17.12.1971
Efri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

66. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar. N. sendi það lagadeild Háskóla Íslands til umsagnar, og skal ég lesa þá umsögn lagadeildarinnar, sem er mjög stutt, en hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Háttvirt heilbrigðis- og félagsmálanefnd Efri deildar Alþingis hefir með bréfum 17. og 23. nóv. s. l. sent lagadeild til umsagnar frumvörp þau, er að ofan greinir.“ Þ. e. a. s. frv. um breyt. á lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna og til skilgetinna barna. „Fer umsögn deildarinnar hér á eftir:

1. Með almannatryggingalögunum nr. 67/1971, 14. sbr. 72. gr. var aldursmark varðandi barnalífeyri hækkað úr 16 í 17 ár. Hins vegar var lagaákvæðum í barnalögum, sem varða ákvörðun meðlags eða annars framfærslueyris með börnum, ekki breytt. Er það efni ofangreindra frumvarpa að mæla fyrir um breytingu á þeim ákvæðum barnalaga, er hér skipta máli, og telur deildin að réttmætt sé að breyta þessum ákvæðum til samræmis við lög um almannatryggingar. Í báðum frumvörpunum eru ákvæði um, að lögin hafi afturvirk áhrif, og eru skynsamleg rök, sem mæla með því.

2. Lagadeild bendir á, að meðlags- eða framfærsluskylda er á Norðurlöndum allt til 18 ára aldurs barns, en þó allt til 24 ára aldurs, ef þörf er á framlögum til menntunar, sbr. t. d. dönsku barnalöggjöfina frá 1960. Við heildarendurskoðun laganna, sem nú fer fram, ætti m. a. að athuga hækkun á aldursmörkum í þessu efni.“

Lagadeild háskólans mælir sem sé með samþykkt frv., en efni þess er í stuttu máli það, að meðlag með óskilgetnum börnum megi ekki ákveða lægra né heldur ákveða aldursmark barns lægra en gildir á hverjum tíma í lögum um almannatryggingar, hvað barnalífeyri snertir. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 217, hefur heilbr.- og félmn. einróma mælt með samþykkt frv. Einn nm., Ásgeir Bjarnason, var fjarverandi, þegar málið var afgreitt í n. Ég vil sem flm. þessa frv. þakka meðnm. mínum fyrir þeirra góðu undirtektir undir þetta mál og vænti þess, að svo verði einnig hér í þd.