12.04.1972
Efri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

96. mál, skipulagsskrá fyrir minningarsjóð hjónanna frá Suður-Vík og dætra þeirra

Frsm. (Benóný Arnórsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur gefið út nál. á þskj. 512 um frv. til l. um breytingu á skipulagsskrá nr. 79 18. sept. 1929, fyrir minningarsjóð hjónanna Halldórs Jónssonar og Matthildar Ólafsdóttur frá Suður-Vík og dætra þeirra, Guðlaugar og Sigurlaugar, til stofnunar elliheimilis fyrir Vestur-Skaftafellssýslu og Eyjafjöll. Mál þetta er áður komið frá Nd. N. hefur athugað frv. og mælir einróma með samþykkt þess.

Í umsögn lagadeildar Háskóla Íslands, sem birt er á þskj. 425, kemur fram, að lagadeildin telur stjórnskipulega heimilt að gera þær breytingar á skipulagsskránni, sem frv. gerir ráð fyrir, með lögum, þar sem um sé að ræða breytingar, sem réttlætast af breyttum aðstæðum frá því, sem var við sjóðstofnun, og hafa auk þess ekki í för með sér veruleg frávik frá megintilgangi sjóðsins. Í umsögn lagadeildar er hins vegar bent á, að dómsmrn. fari innan vissra marka með vald til þess að gera breytingar á skipulagsskrám sjóða, þótt ef til vill sé ekki ljóst sem skyldi, hversu víðtækt það vald sé. Bent er á, að nauðsyn beri til þess, að afmarkað verði með löggjöf eða í framkvæmd valdsvið dómsmrn. í þessum efnum, þar sem naumast verði til þess ætlazt, að Alþ. fari í mjög ríkum mæli að gera breytingar á skipulagsskrám einstakra sjóða. Hér er vissulega bent á atriði, sem þarfnast íhugunar. Fjöldi sjóða, sem eru í vörzlu opinberra aðila, mun nær ótölulegur. Fjölmargir þeirra hafa misst af möguleikum til þess að fullnægja hlutverki sínu, og möguleikar annarra fara síminnkandi vegna stöðugrar verðbólgu. Í mörgum tilfellum eru í skipulagsskrám þeirra settar þröngar skorður við notkun þeirra — svo þröngar, að það útilokar, að nota megi sjóðina í þeim tilgangi, sem til var ætlazt í upphafi, þar sem aðstæður hafa oftlega breytzt verulega frá stofnun sjóðanna. Því virðist einsýnt, að rétt sé, að skipulagsskrár allra sjóða í vörzlu opinberra aðila verði teknar til endurskoðunar, sem miði að því að tryggja nýtingu þeirra í þágu þeirra málefna, sem þeim var í upphafi ætlað að verða að gagni.

Herra forseti. Eins og áður segir, mælir heilbr.- og félmn. eindregið með samþykkt frv., og því leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.