18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ætlazt til þess, að hæstv. félmrh. yrði viðstaddur umr. hér, en því miður sé ég, að svo er ekki. Ástæðan til þess, að ég stend upp nú, er fyrst og fremst sú, að ég flutti við 1. umr. málsins ákveðna till. til breytingar á 10. gr. núgildandi laga um húsnæðismálastjórn, sem ég að mínu viti og af minni reynslu þar taldi, að gæti aukið tekjur húsnæðismálastjórnar, sem ráðstafað yrði í auknum útlánum. Ég tók það fram þá, að mér væri ekki fyllilega ljóst fremur en öðrum hv. þdm., hvort sú breyting, sem ég lagði til, gæti haft þau áhrif að auka tekjuöflun til útlána, en hins vegar teldi ég, að fullreynt væri, að sams konar ákvæði, sem giltu um skyldusparnaðinn og ég lagði til, að gilda ættu um hinn frjálsa sparnað, gætu haft allveruleg áhrif í tekjuöflunarátt. Nú er það staðreynd, sem fyrir liggur samkv. atkvgr. í hv. Nd. í dag, að allar hugleiðingar manna um það, að stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar verði skipuð með öðrum hætti en verið hefur undanfarin ár, þ. e. með kosningu þingkjörinna fulltrúa í stjórnina, eru andstæðar vilja Alþ., og berlegust var sú yfirlýsing, sem hv. Nd. gaf um þetta í dag, þegar einn þm. lagði til. að stjórnin yrði skipuð þremur fulltrúum, einum tilnefndum af fulltrúa sveitarstjórnasambandsins, einum fulltrúa Alþýðusambands Íslands og þeim þriðja skipuðum af félmrh., og till. var felld með öllum atkvæðum gegn einu, atkvæði flm. sjálfs. Það virðist því liggja enn einu sinni fyrir, að Alþ. lítur svo á, að á meðan þessi stofnun, Húsnæðismálastofnun ríkisins, er upp á Alþ. komin með alla sína tekjustofna, þá vill Alþ. sjálft, þá vilja alþm. sjálfir hafa hönd í bagga með og ákveða, hverjir eru þar í stjórn. Ég tel, að þetta sé svo skýlaus yfirlýsing Alþ., að um hana verði ekki deilt og hún ekki vefengd, hvað sem einstökum þm. kann að sýnast um þessa hluti, og því beri að horfast í augu við þessar staðreyndir.

Þrátt fyrir fjarveru hæstv. félmrh. vil ég — í trausti þess, að hann, félmrh., láti nú þegar fram fara allsherjarendurskoðun á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins með þátttöku fulltrúa allra þingflokka, sem fulltrúa eiga á Alþ. í dag og þá sér í lagi um þá hlið stofnunarinnar, sem að tekjustofnum Byggingarsjóðs ríkisins veit, — til að einfalda það mál. sem hér er til umr., taka till. mína á þskj. 956 aftur. En ég ítreka það, að ef hæstv. félmrh. eða hæstv. núv. ríkisstj. ætlar að ganga gegn yfirlýstum vilja Alþ. í þessum efnum og hafa einhverja happa- og glappaendurskoðun á þessum málum og velja fulltrúa til endurskoðunar á þessu af handahófi, þá gildir þessi afturköllun mín á till. ekki nema til samkomudags næsta Alþingis. Ég vil eindregið undirstrika það, að ríkisstj. verður eins og við að horfast í augu við þá staðreynd, að Alþ. ætlar sér að ráða því, hverjir stjórna Húsnæðismálastofnun ríkisins, svo lengi sem stofnunin, eins og hún sennilega ætið mun verða, er upp á Alþ. komin með sína tekjustofna, og ég tel það brigð við Alþ., ef gengið verður fram hjá nokkrum einum þingflokki um þátttöku í þeirri endurskoðun, sem ég hér hef vitnað til.

Með hliðsjón af framansögðu tek ég umrædda till. mína á þskj. 956 aftur, en undirstrika enn og aftur þær forsendur, sem fyrir þessari afturköllun eru.