16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

131. mál, bann gegn veiðum með flotvörpu og botnvörpu

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er nú til 1. umr., fjallar um stórt og mikilsvert mál, þar sem eru togveiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar, en frv. í því formi, sem það er, verður að teljast tiltölulega einfalt, og geri ég því ráð fyrir, að ég þurfi ekki að hafa um málið ýkja mörg orð. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá starfaði fyrir einum þremur árum — eða sérstaklega veturinn 1968–1969 — þingmannanefnd, sem skipuð var af þáv. hæstv. sjútvrh. samkvæmt tilnefningu þingflokkanna, að því að gera till. um fiskveiðiheimildir innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, þ. e. heimildir til veiða bæði með botnvörpu og flotvörpu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta mál, þ. e. hvernig við hagnýtum fiskveiðilögsögu okkar og heimilum skipum af ýmsum stærðum og með ýmsum veiðarfærum að veiða þar, er býsna viðkvæmt mál og erfitt vandamál á ýmsa lund. Sú nefnd, sem fékk þetta mál til meðferðar og fjallaði um það sérstaklega veturinn 1968–1969, hygg ég, að hafi unnið mikið og að flestra dómi gott starf að því að undirbúa frv., sem síðan var samþykkt vorið 1969, þ. e. lög nr. 21 10. maí 1969, um breyt. á lögum um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Í þessum lögum voru samkvæmt niðurstöðum þeirra þingmanna, sem ég áður nefndi, sett nákvæm ákvæði um veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar bæði með botnvörpu og flotvörpu. Ég hygg, að það sé staðreynd, að ýmsir báru nokkurn ugg í brjósti í sambandi við þær nokkuð víðtæku veiðiheimildir, sem veittar voru með þessum lögum, en reynslan mun hafa sannað það, að þarna var býsna sanngjarnlega og skynsamlega á málum haldið, og í heild held ég, að reynslan af þessari löggjöf hafi orðið sú, að menn telji, að hún hafi komið að verulegu gagni,og tryggt þjóðarbúinu veruleg verðmæti. Þær veiðiheimildir, sem þarna var um að ræða, voru tímabundnar og þá ekki sízt vegna þess, að menn voru nokkuð í óvissu um það, hvernig þessi breyting á togveiði- eða botnvörpulögunum reyndist, og þess vegna náðist um það samstaða að hafa þessar veiðiheimildir tímabundnar, því að rétt þótti að fá hæfilega langa reynslu á þessi mál, áður en löggjöf yrði sett þar um til frambúðar. Þess vegna er það, að í 8. gr. laganna frá 1969 segir, að þessar togveiðiheimildir gildi til ársloka 1971. Þessar togveiðiheimildir allar falla því úr gildi nú í árslok.

Hinn 11. okt. s. l. skipaði hæstv. núv. sjútvrh. nefnd þingmanna samkvæmt tilnefningu þingflokkanna til þess að fjalla um þetta mál. um togveiðiheimildamálið, og sérstaklega þá um það atriði, hvað ætti að gera í sambandi við það ákvæði laganna, að togveiðiheimildirnar féllu úr gildi nú um áramót. Það var af sérstökum ástæðum lítils háttar dráttur á því, að nefndin gæti hafið störf, en fyrsti fundur hennar var haldinn 26. okt. s. l. Þingmannanefnd þessi leitaði til margra stofnana og félagssamtaka þeirra, sem mál þetta snertir alveg sérstaklega, til þess að glöggva sig sem bezt á því, hver væri vilji manna og þá alveg sérstaklega útvegsmanna og sjómanna í þessum efnum. Nefndin lauk störfum hinn 9. þ. m. og lagði fram daginn eftir eða e. t. v. tveimur dögum síðar frv. það, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr. Ástæðan til þess, að frv. er svona síðbúið frá nefndinni, er fyrst og fremst sú, að nefndin beið í allra lengstu lög eftir umsögnum ýmissa aðila, sem hún hafði sent þetta mál eða beðið á annan hátt um, að segðu álit sitt á þessu mikilsverða máli.

Það hefði vissulega verið æskilegt, bæði fyrir nefndina sjálfa og þá alveg sérstaklega fyrir þingið, að geta haft þetta mál lengur til meðferðar en nú getur verið um að ræða, en það er þó bót í máli í þessu efni, að það má heita samdóma álit allra þeirra aðila, sem til hefur verið leitað og látið hafa í ljós álit sitt á þessu máli, að rétt sé eftir atvikum að framlengja gildandi veiðiheimildir um eitt ár annaðhvort lítt breyttar eða með öllu óbreyttar eins og þær hafa verið og eru í gildandi l. um þessi efni. Það kom vissulega til mála og var rætt í nefndinni, hvort ætti að fara inn á þá braut að gera minni háttar tilfærslur eða breytingar á togveiðiheimildunum. En niðurstaðan varð sú bæði vegna naums tíma og vegna þess, að nefndin telur óhjákvæmilegt, að taka öll þessi mál til rækilegrar endurskoðunar þegar á næsta ári, að flytja þá breytingu eina á lögunum, að togveiðiheimildirnar skuli gilda eitt ár í viðbót eða til ársloka 1972. Eins og ég sagði áðan, þá hnigu öll ummæli þeirra aðila, sem til var leitað, svo sem Landssambands ísl. útvegsmanna, Fiskifélags Íslands og þeirra félaga eða samtaka sjómanna, sem létu uppi álit sitt um málið, í þá átt, að rétt væri að framlengja þessar togveiðiheimildir lítt eða ekki breyttar um eitt ár, en jafnframt kom það fram, eins og nefndin leggur ríka áherzlu á, að nú þarf að nota tímann vel á næsta ári bæði með tilliti til þeirrar reynslu, sem þegar hefur fengizt af fiskveiðiheimildunum. sem gilt hafa frá 1969, og alveg sérstaklega með tilliti til hinnar fyrirhuguðu útfærslu fiskveiðilögsögunnar á næsta ári — til þess að undirbúa löggjöf til nokkurrar frambúðar um hagnýtingu fiskimiðanna innan fiskveiðilögsögunnar, þ. e. hvernig við ætlum að hagnýta fiskimiðin okkur til handa. Á þetta leggur nefndin, sem undirbjó frv., ríka áherzlu.

Ég vil geta þess, að frv. það, sem hér um ræðir, er flutt í samráði við hæstv. sjútvrh., og nefndin var öll sammála um að flytja það — einnig sá hv. nm., sem ekki á sæti í þessari d. og er því ekki flm. málsins, Jón Árm. Héðinsson, hann er samþykkur flutningi þessa frv. Nefndin leggur sem sé til, að nú verði sú ein breyting gerð á lögunum um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, að þær togveiðiheimildir, sem gilda í lögum nr. 21 frá 10. maí 1969, verði framlengdar til ársloka 1972 eða í eitt ár.

Þetta mál er, eins og ég hef þegar tekið fram, undirbúið af nefnd þingmanna, og það er, eins og allir vita, orðinn mjög naumur tími til stefnu til þess að afgreiða maí, sem er til 1. umr. í fyrri d. Ég sé því ekki ástæðu til, herra forseti, að gera till. um, að þetta mál fari til n., þar sem það er, eins og ég sagði; undirbúið af þingnefnd, en að sjálfsögðu yrði orðið við slíkri ósk, ef hún kæmi fram. Þá væri eðlilegt, að hv. sjútvn. athugaði þetta mál. En það mun vera nær óhjákvæmilegt eða óhjákvæmilegt, ef það á að ná fram að ganga, að 2. umr. þess hér í þessari hv. d. geti orðið á morgun.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að málið, þó að það sé svona seint fram komið, sé þess eðlis, að það megi hafa framgang og verða að lögum nú, áður en þing fer heim í jólaleyfi.