lagfæringar í n. á þeim grundvelli, sem ég hef vísað til. Ég geri ráð fyrir því, að hvorki ég né aðrir úr flokki mínum leggi stein í götu þessa frv. eða bregði fyrir það fæti. En við erum, eins og ég sagði í upphafi, miklu hlynntari hugmyndinni um hæfilegan vinnutíma hjá þjóðinni heldur en það sé borið fram með þeim hætti, sem verið hefur, gert að samningsatriði í stjórnarsáttmála og lagt svo fram til lögfestingar á Alþingi.