18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Við hv. 3. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, skilum sérstöku nál. á þskj. 959 og leggjum þar til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.

Það er komið nú á annan mánuð síðan þessu frv. var útbýtt hér á hv. Alþ. En það er ekki fyrr en skömmu fyrir hádegi nú í dag, sem málið er tekið til umr. hér í þessari hv. þd. og þd. ætlaður einn dagur til þess að afgreiða það og þar með að sjálfsögðu að hafa það til meðferðar í nefnd. Það liggur því í augum uppi, að í heilbr.- og félmn. hefur sáralítill eða nánast enginn tími gefizt til neinnar athugunar á málinu, svo að að nokkru gagni gæti verið, og eru það satt að segja vinnubrögð, sem varla geta talizt til fyrirmyndar. Það kom því úr hörðustu átt, þegar hæstv. félmrh. var í umr. hér í dag að brigzla stjórnarandstæðingum um það, að þeir hefðu tafið þetta mál. Það er ótrúlegt að heyra það hér í þessari hv. þd. og ég tel jafnmaklegt að því er varðar hv. Nd.

Í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. er lofað miklu í sambandi við húsnæðismál landsmanna. Ég hef nú ekki kverið við höndina og treysti mér ekki til að muna það utan að, sem þar stendur, og mér er kannske vorkunn, því að ég hef ekki lesið það kvölds og morgna, eins og manni var ráðlagt hér á sínum tíma. En hitt verð ég að segja, að það fer að verða svona eftir því sem lengra líður lærdómsríkara eða, svo að maður noti nú nútímamál, meira spennandi að lesa það kver og bera saman við það, sem verður í raunveruleikanum, þó að hins vegar hæstv. ríkisstj. beri því alltaf við, að hún sé búin að sitja svo stutt að völdum, að það hafi nú lítill tími gefizt til þess að efna stóru loforðin.

Þessu frv. var útbýtt hér 17. apríl, 17. f. m., og þá var liðinn svona um það bil venjulegur meðgöngutími, frá því að ríkisstj. tók við völdum og þangað til þetta afkvæmi hennar sá dagsins ljós. Hafi einhverjir búizt við því, að þetta yrði myndarlegt afsprengi, — það er ekki víst, að allir hafi búizt við, að það yrði sérlega frýnilegt, — þá hafa þeir hinir sömu sjálfsagt orðið fyrir töluvert miklum vonbrigðum, þegar þetta — ja, ég vil nú segja, eftir að hæstv. félmrh. hafði séð fyrir ljósmóðurstörfunum, þegar þetta — ég vil segja örverpi ríkisstj. var leitt út í lífið. Og það vita allir, að gleði og föðurstolt hæstv. ráðh. var nú satt að segja ekki alveg óblandið.

Það hefur verið spurt um það hér í umr., hvers vegna þetta frv. sé svo seint fram komið. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. lét að vísu falla um það nokkur orð í framsöguræðu sinni, frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hve erfiður hefði verið undirbúningur þessa máls og tímafrekur varðandi sérstaklega og eiginlega eingöngu eitt atriði, — það voru vísitöluákvæðin. Ég þori auðvitað ekki að vefengja það, sem hv. þm. sagði, og ugglaust hefur hann ekki sagt annað en það, sem við hann hefur verið fullyrt. En undarlega seint finnst okkur öðrum eða a. m. k. okkur í stjórnarandstöðunni, að þetta mál sé á ferðinni. Það voru nú önnur vinnubrögð, þegar gamla vinstri stjórnin tók við taumunum um stjórn ríkisins. Það hefur verið rakið hér í umr. En það eru líka liðin 16 ár síðan og það er nú alkunna, að þegar aldurinn fer að færast yfir menn, þá minnkar viðbragðsflýtirinn. En hæstv. félmrh., sem var einnig félmrh. í gömlu vinstri stjórninni, hafði þá önnur og hraðari handtök, því að hann hafði ekki setið nema í nokkrar vikur, þegar hann gaf út brbl. um breytingar, um fjölgun í húsnæðismálastjórninni, vegna þess að það væru svo litlir peningar, og það væri svo mikið að gera. Þótti sumum þetta kannske heldur furðulegur rökstuðningur. En hann gerði meira en það. Í þessum brbl. er ákvæði um það, að ráðh. skuli tilnefna þrjá af þeim, sem kosnir eru, þrjá af þessum sjö, sem áttu nú að eignast sæti í húsnæðismálastjórn, til þess að annast framkvæmdir. Þar með getur maður sagt, að fyrst hafi verið lögboðið þuklarakerfið í húsnæðismálunum og að hæstv. félmrh. megi kallast höfundur og faðir þuklarakerfisins í húsnæðismálum. Það er annars dálítið fróðlegt að lesa umr., sem urðu um það mál þá haustið 1956 og eftir áramótin, þegar þessi lög voru til umr. á þingi hér til staðfestingar, þessi brbl. Þar sagði hæstv. félmrh. m. a., að hann skildi nú ekki, hvers vegna menn væru að kvarta yfir þessari breytingu, þessari fjölgun um tvo menn, sem voru auðvitað þá eins og nú til þess að sjá honum fyrir fulltrúa í húsnæðismálastjórninni, auka áhrif hans og flokks hans þar. En hann sagðist ekki sjá, hvers vegna menn væru að kvarta undan þessu. Í húsnæðismálastjórn voru áður fimm menn og sjálfstæðismenn, sem þá mynduðu stjórnarandstöðuna, áttu þar tvo. Þeir fengju að halda þessum tveimur áfram og hann sæi sem sé ekki, að þetta væri neitt fyrir þá til þess að bera sig upp undan. Hann hefði allt eins getað sýnt hörku og haft bara þrjá og verið þá einráður um það, hverjir þeir skyldu vera, en það hefði hann ekki viljað gera. Hann hefði viljað vera mildur, sýna mildi í þessum málum. En í umr. datt það nú óvart út úr hæstv. ráðh., að breytingin væri vegna þess, að þáverandi stjórn, stjórnin, sem þá var nýtekin við völdum, vildi ekki trúa íhaldsmanni fyrir framkvæmdastjórn í húsnæðismálunum. Þetta sama endurtekur sig. Eitt ár er það fjölgun, næst á það að vera fækkun, en nú varð það ofan á, að það var í þetta sinn haldið sér við, eða verður væntanlega haldið sér við, þá tölu fulltrúa í húsnæðismálastjórn, sem gilt hefur undanfarið. Annars verð ég að segja í sambandi við það, að það er eiginlega heldur hlálegt að sjá 1. gr. frv., eins og hún er orðin núna. Það er búið að breyta henni til samræmis við það, sem er í gildandi lögum. Út af fyrir sig hefði auðvitað bara átt að fella 1. gr. frv. niður, því að gildandi lög standa áfram, þangað til þeim hefur annaðhvort verið breytt eða þau afnumin með nýjum lögum. En ég skal ekki vera að lengja mál mitt með því að fjölyrða um það atriði.

Ég spurði í upphafi máls míns, hvers vegna þetta frv. mundi hafa komið svona seint fram, og þegar það loks er komið fram, hvers vegna þá er dregin svo afgreiðsla málsins sem orðið hefur. Auðvitað hafði stjórnarliðið alveg hreint í hendi sér að ráða ferðinni og hefði jafnvel getað, ef það hefði viljað beita sér, afgreitt frv. og látið ákvæðin um afnám vísitölubindingarinnar koma til framkvæmda núna 1. maí. Það var þó ekki gert. Það verður ekki séð, að í frv. felist neinar þær breytingar, sem séu svo aðkallandi, að það sé nein nauðsyn á að afgreiða þetta frv. núna. En í umr. hér í dag sagði hæstv. félmrh., að það yrði að samþykkja frv. nú þegar. Ég held, að ég fari ekki rangt með það, að hann hafi sagt: Það liggur á, að frv. hljóti nú samþykki, því að verkalýðurinn krefst afnáms vísitölubindingarinnar. — Það skyldi nú ekki vera, að þetta sé svo gömul krafa, að hún hefði miðazt við það, að það yrði gert fyrir 1. maí núna í ár? Héðan af skiptir það engu máli, hvort það er gert nú eða næsta haust, en í því sambandi sagði hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., að þó að þetta yrði nú geymt til haustsins, þá væri kannske ekki alveg víst, að það gengi svo hratt fram hér á Alþ. Það væri kannske ekki alveg víst, að afnám vísitölubindingarinnar væri þá orðið „effektívt“ að ráði fyrir 1. maí. Ég verð að segja það, að samkomulagið er víst ekki alltaf gott í hæstv. ríkisstj. En ef það ætti nú eftir að versna svo, að það tæki allan tímann frá þingbyrjun og fram til sumarmála að koma sér saman um að afgreiða eitt hugsjónamálið, — það þykir mér með ólíkindum. En það er alveg ljóst mál, að afnám vísitölubindingarinnar kemur ekki lántakendum til góða fyrr en í maí á næsta ári. Þá eru sem sé nærri tvö ár liðin frá valdatöku hæstv. ríkisstj., þangað til efndirnar koma á þessu loforði, ef hæstv. ríkisstj. situr þá á annað borð enn að völdum.

Við höfum lagt til, minni hl. heilbr.- og félmn., að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, eins og fram kemur í nál. á þskj. 959, og m. a. teljum við, að það þurfi að skoða betur ákvæðin um afnám vísitölubindingarinnar eða vísitöluákvæði frv. Hv. frsm. meiri hl. n. lét það í ljós hér áðan, að hann væri ekki viss um, að þetta fyrirkomulag, sem hér er ráðgert í frv., eins og það nú liggur fyrir, væri það heppilegasta, og þess vegna sé ég ekki, hvers vegna ekki má af þeirri ástæðu einni fresta frv. Hvers vegna þarf endilega að samþykkja lagaákvæði, sem menn telja vafasamt að verði heppileg, þó að hugsunin á bak við sé góð og allra góðra gjalda verð? Það er líka svo, að allir flokkar hér á Alþ. hafa lýst sig fylgjandi því, að vísitölubinding lánanna yrði afnumin.

Það hefur verið rakið hér í umr., hver hefði orðið afstaða og umsögn húsnæðismálastjórnarinnar um þetta frv. Í húsnæðismálastjórn eiga sæti fulltrúar annarra flokka heldur en flokks hæstv. félmrh. og þar eiga sæti fulltrúar hinna tveggja stjórnarflokkanna. Og mér er nú spurn: dettur mönnum annað í hug en að samstarfið gangi skaplegar þar, þegar fulltrúar stjórnarflokkanna vilja bíða alla vega eftir fullnaðarendurskoðun húsnæðislöggjafarinnar með það að endurkjósa stjórnina, því að það felst í umsögn þeirra? Mundu þeir, ef þeir tortryggðu fulltrúa núverandi stjórnarandstöðu í húsnæðismálastjórn, mundu þeir þá hika við að mæla með því, að stjórnin yrði endurkosin? Mér finnst allt hníga að því, að þetta frv. eigi að fá þá afgreiðslu, sem við hv. 3. þm. Reykn. leggjum til. Það er ekkert í því, sem kallar að, en hins vegar kallar það að að endurskoða lögin um Húsnæðismálastofnun ríkisins, og eins og í hinni rökstuddu dagskrá segir, einkum með tilliti til fjárþarfar Byggingarsjóðs, afnáms vísitölubindingar o. fl. og að sú endurskoðun fari fram nú í sumar og verði lokið fyrir haustið. Ég fæ ekki séð, að það sé nokkru tapað með þessu. Mér finnst, að hæstv. ríkisstj. eigi að hafa tryggingu fyrir því, að ekki sé verið að hlunnfara hana með umsögn húsnæðismálastjórnarinnar og fulltrúa tveggja stjórnarflokkanna, sem þar eiga sæti, og ólíkt hefði satt að segja verið meiri mannsbragur á því að gera ráðstafanir til endurskoðunar og leggja ekki þá vinnu í þetta frv., sem sagt er, að gert hafi verið, því að það hefði þá mátt gera það betur og vandlegar með því að vinna að málunum fram á haust.

Ég skal nú ekki fara miklu fleiri orðum um frv. En það var spurning, sem hv. frsm. meiri hl. n. varpaði til mín um það, hvort ég teldi óeðlilegt, að hæstv. félmrh., sem hefði yfirstjórn þessara mála, óskaði eftir að fá sinn fulltrúa í þessa nefnd. Ég tel það út af fyrir sig ekki óeðlilegt, en ég segi nú eins og hv. 2. þm. Norðurl. e., þegar hann greip fram í fyrir honum: Það hefði þá mátt bara segja það. En ég spyr þá: Er þetta þá ekki bara stefnan að ryðja úr nefndum og ráðum, þegar ný ríkisstj. kemur til valda, hreinsa þar til og setja þar inn alls staðar sína fulltrúa? Það er að vísu svo og skal enginn neita því, að húsnæðismálastjórn á mikilvægu hlutverki að gegna, en það eru líka aðrar stjórnir og ráð, sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þjóðfélagi okkar. Ef þetta á að vera fyrirboði þess, að áfram skuli haldið á þessari braut, þá verð ég að segja, að það finnst mér vera vafasöm stefna.

Ég vil svo aðeins vekja athygli á þeirri brtt., sem við í minni hl. n. flytjum til vara, ef dagskrártillaga okkar skyldi verða felld, sem er um, að endurkosning stjórnarinnar falli niður, og skýrir sú till. sig algerlega sjálf.