25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Flm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hérlendis hafa sveitarfélög haft með höndum atvinnurekstur á liðnum árum, sem jafnframt hefur einkum verið stundaður af einstaklingsframtaki og fyrirtækjum þess. Hér er um að ræða starfsemi, sem oft er talin fjárhagslega áhættusöm. Sú þróun, sem átt hefur sér stað í þessum efnum og haft hefur í för með sér þátttöku sveitarfélaga í atvinnurekstri, á sjálfsagt m. a. rætur að rekja til þess hlutverks, sem þeim er ætlað samkvæmt sveitarstjórnarlögum, að leitast við að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi, eftir því sem unnt er á hverjum tíma. Þetta verkefni hafa sveitarfélögin leyst með ýmsum hætti, svo sem eins og með því að leggja fram fjármagn til stofnunar og starfrækslu fyrirtækja sem aðili að hlutafélagi með einstaklingum, eða þá með því, að sveitarfélögin sjálf hafa án hlutdeildar annarra staðið fyrir atvinnurekstri og rekið hann með eigin ótakmarkaðri ábyrgð. Sem dæmi um slíka starfsemi má nefna Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og Bæjarútgerð Reykjavíkur.

Ég hygg, að ekki sé þörf á því hér að fjölyrða um mikilvægi þess, að sveitarstjórnum séu á hverjum tíma tryggð sem hentugust skilyrði til þess að efla og styrkja uppbyggingu atvinnulífs, þegar erfiðleikar og atvinnuleysi steðja að. Undir slíkum kringumstæðum hafa þær vissulega á stundum lagt út í áhættusaman atvinnurekstur á liðnum árum og sveitarsjóðir orðið fyrir skakkaföllum í því sambandi. Þess háttar áföll geta haft slík lamandi áhrif, að erfitt reynist að standa undir öðrum skyldum gagnvart þegnunum. Brýna nauðsyn ber því til að draga úr þessari áhættu, sem lagt er út í, þegar þannig stendur á, svo sem frekast er kostur. Með löggjöfinni um hlutafélög er einstaklingum, sem vilja stunda áhættusaman atvinnurekstur, skapaður grundvöllur til þess, að hægt sé að ná saman fjármagni til fjárfrekra framkvæmda, án þess að áhætta þátttakenda verði meiri en hlutafjárframlag þeirra. Öðru máli gegnir um sveitarfélögin; löggjöf vantar til að tryggja sveitarfélögum sömu aðstöðu og einstaklingum að þessu leyti.

Það frv. til laga, sem hér er nú til umr., stefnir að því að ráða hér bót á. Vissulega má færa rök fyrir því, að hlutafélagaformið geti a. m. k. að vissu leyti komið sveitarfélögum að gagni í þessu efni. Í því sambandi má benda á 31. gr. hlutafélagalaga, 2. málsgr. Þar er sveitarfélögum, sem aðilar eru að hlutafélagi, veitt undanþága varðandi takmörkun á því atkvæðamagni, sem einstakir hluthafar mega fara með á hluthafafundi. Þannig getur sveitarfélag tryggt sér meirihlutavald í hlutafélagi, sem það stofnar til. En eins og rakið er í grg. með þessu frv., eru á þessu fyrirkomulagi ýmsir annmarkar. Skal fyrst bent á það, að tilgangur hlutafélagaformsins er annar en sveitarfélagarekstrar. Annars vegar er rekstrarform hlutafélaga, sem einkum eru rekin í ágóða skyni og miða að söfnun fjármagns til framkvæmda og takmörkun áhættu þátttakenda við hlutafjárframlag þeirra. Hins vegar er markmið sveitarfélags, sem stofna vill atvinnufyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð til að auka og tryggja atvinnu í sveitarfélaginu með hag allra íbúa þess fyrir augum. Aðstæður, sem lög um hlutafélög eru miðuð við, eru þannig ólíkar þeim, sem eru hjá fyrirtækjum sveitarfélaga.

Þá eru ákvæði V. kafla hlutafélagalaganna, um stjórn og hluthafafundi, svo og ákvæðið um, að minnst 5 einstaklingar verða að vera með sem hluthafar á þann veg, að þarflaust og óheppilegt er að knýja sveitarfélög til að hlíta þeim. Það, sem er sameiginlegt áðurnefndum rekstrarformum, þ. e. hlutafélögum og sveitarstjórnarrekstri með takmarkaðri ábyrgð, er takmörkun ábyrgðar eigenda í báðum tilfellum, og skuldheimtumenn hafa þörf fyrir sams konar vernd einnig í báðum tilfellum, eins og gert er ráð fyrir í frv. Nái þetta frv. fram að ganga, getur sveitarfélag dregið úr þeirri fjárhagsáhættu, sem það tekst á hendur við atvinnurekstur á eigin vegum og stofnað er til í atvinnuaukningar skyni. Gera verður þó ráð fyrir, að atvinnufyrirtæki sveitarfélaga með takmarkaðri ábyrgð mundu í sumum tilfellum þarfnast frekari fjárhagsfyrirgreiðslu hjá viðkomandi sveitarfélagi en einungis stofnframlagsins. Í því efni kynni að þurfa að koma til ábyrgð sveitarsjóðs, t. d. í sambandi við lántökur vegna fjárfestingarframkvæmda eða jafnvel rekstrarins, ef brýn þörf væri á, en slíka aðstoð láta sveitarfélög sumum fyrirtækjum einstaklinga í té undir sérstökum kringumstæðum. Engu að síður mundi hið nýja rekstrarform, sem hér er lagt til, að tekið verði í lög, veita aukið aðhald fyrir stjórnendur viðkomandi rekstrar og stuðla að því, að slíkur atvinnurekstur stæði meira á eigin fótum en ella.

Í grg. með þessu frv. er vakin athygli á því, að ríkissjóður hafi farið þá leið, sem hér er bent á, og í því sambandi minnzt á lög um Síldarverksmiðjur ríkisins og Fiskiðjuver ríkisins. Þar kemur fram, að ástæða hefur þótt til að veita ríkissjóði heimild til rekstrar nefndra atvinnufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð. Ég leyfi mér að fullyrða, að þörf sveitarfélaga, sem fæst eru fjársterk, fyrir að fá nú slíka heimild er ekki síður brýn en þörf ríkissjóðs á sínum tíma fyrir heimild hans til rekstrar Síldarverksmiðja ríkisins og Fiskiðjuvers ríkisins, með takmarkaðri ábyrgð, svo að ekki sé meira sagt. Sú leið er vissulega hugsanleg, að sett verði sérstök lög um einstök atvinnufyrirtæki sveitarfélaga, sem eru talin fjárhagslega áhættusöm í rekstri, þar sem kveðið væri á um takmarkaða ábyrgð sveitarfélagsins. Enda þótt hér sé um að ræða örugga leið, sem gæti uppfyllt vel kröfur þær, sem gerðar eru í hverju tilfelli, er augljóst, að slíkt yrði ekki hagkvæmt. Það yrði of seinvirkt og of tímafrekt til þess, að þeim tilgangi yrði náð, svo að vel sé, sem að er stefnt með þessu frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt með því að ræða ítarlega efni hinna einstöku gr. frv. Þær skýra sig sjálfar, en meginatriðin eru þau, að sveitarfélögum skal heimilt að stofna til atvinnufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð, sem þau eiga ein og reka án hlutdeildar annarra. Ábyrgðin skal takmörkuð við stofnfé það, sem lagt er fram til fyrirtækisins, og önnur framlög og ábyrgðir, sem sveitarstjórnin kann að ákveða. Það er gert ráð fyrir því, að nafn umræddra fyrirtækja beri með sér, að þau séu rekin með takmarkaðri ábyrgð, eins og er um hlutafélög í gildandi l. þar að lútandi. Í samþykktum um stofnun slíkra atvinnufyrirtækja, sem staðfestar yrðu af félmrh. samkvæmt frv., skal greina ýmis atriði, svo sem heiti fyrirtækis og heimilisfang, tilgang þess og upphæð stofnfjár, stjórn, framkvæmdastjóra, valdsvið þeirra og verksvið, svo að nokkuð sé nefnt. Þá er einnig gert ráð fyrir, að lágmarksstofnfé skuli vera aðeins 100 þús. kr. Ýmsum kann að finnast, að hér sé um lága upphæð að ræða, en haft er í huga, að fyrirhuguð löggjöf, ef hún nær fram að ganga, gæti einnig komið fámennum og fjárvana sveitarfélögum að gagni. Er áðurgreind upphæð sem lágmarksstofnfé við það miðuð. Þá skal lögreglustjóri halda skrá yfir þau fyrirtæki, sem kynnu að verða stofnuð samkvæmt frv. Umrædd fyrirtæki skulu undanþegin gjöldum til ríkis og sveitarfélaga samkvæmt sömu reglum og gilda á hverjum tíma um sömu atvinnustarfsemi, væri hún rekin af sveitarfélagi með ótakmarkaðri ábyrgð. Refsiákvæði í frv. eru hin sömu og í hlutafélagalögum. Þá eru ákvæði um, að ráðherra geti með reglugerð sett nánari fyrirmæli um framkvæmd.

Herra forseti. Ég er kominn að lokum máls míns, en vil að síðustu víkja nokkrum orðum að sérstökum áhuga, sem fram hefur komið hjá bæjarstjórn Hafnarfjarðar varðandi það mál, sem hér er til umr. Hún hefur um skeið haft til athugunar möguleika til takmörkunar á ábyrgð bæjarsjóðs í sambandi við rekstur Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, en það fyrirtæki var sett á stofn árið 1931, á kreppuárum, þegar við geigvænlegt atvinnuleysi var að etja. Í sambandi við þetta fyrirtæki skal tekið fram, að þótt á ýmsu hafi gengið í rekstri þess frá því, að það var stofnað, held ég, að þeir, sem til þekkja, séu nú sammála um, að starfsemi þess hafi haft ómetanlegt gildi fyrir allt atvinnulíf Hafnarfjarðar á liðnum árum. Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 12. okt. s. l. var gerð ályktun um þetta mál. sem samþykkt var í einu hljóði og er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn samþykkir að beina því til Alþingis, að sett verði löggjöf, er heimili sveitarfélögum að stunda áhættusaman atvinnurekstur með takmarkaðri fjárhagsábyrgð.“

Jafnframt er bæjarstjóra falið í samráði við bæjarráð að láta grg. fylgja málinu til Alþ. Í niðurlagi grg. bæjarstjóra Hafnarfjarðar, sem fylgir þessari ályktun bæjarstjórnar til Alþ., segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefir sérstaklega í huga að mega takmarka ábyrgð bæjarsjóðs á rekstri Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Í sögu þess fyrirtækis hafa skipzt á skin og skúrir, og þótt menn geti deilt um gildi slíks reksturs fyrir bæjarfélagið, eru flestir sammála um mikilvægi þess á erfiðleikatímum í atvinnumálum bæjarins, eins og reynslan sannar. Alger samstaða er meðal bæjarfulltrúa um, að ályktun sú, sem hér um ræðir, nái fram að ganga, og væntir bæjarstjórn þess, að hið virðulega Alþingi, sem nú situr, sjái sér fært að samþykkja nú í vetur löggjöf þar að lútandi.“

Þannig hljóðar niðurlag grg. bæjarstjórans í Hafnarfirði. Það frv. til laga um heimild sveitarfélaga til stofnunar og starfrækslu atvinnufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð, sem hér liggur fyrir til 1. umr., miðar að því að verða við slíkri beiðni, sem áðurgreind ályktun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar felur í sér. Ég leyfi mér að láta þá ósk og von í ljósi, að hv. alþm. sjái sér fært að veita þessu frv. brautargengi, þannig að það geti orðið að lögum á því þingi, sem nú situr. Hér er ekki einungis um að ræða hagsmunamál þeirra sveitarfélaga, sem nú hafa með höndum áhættusaman atvinnurekstur á eigin vegum, sem rekinn er með ótakmarkaðri ábyrgð, heldur snertir þetta einnig þau sveitarfélög önnur, sem í framtíðinni kynnu að vilja stofna til svipaðrar starfsemi til styrktar og uppbyggingar blómlegu atvinnulífi á komandi árum.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til. að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn. og 2. umr. að lokinni þessari umr.