18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e., frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., ræddi nokkuð almennt um þetta frv., sem hér er til umr. Hann gerði nokkra tilraun til þess að rétta hlut félaga síns, hæstv. félmrh., og var það ekki óeðlilegt. Hins vegar tókst honum ekki að mínu viti að gera það, enda fæ ég ekki séð, hvernig það er hægt. Ég sé því ekki ástæðu til þess að eiga hér orðaskipti við þennan hv. þm. um málið almennt. Ég er þegar við 1. umr. búinn að ræða það svo almennt. Ég vil hins vegar nú takmarka mig aðeins við eitt atriði, sem hv. þm. gerði að sérstöku umtalsefni. Þar á ég við, hvaða vaxtakjör mundu gilda um sparifé skyldusparnaðarins, ef frv. væri samþ. eins og það liggur nú fyrir.

Hv. þm. sagði, að ég hefði misskilið þetta mál og hann sagðist ekki heldur væna mig um það, að ég vildi hér halda fram vísvitandi röngu í þessu efni. Það er með sama hugarfari, sem ég ræði þetta mál núna. Mér kemur ekki til hugar að halda, að hv. 6. þm. Norðurl. e. vilji vísvitandi blekkja hv. d. Það hvarflar ekki að mér og sjálfsagt ekki að neinum öðrum. En það er um misskilning að ræða hjá hv. þm., sem er mjög alvarlegur, og hann er svo alvarlegur að mínu viti, að við þurfum að fara nánar inn í málið. Ég skal leitast við að vera stuttorður. En í 11. gr. núgildandi laga, sem fjallar um skyldusparnaðinn, er kveðið svo á, að vextir af skyldusparnaðarfé skuli vera 4% og með viðbót samkv. kaupvísitölu, sbr. 5. mgr. 5. gr. Í 5. mgr. 5. gr. eru ákvæði um vísitöluna, við hvaða vísitölu skuli miðað, þegar ákveðin eru kjörin af bankavaxtabréfum til fjáröflunar fyrir íbúðalánákerfið. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hagstofa Íslands skal reikna vísitölu, er sýnir breytingar á dagvinnutímakaupi fyrir almenna verkamannavinnu í Reykjavík samkv. nánari ákvörðun hennar. Grunntími þessarar vísitölu skal vera 1. febr. 1968 og skal hún framvegis reiknuð fjórum sinnum á ári miðað við fyrsta dag mánaðanna febr., maí, ágúst og nóv. Gildistími hverrar vísitölu í sambandi við útgáfu skuldabréfa samkv. 2. mgr. þessarar gr. og C-lið 8. gr. er 3 mánuðir og reiknast frá 1. degi þess mánaðar, er vísitalan er miðuð við.“

Hv. 6. þm. Norðurl. e. segir, að tilvitnunin í 11. gr. eigi við þessa 5. mgr. 5. gr. og ekki annað. En ég segi, að hún eigi líka við 6. mgr. 5. gr., þó að það sé ekki fram tekið í 11. gr., vegna þess að 5. og 6. mgr. 5. gr. hanga saman og það er vitnað í 5. mgr. í 6. mgr. En 6. mgr. 5. gr. er — með leyfi hæstv. forseta — á þessa leið:

„Á ársgreiðslur lána, er Byggingarsjóður tekur samkv. 2. mgr. þessarar gr., skal greiða hlutfallslega viðbót, sem svarar helmingi þeirrar hækkunar, er hverju sinni hefur orðið á kaupvísitölu, sbr. 5. mgr. þessarar gr., frá útgáfutíma skuldabréfa og til 1. febrúar næst fyrir hverja ársgreiðslu.“

Þessar gr. hanga saman, 5. mgr. og 6. mgr. Þess vegna á tilvitnunin í 11. gr. við þær báðar. Þetta er augljóst mál. En til þess að skýra þetta betur er nauðsynlegt að rifja nokkuð upp söguna, þó að mönnum sé nú sumum hverjum illa við, að það sé gert í þessum umr. En hjá því verður ekki komizt.

Ákvæðið í 5. mgr. um vísitöluna er frá þeim tíma, þegar miðað var við fulla vísitölu, hæði hvað viðkemur vöxtunum á bankavaxtabréfunum og vöxtunum á útlánum húsnæðismálastjórnar og vöxtunum á skyldusparnaðarfé. Þá var miðað við fulla vísitölu. En 1968 sáu menn, að það var ekki lengur stætt á því að miða við fulla vísitölu, vegna þess að vextirnir voru þá óhæfilega háir. Mig minnir, að þeir hafi verið þá á milli 20 og 30%, vextirnir. Og ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að þeir voru komnir yfir 20%. Það þóttu of háir vextir. Þá var sett það ákvæði, sem er í 6. mgr., að það skyldi miða við helming vísitölu. Þannig hafa lögin líka verið framkvæmd síðan, hæði hvað snertir vexti af bankavaxtabréfum til fjáröflunar fyrir kerfið og líka hvað snertir vexti á útlánum veðlánakerfisins samkv. 8. gr. og, ég bið menn að taka eftir, líka þegar reiknaðir hafa verið vextir af skyldusparnaðarfé. Ef það er nú rétt, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. vill halda fram, þá þýðir það, að það ætti að hætta núna, ef þetta frv. verður samþ., að miða, hvað viðkemur skyldusparnaðinum, við hálfa vísitölu, heldur ætti að miða við heila vísitölu, sem mundi þýða helmingshækkun vaxta af skyldusparnaðarfé. Ég bið menn að athuga, hvað þetta þýðir. Það er nokkur munur á því að fella niður eða takmarka vextina af skyldusparnaðarfénu við 7.5% eða, ef skilningur hv. 6. þm. Norðurl. e. væri réttur, að hækka vexti af skyldusparnaðarfé frá því, sem þeir nú eru, um helming. Slíkt getur ekki staðizt.

Mér sýnist, að það sé ekki sæmandi fyrir þessa d. að afgreiða þetta mál eins og það liggur fyrir núna. Ég hef áður lýst því yfir hér fyrr í umr. í dag, eins og fleiri hv. þm., að rétt væri að fresta málinu. Á það vilja hv. stjórnarþm. ekki fallast og hæstv. félmrh. vill fá afgreiðslu á þessu máli á þessu þingi. Látum það gott heita. Enn þá er nokkur tími til stefnu og ég verð að segja það að ég ber það mikla virðingu fyrir þessari hv. d., að mér sýnist, að henni sé ekki sæmandi að afgreiða málið nema eftir betri athugun. Og ef hæstv. félmrh., sem nú er víðs fjarri þessum mikilvægu umr., vill halda fast við það að afgreiða þetta mál. áður en þingi er slitið, þá sýnist mér, að það væru rétt vinnubrögð núna, að hv. heilbr.- og félmn. tæki málið aftur til athugunar til þess að freista þess, að það sé eitthvað fast ákveðið um þetta efni varðandi vexti af skyldusparnaðarfé. Þeim mun fremur ættu menn að gera það, sem það er augljóst, að ef ekki verður gerð breyting á frv., eins og það liggur nú fyrir frá Nd., þá eru lækkaðir vextir af skyldusparnaði niður í 7.5%. Talsmenn stjórnarliðsins í þessum umr. segja að vísu, að þetta sé ekki réttur skilningur, en í því felst, að þeir séu á móti þessu. En þeir geta að mínu viti ekki verið á móti þessu á þeim grundvelli, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. vildi vera láta í ræðu sinni hér áðan, því að þá erum við komnir í aðrar öfgar. Þá erum við að hækka um helming vextina af skyldusparnaðarfénu, sem samkv. þeirri reglu þóttu orðnir allt of háir 1968. Ég vildi því mega bera þau tilmæli fram við hv. formann félmn., að hann gengist fyrir því, að málið sé tekið fyrir, þetta atriði sé athugað frekar í n., áður en þessum umr. lýkur, eða fyrir 3. umr. Mér sýnist, eins og ég hef áður sagt, að annað sé ekki sæmandi þessari hv. d., og ég veit það, að hv. 6. þm. Norðurl. e. er ekki síður kært um sóma þessarar d., sem hann er forseti fyrir, heldur en mér, og ég vil því leyfa mér að vona, að hann verði við þessum tilmælum.