16.02.1972
Neðri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

41. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til athugunar það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 42, og eins og fram kemur í nál. á þskj. 338, þá mælir n. með, að frv. verði samþ. Einn nm., Jón Skaftason, var fjarverandi, þegar málið var afgreitt, og tveir nm., þeir hv. 7. landsk. þm. og hv. 3. þm. Norðurl. v., skrifuðu undir nál. með fyrirvara. Frv. var sent til umsagnar ýmissa aðila, þegar það barst n., og hafa borizt svör frá flestum þessara aðila. Eru þau með einni undantekningu yfirleitt jákvæð, þannig að þeir, sem þar um gefa umsögn, mæla með því, að frv. verði samþ. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands svarar með bréfi dagsettu í nóvember, þar sem segir svo í niðurlagi bréfsins:

„Stjórnin varð sammála um að mæla með þeirri breytingartillögu, sem hér um ræðir, varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.“

Landssamband ísl. útvegsmanna gerði á aðalfundi sínum í haust samþykkt um málið, og í svari Landssambandsins til sjútvn. er sú samþykkt, sem þar var gerð, tekin upp, en þar segir:

„Aðalfundur LÍU skorar á Alþingi að samþykkja fram komið frumvarp um verðtryggingu Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins.“

Sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga fékk einnig málið til umsagnar, og segir svo í þeirri umsögn:

„Sjávarafurðadeild SÍS lýsir því stuðningi við ofannefnt frumvarp og telur aðkallandi, að það nái fram að ganga. Jafnframt teljum vér nauðsynlegt, að við 1. gr. frumvarpsins verði bætt skýru ákvæði um, hvers konar uppbætur verði taldar jafngilda gengisbreytingu.“

Sölusamband ísl. fiskframleiðenda vísar til fyrri samþykkta sinna, og segist sölusambandið vera því eindregið meðmælt, að frv. verði samþ.

Stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins eða fulltrúar fiskseljenda og fiskkaupenda gefa um málið umsögn. Þar segir í ljósriti af fundargerð, sem við fengum frá stjórn Verðjöfnunarsjóðs og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á 16. stjórnarfundi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins þann 4. sept. 1970 báru fulltrúar fiskkaupenda fram tillögu um, að eignir sjóðsins væru varðveittar í erlendri mynt eða gengistryggðar á annan hátt.

Á 17. fundi sjóðsstjórnar þann 13. okt. 1970 lýstu fulltrúar fiskseljenda samþykki sinu á þessari tillögu, og er hún því í raun viljayfirlýsing meirihluta sjóðsstjórnar.

Á fundinum varð samkomulag um, að tillögunni ásamt rökstuðningi yrði vísað til ráðherra og ríkisstjórnar til úrskurðar.“

Þetta er álit fulltrúa fiskseljenda og fiskkaupenda í stjórn Verðjöfnunarsjóðs.

Seðlabanki Íslands svarar erindi sjútvn. með bréfi dags. 4. febr. 1972 og segir þar, með leyfi forseta: „Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins er í dag ávaxtaður samkvæmt lögum í Seðlabankanum á hliðstæðan hátt og margir sjóðir í opinberri eigu og vörzlu. Má þar t. d. nefna Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Eru allir þessir sjóðir ávaxtaðir í innlendri mynt á jafnréttháum grundvelli, og teljum vér ekki réttmætt, að undantekning sé gerð frá þeirri reglu, að því er Verðjöfnunarsjóð snertir.

Hlutverk Verðjöfnunarsjóðs er öðrum þræði að greiða hluta af verðfalli, sem kann að verða á þeim afurðum, sem eignazt hafa inneignir í sjóðnum. Slíkt verðfall hefir oftar en einu sinni leitt til þess, að breyta hefir orðið gengi íslenzku krónunnar til þess þannig að skapa rekstrargrundvöll án styrkja fyrir veigamiklar greinar sjávarútvegsins. Tilvist Verðjöfnunarsjóðs getur hér breytt um í verulegum atriðum. Verðbreytingum á afurðum sjávarútvegsins til lækkunar mundi fyrst í stað verða mætt með greiðslum úr sjóðnum að því marki, sem hann hefði fjármagn til, en ekki þyrfti að grípa til gengislækkunar á meðan svo væri. Má því gera ráð fyrir, að ef til gengislækkunar kæmi, þá væri sjóðurinn tæmdur áður. Sömuleiðis má benda á, að gera má ráð fyrir, að komi til gengislækkunar, þá verði ekki fyrir hendi neinn gjaldeyrisvarasjóður, sem hugsanlegar eignir Verðjöfnunarsjóðs gætu verið hluti af. Loks geta þær aðstæður risið, að hækkun á gengi krónunnar gerði nauðsynlegt að greiða úr sjóðnum, en gengishækkun hefði þau áhrif, að binding sjóðsins við erlenda mynt yrði til að rýra hann.

Vér viljum taka undir þá viðleitni flm. nefnds frv., að Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins beri að styrkja og sé það sjávarútvegi Íslendinga í hag, að eflingu hans verði haldið áfram.“

Sjútvn. ræddi sérstaklega þetta erindi Seðlabanka Íslands og þá umsögn, sem þessi stofnun gaf um frv., en við teljum, að þarna geti málin borið öðruvísi að. Vitað er og lögum samkv., að sjóðnum er skipt í fleiri en eina deild, ef ég man rétt í þrjár deildir. Það má vel vera svo, að innistæða sé í einhverri af þessum deildum, þó að innistæða einnar deildar sé kannske gengin til þurrðar. Það þarf því alls ekki að vera svo, að þó að þyrfti að ganga á sjóðinn, þá gætu sumar deildir hans ekki átt þar inni, og ef til gengisbreytingar eða gengislækkunar kemur, mundi það að sjálfsögðu rýra verðgildi þeirra peninga, sem í þessum deildum stæðu eftir hjá Seðlabankanum. Þar af leiðandi teljum við, að það sé ekki ástæða til annars en frv. fái að halda áfram og verði afgreitt hér á hinu háa Alþ. Og það má einnig á það benda, að þó að þetta bæri að, sem Seðlabankinn segir, er þar ekki um neinn skaða eða neina hættu fyrir neinn aðila að ræða, ef lögunum yrði breytt á þann veg, sem frv. leggur til, að gert verði.

N. er því sammála um að mæla með frv. óbreyttu, eins og fram kemur í nál., en fyrirvara hafa gert um afstöðu sína tveir hv. þm., eins og ég minntist á í upphafi máls míns. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 3. umr.