17.11.1971
Efri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

76. mál, afstaða foreldra til skilgetinna barna

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Efni þessa frv. er það, að um meðlög með skilgetnum börnum skuli, að því er varðar upphæð meðlags og það aldursmark, sem meðlagsgreiðslurnar miðast við, gilda sömu reglur og um meðlög með óskilgetnum börnum.

Um upphæð meðlags skal það sagt, að í lögum nr. 87 frá 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, er ákveðið, að meðlag megi aldrei ákveða lægra en barnalífeyri eins og hann er á hverjum tíma skv. lögum um almannatryggingar. Þó að ekki séu beinlínis fyrirmæli um það í sifjalögunum, að sama skuli gilda um meðlög með skilgetnum börnum og gildir um meðlög með óskilgetnum börnum, hefur framkvæmdin samt orðið sú, að meðlög með skilgetnum börnum hafa verið ákveðin með hliðsjón af þessu ákvæði, sem ég áðan nefndi, þannig að hvað upphæð meðlagsins varðar, er með frv. í rauninni eingöngu verið að leggja til að lögleiða þá framkvæmd, sem hefur tíðkazt.

Ég hef flutt á þskj. nr. 71 frv. til l. um breyt. á lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, og er þar lagt til, að meðlögin, sem hingað til hafa verið ákveðin til 16 ára aldurs barns, skuli ákvarðast fram að þeim aldri, sem á hverjum tíma gildir um greiðslur barnalífeyris skv. lögum um almannatryggingar, en með hinum nýju almannatryggingalögum er þar miðað við 17 ára aldur, eins og menn vita. Þetta frv. verður því að skoða í ljósi frv. á þskj. 71.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni frv., þar eð það er, eins og ég áður sagði, miðað við reglurnar um óskilgetin börn, og get ég þess vegna vísað til frv. á þskj. 71 og grg„ sem því fylgir, og enn fremur til framsöguræðu minnar með því frv. hér í hv. þd. nú nýlega.

Ég vísa svo til þess, sem ég þá sagði, um það, til hvaða n. ég teldi eðlilegt, að frv. færi, og legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.