18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa nokkrum vonbrigðum mínum með það, að hv. síðasti ræðumaður, sem er formaður heilbr.- og félmn., frsm. n. og jafnframt forseti þessarar d., skuli ekki hafa séð sér fært að athuga þetta mál nokkru nánar. Og ég verð að segja það, að þessi orð, sem hann sagði hér, sannfærðu mig ekki um réttmæti þeirrar synjunar, nema síður væri. Ég vil ítreka það, sem ég sagði áður, að þegar þessu vísitöluákvæði var breytt þannig, að það skyldi miðað við hálfa vísitölu, þá var það augljóst öllum, að það varð að gera það vegna þess, að vísitöluákvæðin framkvæmd til fulls voru komin út í öfgar frá hvaða sjónarmiði sem var. Og alla tíð síðan, og það er enginn vafi á því, hafa vextir af skyldusparnaðarfé verið miðaðir við helming vísitölu. Þetta eru staðreyndir í málinu.

En svo eru staðreyndir, sem fram hafa komið hér í þessum umr., og þær eru um það, að hæstv. félmrh. lýsir því hér yfir, að það eigi engin breyting að verða á vaxtakjörum af skyldusparnaðarfé frá því, sem verið hefur, þ. e. að það sé miðað við helming vísitölu. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. segir, að þetta sé ekki rétt, það eigi að hækka vextina af skyldusparnaðarfé um helming. Sýnist mér nú, frá hvaða sjónarmiði sem litið er á þetta mál, að það taki alltaf á sig lakari og fráleitari mynd, og ég get ekki stillt mig um það í fullri vinsemd að ítreka enn þá óskir mínar til hv. 6. þm. Norðurl. e. að taka þetta mál til frekari athugunar, og mér finnst, að honum beri siðferðisleg skylda til þess sem forseta þessarar deildar.