03.12.1971
Efri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

104. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem við flm. þessa frv. leggjum hér fram um breyt. á lögum nr. 30 frá 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, varðar verkamannabústaðakerfið. Með lögum nr. 30 frá 1970 var gerð veigamikil breyting á kerfi verkamannabústaðanna. Ég skal ekki fara að rekja það hér, í hverju þessi breyting var fólgin, en hún var gerð í þeim tilgangi að blása nýju lífi í byggingarstarfsemi í landinu á vegum verkamannabústaðakerfisins. Það hefði því mátt halda, að það hefðu orðið veruleg umskipti í þessu efni frá því, að lögin voru sett, en því er ekki að heilsa. Í framkvæmd hefur orðið lítil breyting. Það er aðeins á fjórum stöðum á landinu, sem byrjað er eða verið er að byrja á byggingu verkamannabústaða samkvæmt hinum nýju lögum, þ. e. á Sauðárkróki, Neskaupstað, Patreksfirði og Siglufirði, og það eru ekki nema milli 20 og 30 íbúðir, sem fyrirhugað er að byggja á öllum þessum stöðum. Hins vegar er búið að skipa stjórnir verkamannabústaða á 30 stöðum í landinu, en lengra er það ekki komið. Það er sums staðar yfirstandandi rannsókn, sem á að fara fram á viðkomandi stöðum samkvæmt lögunum, á byggingarþörfinni. Allt gengur þetta hægt úti á landi í hinum smærri stöðum vegna þess, að á mörgum stöðum hafa komið fram nokkrir gallar á lögunum frá því í fyrra og nokkrar hindranir reynzt vera á vegi þeirra, sem hafa viljað reisa byggingar samkvæmt verkamannabústaðakerfinu á smærri stöðum úti á landi.

Þetta er vegna þess, að lögin setja takmarkanir þeim framkvæmdum, sem hvert sveitarfélag getur stofnað til samkvæmt þessu byggingarkerfi. Þessi takmörkun er þannig samkvæmt lögunum, að ekki mega framkvæmdirnar vera meiri en sem svarar ákveðnu gjaldi eða ákveðnu framlagi, sem sveitarfélögin eiga að leggja í Byggingarsjóð verkamanna. Þetta framlag er ákveðið þannig, að það má ekki vera nema 200–400 kr. á hvern íbúa í sveitarfélaginu. Þetta takmörkunarákvæði er hliðstætt því, sem áður var í lögum. En í lögunum frá í fyrra er það nýmæli, að tekið er fram í lögunum, að íbúðir samkvæmt verkamannabústaðakerfinu skuli vera byggðar í fjölbýlishúsum og vera staðlaðar, til þess að þær verði sem hagkvæmastar og ódýrastar í senn. Að vísu er hægt að veita undanþágu frá þessu ákvæði laganna. En til þess að hægt sé að byggja íbúðir í fjölbýlishúsum og hafa þær staðlaðar að auki, eins og það er orðað í lögunum, þá þurfa það að vera nokkrar íbúðir, helzt 10 íbúðir, a. m. k. ekki minna en 5 íbúðir. Samkvæmt þeim takmörkunum, sem nú gilda, geta sveitarfélög með 500–1000 íbúum, ég tala ekki um færri íbúa, ekki byggt á hverju áætlunartímabili, sem gert er ráð fyrir fyrir þessar framkvæmdir, nema kannske 2–3 íbúðir eða minna í hverjum áfanga. Af þessu leiðir, að þetta verður ekki framkvæmt í þeim anda og með þeim hætti, sem lögin gera ráð fyrir.

Við flm. þessa frv. teljum, að þetta ákvæði laganna sé óviðunandi og því þurfi að vinda bráðan bug að því að breyta þessu. Þess vegna er efni þessa frv. það að hækka viðmiðun sveitarfélaganna úr 400 kr. á íbúa í 1200 kr., þannig að framlag sveitarfélags til Byggingarsjóðs verkamanna geti verið þeim mun meira eða sem þessu nemur og framkvæmdirnar þar af leiðandi þeim mun meiri, ef óskað er.

Þetta mál þarfnast ekki frekari skýringa, en af því, sem ég hef sagt, má sjá, að við flm. teljum, að það sé þýðingarmikið, að frv. þetta fái sem skjótasta afgreiðslu, og ég vildi beina þeim tilmælum til hv. heilbr.- og félmn., sem ég legg til að málinu verði vísað til, að hún afgreiði þetta mál sem skjótast vegna hinna sérstöku atvika, sem liggja þar til.