03.12.1971
Neðri deild: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða fyrir mig að segja hér nokkuð mörg orð um aðdraganda þess frv., sem hér er nú til umr., um 40 klst. vinnuviku, og væri þar af nógu að taka. Ég skal þó ekki tefja þessa 1. umr. um frv. mjög mikið, langar aðeins til þess að bæta hér nokkrum orðum við það, sem sagt hefur verið af hv. þm., sem hér hafa talað.

Spurningin er um það, sem menn hafa nokkuð velt fyrir sér, hver sé hæfilegur vinnutími á Íslandi. Erum við að nálgast það mark kannske nú að stytta vinnutímann um of? Erum við að nálgast það mark, að það sé að verða okkur hættulegt, hvað vinnutíminn sé orðinn stuttur? Þessu svara ég hiklaust neitandi. Markið hjá okkur í vinnutíma á Íslandi er þvert á móti hitt, að við erum með allt of langan raunverulega unninn tíma hjá launþegunum í dag, svo langan, að það er að verða í raun og veru að heilsufarslegu atriði og heilbrigðisatriði að stytta hann. Ég ætla ekki hér að tíunda fyrir hv. þm. öll þau dæmi, sem ég þekki og get bent á, um slys og sjúkdóma, sem beint er hægt að rekja til of langs vinnudags. Það liggur ljóst fyrir, að þó að hið háa Alþ. lögfesti nú 40 klst. vinnuviku, þá, eins og komið hefur fram fyrr í þessari umr., verður 40 klst. vinnuvika í raun ekki að veruleika strax eða alveg á næstunni, því miður. Enn munum við launþegar vinna eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu, eins og verið hefur um alllangt árabil og kannske alla Íslandssöguna.

Ég hef margoft verið spurður að því, á meðan þetta mál hefur verið á döfinni: Er þetta bara ekki fals að vera að stytta dagvinnustundirnar? Verður ekki bara bætt við sem svarar 4 tímum í yfirvinnu? Það er ekki óeðlilegt kannske, að þeir, sem þekkja ekki gjörla til þessara mála, velti slíkri spurningu fyrir sér. Ég hef bent mönnum á, að það er ekki ýkjalangt síðan vinnuvikan hjá hinum almenna launamanni á Íslandi var 48 klst., og styttingin niður í 44 klst. varð á nokkrum tíma raunveruleg. Staðreyndin varð ekki sú, að til viðbótar 10 eftirvinnuklst. á viku væri bætt 4 næturvinnuklst. Það var bætt kannske nokkrum klst. í næturvinnu við fyrstu vikurnar, en siðar varð raunveruleg 4 klst. vinnutímastytting á viku við þá samninga, sem gerðir voru.

Ég vil því fagna þessu frv., sem hér liggur nú fyrir Nd. Alþ., og ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að við í verkalýðshreyfingunni fögnum því einmitt sérstaklega, að núv. ríkisstj. skuli hafa tekið þetta mál upp í stjórnarsáttmála sinn. Krafan um 40 klst. vinnuviku er í mörg ár búin að vera ein af höfuðkröfum verkalýðsins á Íslandi. Hann hlýtur því að fagna því, þegar ríkisvaldið sjálft réttir honum hjálparhönd til þess að gera þann draum að veruleika.

Vissulega eru til meðal fólks í kringum okkur mismunandi skoðanir á því, hvort þetta sé rétt leið. Og í þeim skoðanaskiptum hafa menn oft velt fyrir sér spurningunni, hvort atvinnuvegirnir þoli í raun þær álögur, sem af því leiðir, að vinnuvikan sé stytt úr 44 klst. í 40 klst. Er ekki verið að ofgera greiðsluþoli atvinnuveganna? Okkur hafa verið birtar ýmsar útreiknaðar tölur, sem hafa átt að sanna okkur á vísindalegan hátt, að afleiðing þess að stytta vinnuvikuna í 40 klst. væri svo og svo mörg prósent í álögum á atvinnuvegina. Staðreyndin er samt sú, að það er ekki til sá talnaspekingur, sem getur reiknað út, hverjar álögur það eru nákvæmlega í prósentum, sem af þessu mundi leiða, einfaldlega vegna þess, að það eru margir aðrir þættir en kaldur talnaútreikningur, sem verka á þetta. Það er t.d.: Hver verða aukin afköst á klst. vegna styttingar vinnuvikunnar? Það er dæmi, sem enginn getur reiknað út fyrir fram. Það er hægt að reikna út eftir á með samanburðarreikningi. við vitum, að í öllum nálægum löndum hefur stytting vinnutímans leitt til aukinna afkasta, og aukin afköst leiða til lækkunar á rekstrarkostnaði atvinnuveganna að ýmsu leyti og aukinnar framleiðni. En það er ekki ýkjafjölmennur hópur í þjóðfélaginu nú, sem ekki hefur 40 klst. vinnuviku. Að vísu hef ég ekki um það tölur hér handbærar nú, en þær eru til. Og við launþegar, sem annaðhvort vinnum erfiðustu störfin, eða hinir, sem erum fulltrúar þeirra, viljum gjarnan spyrja: Hafa undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar betra greiðsluþol til þess að bera 40 klst. vinnuviku þess, sem kalla mætti flibbakarlalaunþega, heldur en 40 klst. vinnuviku þess launþega, sem vinnur sóðalegustu og erfiðustu störfin í þjóðfélaginu? Svar mitt er aðeins eitt. Það er nei. Við neitum að trúa því, að það séu bara þeir, sem vinna erfiðustu störfin og þau sóðalegustu, sem með því að fá 40 klst. vinnuviku lögfesta væru að ofgera greiðsluþoli atvinnuveganna.

Það er að vísu ekki í mínum verkahring og reyndar alls óþarft, að ég svari neinu fyrir hönd hæstv, félmrh. En hér var vikið að áðan, hversu rúmur rammi þetta lagafrv. væri, það var gert af hv. 1. þm. Reykv., Jóhanni Hafstein. Ég hygg, að það, sem félmrh. hafi átt við með orðum sínum eða a.m.k. liggur það í augum uppi fyrir okkur, sem höfum mikið um þessi mál fjallað, er, að frv. ákveður ekki, hver hinn raunverulegi vinnutími á að vera. Og það er ekki rétt, sem segir hér í séráliti fulltrúa atvinnurekenda, að við launþegar höfum krafizt þess, að hann yrði langtum styttri en á hinum Norðurlöndunum. Þar gefa þeir sér sem forsendu, að kaffitímar verði óbreyttir frá því, sem þeir eru lengstir í dag, eða 11 20 mín. kaffitímar á viku. Það er langt síðan fulltrúar okkar í 18 manna nefnd við samningaborðið lögðu það fram, að hinn raunverulegi vinnutími væri nákvæmlega hinn sami og hjá opinberum starfsmönnum, þ.e.a.s. miðað við 5 daga vinnuviku 37 klst. 10 mín., en miðað við 6 daga vinnuviku 36 klst. 50 mín. Okkur var að sjálfsögðu ljóst, að um leið og við vorum að krefjast að fá sömu vinnustundatíma á viku og opinberir starfsmenn, þá væri óraunhæft af okkur að gera ráð fyrir því, að hinn raunverulegi vinnutími okkar ætti að vera styttri en annarra þjóðfélagsþegna, sem væru með sömu skráðu vinnuviku. Þetta vildi ég aðeins, að hér kæmi fram.

Það er einnig innan ramma þessara laga samningsatriði, hvenær eigi að byrja vinnutíma að morgni. Og ég vil að vísu engu spá um það, hvernig það verður í einstökum atriðum, en töluverðar líkur eru á því, að það verði mikið samræmt nú frá því, sem áður hefur verið innan sömu starfsgreina til hagsbóta m.a. fyrir atvinnureksturinn og án þess að um óhagræði ætti að vera að ræða fyrir launþega. Það er einnig innan ramma laganna gert ráð fyrir heimild til þess að semja um vaktavinnufyrirkomulag, sem hlýtur að verða það vinnutímaform, sem tekið verður upp í stórauknum mæli frá því, sem áður hefur verið, með styttingu vinnudagsins. Eins er um tilhögun kaffitíma og matartíma. Það er algerlega frjálst að semja um það milli aðila innan ramma þessara laga. Þessi lög ákveða einungís lengd vinnutímans, en tilhögun hans að öðru leyti er sett í hendur aðila vinnumarkaðarins að semja um. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að það fyrirkomulag verður með ýmsu móti, eftir því sem bezt hentar hverri starfsgrein fyrir sig, og reyndar væri allt annað óeðlilegt, því að það væri í hæsta máta óeðlilegt að ætla sér að fara að setja nákvæma reglu um eina tilhögun vinnutímans í öllum starfsgreinum þjóðfélagsins.

Ég vil aðeins að lokum segja þetta, herra forseti: Ég hef í verkalýðshreyfingunni lengi verið virkur þátttakandi í því að bera fram kröfuna um 40 klst. vinnuviku til handa launþegum. Mér er það því mikil ánægja að vera nú þátttakandi í því hér á Alþ. að lögfesta 40 klst. vinnuviku og gera þar með eina af höfuðkröfum verkalýðshreyfingarinnar að raunveruleika.