01.11.1971
Neðri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

41. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveimur öðrum þm., þeim hv. 10. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, og hv. 2. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, leyft mér að flytja hér á þskj. 42 frv. til l. um breyt. á lögum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hugmyndin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins mun fyrst hafa orðið til eftir hin miklu síldarár á árabilinu 1960–1965, en verðlag á síldarafurðum var þá einnig mjög hátt. Þetta varð til þess, að tekjur þeirra, sem þessar veiðar stunduðu, jafnt sjómanna sem útgerðarmanna og þeirra aðila, sem tóku við síldinni og unnu hana til útflutnings, urðu mjög miklar, sennilega mun hærri en almennt gerðist á þeim tíma. Leiddi þetta til mjög mikillar og kannske óeðlilegrar fjárfestingar í síldariðnaðinum. Um það bera vitni hinar mörgu síldarverkunarstöðvar, bæði verksmiðjur og söltunarstöðvar, sem nú standa því miður uppi allt of verkefnalitlar. Hvað sjómenn snertir, fór verulegur hluti af hinum háu tekjum þeirra í skatta til ríkis og sveitarfélaga. Þegar verð á síldarafurðum féll og afli minnkaði, töldu margir, að hagkvæmt hefði verið fyrir alla aðila, ef hægt hefði verið að skipta gróðanum jafnar á milli hinna betri ára og hinna erfiðari. Upp úr þessum hugleiðingum mun hugmyndin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins hafa orðið til, en lög um hann voru samþ. á þinginu fyrri hluta árs 1969.

Verðjöfnunarsjóður er þannig upp byggður, eins og kunnugt er, að ef verð á sjávarafurðum hækkar frá tilteknu viðmiðunarverði, er ákveðinn hluti verðhækkunarinnar lagður í Verðjöfnunarsjóð. Hann kemur ekki til útborgunar til þeirra, sem sjávarafurðirnar flytja út, eins og áður var, heldur geymist í vörzlu Seðlabanka Íslands, að svo miklu leyti sem fénu hefur ekki verið ráðstafað samkv. 6. gr. laga um Verðjöfnunarsjóð. Með tilliti til þessa, þar sem raunverulega er um að ræða geymslufé, sem Seðlabankinn hefur tekið við í erlendum gjaldeyri, en ekki afreiknað, verður að teljast eðlilegt, að fé þetta væri það, sem kalla mætti gengistryggt. Getur það gerzt á tvennan hátt að dómi flm., þ. e. annaðhvort sé féð ávaxtað í erlendri mynt eða lögfest sé, að verði breyting á gengi íslenzkrar krónu, verði féð umreiknað til hækkunar eða lækkunar í samræmi við gengisbreytinguna, eftir því sem við á — að því leyti, sem það kann að hafa verið ávaxtað í íslenzkum krónum, en engin ákvæði í gildandi lögum um Verðjöfnunarsjóð kveða á um þetta. Þegar þess er gætt, að hér er um verulegt fjármagn að ræða, sem í raun réttri er sameiginlegur tryggingasjóður fiskiðnaðarins, sjómanna og útvegsmanna, er ekki nema eðlilegt, að þessir aðilar leggi á það þunga áherzlu, að raunverulegt verðmæti þessara fjármuna þeirra skerðist ekki, þó að svo færi, að stjórnvöld sæju sig tilneydd að gripa til gengislækkunar. Ef um gengislækkun væri að ræða, mundi sjóðurinn að sjálfsögðu lækka að krónutölu til, en þó halda raunverulegu gildi sínu.

Samkvæmt upplýsingum, sem fyrir liggja, munu um síðustu áramót hafa verið um 230 millj. ísl. kr. í sjóðnum, og á fyrstu 5 mánuðum þessa árs munu hafa komið inn í sjóðinn um 320 millj. kr. — aðeins af verðhækkunum á frystum sjávarafurðum. Er því ekkert óvarlegt að áætla, að Verðjöfnunarsjóðurinn geti orðið um næstu áramót 700–800 millj. kr., ef ekki verður um lækkun að ræða á verðlagi sjávarafurða á erlendum markaði. Þegar á það er litið, að hér er raunverulega um geymslufé að ræða, sem Seðlabankinn hefur tekið við í erlendum gjaldeyri, en ekki afreiknað til útborgunar, getur það ekki talizt nema sjálfsögð og eðlileg krafa þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, að raungildi þessara fjármuna skerðist ekki, þótt gengisbreyting eigi sér stað, hvort sem það yrði til hækkunar eða lækkunar. En til þess að ná því marki er frv. þetta flutt, og leyfi ég mér að vænta þess, að hv. Alþ. taki því vel og veiti því brautargengi.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.