20.05.1972
Neðri deild: 90. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það hefur stundum komið fyrir hér á þessu þingi, að menn hafa kvatt sér hljóðs utan dagskrár til að leiðrétta röng ummæli, sem þeir telja, að fram hafi komið í fjölmiðlum. Ég hef nú ekki lagt stund á þessa iðju, þó að ég telji, að ærið oft hafi verið rangt sagt frá mínum verkum, og stafar það sennilega af því, að ég er orðinn svo vanur þessu um aldarfjórðungsskeið, að ég er hættur að taka eftir því. En það kom frásögn í Morgunblaðinu í dag, sem mér finnst engu að síður að ég þurfi að leiðrétta: Þar er það staðhæft, að grimmilegar deilur innan ríkisstj. hafi tafið þingslit, og sagt, að þær deilur hafi staðið milli mín og hæstv. félmrh. og hafi hæstv. félmrh. tvívegis hótað að segja af sér, en að lokum hafi málið tekizt með hrossakaupum okkar á milli þannig, að hann léti fram ganga frv. um lagmetisiðju ríkisins gegn því, að ég féllist á að láta frv. um húsnæðismál ná fram að ganga.

Ég tel rétt að lýsa því hér yfir, að hér er um staðlausa stafi að ræða, ekki flugufótur fyrir þessari frásögn, sem er ekki aðeins í fréttaformi, heldur einnig í forustugrein. Eins og menn vita, varð frv. um lagmetisiðju ríkisins að lögum fyrir mörgum vikum, og ég veit ekki, hvernig hrossakaup um það mál ættu að geta haft áhrif á störfin nú á síðustu dögum þingsins. Það má vel vera, að Morgunblaðið eigi við sölustofnun lagmetisiðnaðarins, en ég vil segja það hreinskilnislega, að um þessi mál bæði hefur verið full samstaða á milli mín og hæstv. félmrh., okkur hefur ekki greint á um eitt einasta atriði í þessu sambandi. Á milli okkar hafa engar deilur verið. Þessi frétt er uppspuni frá rótum.

Ég segi þetta ekki til að vekja neinar deilur, heldur vegna þess, að ég trúi því, að þm. vilji heldur hafa það, sem sannara reynist. Það hefur raunar oft komið fram á síðum Morgunblaðsins, að það blað virðist binda alveg sérstakar vonir við það, að uppi sé í sífellu harður ágreiningur milli mín og hæstv. félmrh. Ég tel, að það sé þá rétt, að einnig komi fram, að þá 10 mánuði, sem við höfum starfað saman í ríkisstj., hefur verið á milli okkar alveg sérstaklega gott samstarf. Ég man ekki til þess, að við höfum deilt um eitt einasta atriði. Hafi okkur sýnzt sitt hvorum um mál, sem fjallað hefur verið um, hefur okkur reynzt ákaflega auðvelt að finna sameiginlega lausn á þeim vandamálum. Þannig að ef Morgunblaðið og Sjálfstfl. ætla að binda vonir sínar um endalok þessarar ríkisstj. við deilur milli mín og hæstv. félmrh., hygg ég, að það verði að bíða alllengi.