18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það var aðeins, að ég vil undirstrika það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hann sagði, að það væri sín skoðun, að það gæti leikið vafi á því, hverjir væru vextir af skyldusparnaðarfé, ef frv. þetta væri samþ. í þeirri mynd, sem það er núna. Það gæti leikið vafi á því. Hér er um mjög þýðingarmikið atriði að ræða. Ég tek það fram, að ég tel það óforsvaranlegt að afgreiða þetta mál meðan vafi leikur á því, og þess vegna ítreka ég þá skoðun mína, að það sé eðlilegt að gefa þessu frekari gaum og athuga málið áður en það verður afgreitt.