01.11.1971
Neðri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

40. mál, sala Ytri-Bugs í Fróðárhreppi

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um heimild fyrir ríkisstj. til að selja jörðina Ytri-Bug í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Svo sem kunnugt er, hafa ábúendur þjóð- og kirkjujarða vissan rétt á að fá ábýlisjarðir sínar keyptar, ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt, sbr. lög nr. 102 frá 1962. Ella er ekki um annað að ræða en afla sérstakrar lagaheimildar til sölu hverrar jarðar, sem er í ríkiseign. Frumskilyrði þess, að maður eigi að hafa rétt til eignarhalds á jörð, er að mínum dómi, að jörðinni sé sýnd umhyggja og ræktarsemi. Ég hef enga samúð með þeim mönnum, sem kaupa upp jarðir með gróðasjónarmið og veiðimannavon fyrir augum. Hér er engu slíku til að dreifa. Hér er um að ræða ósk fimm bræðra, sem allir eru í fremstu röð afla- og skipstjórnarmanna vestanlands, um að eignast þá jörð, þar sem þeir uxu úr grasi — og nú er í eyði. Hreppsnefnd Fróðárhrepps hefur mælt með þessari beiðni og afsalað sér forkaupsrétti að jörðinni. Ég er viss um það, að smájörð þessi, Ytri-Bugur í Fróðárhreppi, er hvergi betur komin en í eigu bræðranna. Þeir munu áreiðanlega sýna henni góða umhirðu og ræktarsemi. Nánari upplýsingar um þetta mál er að finna í grg. og fskj. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.