02.12.1971
Neðri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

108. mál, sala Háls og Kambshjáleigu í Búlandshreppi

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Háls og Kambshjáleiga liggja í næsta nágrenni Djúpavogs og eru báðar í eyði. Þeir, sem nytja jarðirnar nú, eiga heima í kauptúninu, og kauptúnsmenn þurfa margt að sækja í landareignir þessara jarða, t. d. er vatnsból Djúpavogs að nokkru leyti í landi Háls, og nýjum vatnsbólum, sem þörf er á á þessum slóðum, verður vafalaust komið fyrir ýmist í Hálslandi eða Kambshjáleigulandi. Þá er mikil nauðsyn á því, að þessar jarðir verði til frambúðar til afnota fyrir íbúa Djúpavogs vegna búfjárræktar, og þannig mætti fleira telja, sem sýnir, að eðlilegast er, að Búlandshreppur eignist þessar jarðir. Flm. leggja því til, að heimilað verði að selja þær hreppnum. Jafnframt er í frv. ákvæði um það, að óheimilt sé hreppnum að selja jarðirnar öðrum en ríkissjóði.

Ég legg til, að málinu verði vísað til landbn. að aflokinni þessari umr.