18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

66. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Frv. það, sem nú er á dagskrá, og einnig það, sem er nr. 3 á dagskránni, var lagt fram í hv. Ed. af hv. þm. Auði Auðuns og fjallar um það, að meðlagsskylda með börnum skuli ná til 17 ára aldurs í stað 16 ára aldurs áður. Þetta er mál sem er alveg í eðlilegu samhengi við tryggingalögin, sem afgreidd voru á s. l. vori, og fullkomið réttlætismál, sem alger einhugur er um, en til þess að framkvæmd þessara laga og þessarar hugsunar geti orðið algerlega virk, er nauðsynlegt að breyta tvennum lögum um afstöðu foreldra til barna.

Þessi mál voru afgreidd ágreiningslaust í Ed., og ég leyfi mér að vona, að svo verði einnig í þessari hv. d., en ég vildi aðeins leggja áherzlu á nauðsyn þess, að frv. næðu fram að ganga nú strax næstu daga og gætu tekið gildi fyrir áramót.