06.12.1971
Efri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

111. mál, skipulagslög

Flm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 134 frv. til l. um breyt. á skipulagslögum. nr. 19 frá 1964, um, að við 31. gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Innan skipulagsskyldra staða getur sveitarstjórn, að fengnu samþykki skipulagsstjórnar, bannað efnistöku, grjótnám eða annan verulegan tilflutning eða brottnám jarðarefna, ef líklegt má telja, að það valdi röskun lands, sem getur leitt af sér uppblástur eða valdið verulegum erfiðleikum við framkvæmd skipulags, sem þegar hefur verið ákveðið, eða við væntanlega gerð skipulagsuppdrátta af svæðinu og framkvæmd síðar. Sömuleiðis getur sveitarstjórn með samþykki skipulagsstjórnar sett það skilyrði fyrir því að falla frá slíku banni, að landssvæði það, sem efni er tekið úr, verði að framkvæmdum loknum lagfært eftir ákvörðun sveitarstjórnar, og krafizt hæfilegra trygginga fyrir efndum.“

Ég flutti 1967 frv., sem gekk í sömu átt og það, sem hér er til umr., en það náði þá ekki fram að ganga. Ég vil freista þess að flytja þetta mál á ný, því að ég er sannfærður um, að það verður að taka tillit til breyttra aðstæðna frá því, sem var fyrir nokkrum árum varðandi ásókn í jarðarefni alls konar. Til margþættrar mannvirkjagerðar voru til komnar miklu stórvirkari vinnuvélar en voru fyrir tiltölulega fáum árum, og eru þær mjög afkastamiklar. Það getur verið í fyllsta máta hagkvæmt og sjálfsagt að taka fyllingarefni í sem skemmstri fjarlægð frá þeim stöðum, sem á að nýta það á, en ég tel þó, að undir vissum kringumstæðum sé hægt að ganga of langt í þessu innan þéttbýlissvæðanna með tilliti til framkvæmda á skipulagi síðar meir til nýtingar á landinu undir byggð, götur eða opin svæði, eftir því sem talið verður hagkvæmt til framtíðarnýtingar landsins. Við sjáum fyrir okkur, eins og fram er tekið í grg. með frv., að landslagi hefur raunverulega verið gerbylt sums staðar. Ég er ekki hér með að halda því fram, að slíkt þurfi að leiða af sér vandkvæði síðar, en tel þó, að viss hætta geti í einstökum tilvikum af þessu stafað, og því er nauðsynlegt að setja við þessu einhverjar skorður. Mín skoðun er, að hér sé fyrst og fremst um undantekningar að ræða, og leggja þarf áherzlu á það, að sveitarstjórnir, sem vissulega eiga að gæta í þessu sem öðru hagsmuna heildarinnar, geti þó ekki upp á sitt eindæmi beitt banni gegn tilflutningi á jarðarefnum í stórum stíl, heldur þurfi samþykki skipulagsstjórnar að koma til. til að slíku banni verði komið á.

Á hitt vil ég þó leggja megináherzlu, að á málið sé litið með tilliti til umhverfisverndar og með tilliti til þeirrar reynslu, sem þegar er fengin. Leyfi ég mér að halda því fram, að þegar hafi orðið alvarlegt tjón í þessu efni. Við okkur blasir, einkum og sér í lagi í þéttbýlinu eða næsta nágrenni þess, ljót sjón, þar sem eru stórfelldar efnisnámur, sár eftir stórfelldan brottflutning jarðarefna. Umgengnin á þeim stöðum og viðskilnaðurinn við efnisnámurnar er í flestum tilvikum slíkur, að það er ekki vansalaust, að slíkt hafi viðgengist, og því er fyllilega tímabært að setja ákvæði í lög til að tryggja bætur fyrir það eftirleiðis.

Þá vil ég einnig vekja athygli á þeirri hættu, sem samfara er stórfelldum tilflutningi jarðarefna, en þar á ég við uppblásturinn, sem af þessu getur stafað, ef ekkert er að gert. Hinar stórvirku vinnuvélar valda stórum sárum á móður náttúru, og okkur ber skylda til að græða þau og gera okkar til. að þau verði ekki með tímanum enn stærri, svo sem þau hljóta að verða, ef ekkert er að gert. Fyrst eftir að stórvirkar vinnuvélar voru teknar í notkun við vegagerð, var þess ekki gætt að græða upp þau sár, sem þær ollu. Á seinni árum hefur mikil breyting orðið hér á til batnaðar. Löggjafinn hefur viðurkennt nauðsyn þess með því m. a. að leggja fram fjármagn til uppgræðslu, þar sem um stórfelldar vegaframkvæmdir er að ræða, og ég vil halda því fram, að víðast hvar sé nú um fyrirmyndarstarf af hálfu vegagerðarinnar að ræða í því að græða upp þau sár, sem tilteknar framkvæmdir valda á landinu.

Varðandi umgengni hins almenna borgara í þessu efni verður hins vegar ekki það sama sagt. Það er fyrst og fremst um það hugsað að taka það byggingarefni, sem fyrirfinnst á hverjum stað, en ekkert hugað að umgengninni né viðskilnaðinum, þegar efnistöku er lokið. Ég vil vona, að hér sé fyrst og fremst um hugsunarleysi að ræða, en ekki illan ásetning. Við leggjum vissulega fram fjármagn og vinnu til þess að græða landið upp, og sérstaklega er ánægjulegt, hvað yngri kynslóðin sýnir þessu mikinn áhuga og leggur fram mikið sjálfboðastarf í þessu skyni. Ég er sannfærður um, að kostnaðurinn við úrbætur varðandi það, sem ég hér drep á, er hverfandi en hins vegar skaðinn, sem af getur leitt, ef ekkert er að gert, ógnvekjandi.

Mikið er nú á síðustu tímum talað um nauðsyn aukinnar umhverfisverndar, og er það vel. Ég tel, að það heyri til umhverfisverndar að gera ráðstafanir til þess, að stórfelldur tilflutningur jarðarefna skilji ekki eftir sig slík sár eða ör á landinu, að til raunar sé hverjum þeim, sem það litur. En þess eru því miður dæmi nú. Ég ítreka, að ég tel sjálfsagt að nýta það byggingarefni, sem finnst sem næst þeim stöðum, sem það á að nýtast við framkvæmdir, þó að í einstökum tilfellum geti verið nauðsyn á að hindra efnistökuna. Ég legg ríka áherzlu á, að dæmin sanna, að fyllsta þörf er á, að tryggð verði framvegis hætt umgengni og uppgræðsla þeirra sára, sem slíkt veldur. Til þess að ná fram þessu markmiði tel ég nauðsyn að setja inn umrædda lagagrein. Ef spurt er, hvort hér sé um skerðingu á umráðarétti að ræða, vil ég svara því til, að engum á að haldast uppi að valda landspjöllum án þess að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir uppblástur, né heldur á mönnum að haldast uppi að skilja við efnisnámur eins og gert hefur verið í flestum tilvikum. Þessu til viðbótar vil ég geta þess, að í 31. gr. laganna nú eru vissulega settar takmarkanir á ráðstöfunarrétti á landsvæðum innan skipulagsskyldra staða. En greinin hljóðar nú þannig, með leyfi forseta:

„Óheimilt er á skipulagsskyldum stöðum að skipta löndum og lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum, nema samþykki sveitarstjórnar komi til, og getur hún krafizt þess, að gerður sé fullnægjandi uppdráttur af landi, er skipta skal.“

Eins og sjá má af þessu, hefur löggjafinn talið nauðsyn á að setja vissar skorður við ráðstöfunarrétti á landi innan skipulagsskyldra staða. Með reynslu undangenginna ára í huga tel ég nauðsyn á því, að ákvæði, sem ég hér legg til. að lögfest verði, séu tekin í lög.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þetta mál nái fram að ganga á þessu hv. Alþ., og legg til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.