16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mig langaði við 2. umr. þessa máls að ræða lítillega um þetta frv., þótt það hafi nú þegar verið mjög rækilega rætt bæði í Ed. og við 1. umr. málsins.

Það er nú svo á þessum dögum vinnuþrælkunar hér á hv. Alþ., að mér er í raun og veru sannkallað gleðiefni að fást við frv., sem fjalla um orlof og hvíldartíma og 40 stunda vinnuviku. Það hefur sömu áhrif á mig og vafalaust marga þm., að það er eins og að hugsa um vor og sólskin í svartasta skammdeginu.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr.- og félmn. skrifuðum undir nál. um að mæla með samþykkt þessa frv. Ég vil samt taka fram um þetta frv. eins og raunar hið næsta á undan, að þau eru bæði samin með stoð í viðlesnu riti frá 14. júlí s.l., og það er skoðun okkar og var skoðun flestra þeirra, sem nú fylgja hæstv. ríkisstj., að um mál sem þetta eigi fremur að fjalla í frjálsum samningum milli aðila vinnumarkaðarins en með beinni löggjöf, nema þá í hreint óefni sé komið um samkomulag þessara aðila. Nú var þó það ráð tekið að byrja á því, áður en til nokkurra samninga kom, að setja löggjöf um þetta atriði, og umr. um frv. í fyrri deild stóðu sem hæst, þegar samningar voru einmitt á mjög erfiðu stigi.

Ég tek fram í sambandi við þetta frv., að æskilegt hefði verið, að slík réttarbót sem þetta raunverulega felur í sér gæti náð til fleiri stétta þjóðfélagsins. Ég játa þó, að ég bý ekki yfir ráðum til þess nú á stundinni, hvernig það ætti að framkvæma, en ég bendi á, að mjög æskilegt er, að þetta sé athugað rækilega af þeim aðilum, sem mest hafa um þessi mál fjallað.

Þegar þessi mál voru hér til 1. umr. og þm. komu hér í ræðustól hver á fætur öðrum til að benda á, að þessi stétt eða hin væri afskipt að þessu leyti, það þyrfti að stytta vinnutíma sjómanna og það þyrfti að stytta vinnutíma bænda, þá einhvern veginn fór ekki hjá því, að mér dytti í hug vinnutími einnar stéttar, sem ég er kunnugust af stéttum landsins, en það er húsmæðrastéttin. Ég veit að vísu ekki, hvernig hægt væri að koma fyrir með löggjöf styttum vinnutíma húsmæðra, og gætu þá vafalaust risið deilur, eins og raunar gerðist hér á dögunum, um það, hver væri virkur vinnutími og hver ekki og hversu kaffitíminn mætti vera langur. Ég mundi nú vafalaust sjálf vera hikandi við að láta skerða kaffitíma minn í vinnutíma mínum sem húsmóður. Við nánari athugun þessara mála sé ég, að það er enn einn kostur við þetta frv., sem við nú væntanlega samþykkjum hér á eftir. Einmitt þetta frv., ef samþ. verður, getur að mínu viti orðið til þess, að raunverulegur vinnutími fjölmargra húsmæðra í landinu styttist, því að með styttum vinnutíma þess hóps þjóðarinnar, sem er í meiri hluta í þeim störfum, sem þetta frv. fjallar um, þ.e.a.s. karlmannanna, þá hljóta þeir að hafa meiri tíma aflögu til að aðstoða húsmæðurnar við heimilisstörfin.

Þetta vildi ég gjarnan láta koma hér fram og ítreka það, að er við fulltrúar Sjálfstfl. í n. styðjum þetta frv., þá er það ekki sízt vegna þess, að við höfum það í huga, að þegar er búið að gera ráð fyrir efni frv. í samningum milli aðila vinnumarkaðarins.