13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

40. mál, sala Ytri-Bugs í Fróðárhreppi

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Landbn. hefur sent frv. þetta til umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og landnámsstjóra, eins og venja er um slík mál, og þar að auki óskað eftir umsögn hreppsnefndar Ólafsvíkurhrepps. Mæla þessir aðilar allir með samþykkt frv.

Þegar Alþ. hefur heimilað sölu ríkisjarða undanfarin ár, hefur að heita má alltaf verið áskilinn forkaupsréttur til að koma í veg fyrir, að lönd, sem ríkið lætur frá sér, lendi í braski eða gangi óeðlilega kaupum og sölum. Þykir n. rétt, að svo verði einnig með þessa jörð og verði kaupendum óheimilt að selja jörðina eða hluta hennar öðrum en ríkissjóði eða næstu sveitarfélögum, þ. e. Fróðárhreppi eða Ólafsvíkurhreppi. Ólafsvíkurhreppur er hér látinn fá forkaupsrétt, vegna þess að þessi jörð liggur rétt í útjaðri Ólafsvíkur. Það er skoðun margra, að ekki muni líða langur tími, þangað til Fróðárhreppur og Ólafsvíkurhreppur verði sameinaðir, og getur þá vel farið svo, að Ólafsvíkurhreppur þurfi síðar á þessu landi að halda, þótt hreppsnefndin hafi ekki óskað eftir því að fá jörðina keypta nú og hafi mælt með því, að hún yrði seld þeim aðilum, sem frv. fjallar um.

Landbn. leggur til, að frv. verði samþ. með breytingu á forkaupsréttinum, sem prentuð er á þskj. 152.