25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Björn Sveinbjörnsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. og flutt er af þingmönnum úr öllum flokkum, er flutt til þess að gera sveitarfélögum kleift með sérstöku hagkvæmu félagsformi að starfrækja atvinnufyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð á svipaðan hátt og einstaklingar geta haft með höndum atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð með því að stofna hlutafélög um reksturinn. Frv. er flutt í samræmi við ályktun, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 12. þ. m., eins og fram kom í ræðu hv. 5. landsk. þm., 1. flm. þessa frv., en hann las þessa ályktun upp. Hann hefur í ræðu sinni gert grein fyrir þeim ástæðum og rætt helztu sjónarmið og rök, sem mæla með því, að þetta frv. verði samþ. Ég er í meginatriðum sammála skoðunum hans, en vil þó fara nokkrum orðum um frv. Verði það að lögum, sem ég vona, geta sveitarfélög með því að nota það félagsform, sem það gerir ráð fyrir, lagt í atvinnurekstur, þótt áhættusamur sé, án þess að hætta meira til en stofnframlagi sínu til félagsins, svo og eignum þess á hverjum tíma og þeim viðbótarframlögum, sem sveitarstjórn eða bæjarstjórn kann að ákveða. Segja má, að þetta sé mögulegt samkv. núgildandi lögum með því að nota hlutafélagaformið, en þó er það ýmsum annmörkum háð, af því að í hlutafélagi þurfa stofnendur að vera 5 menn hið fæsta og ávallt þurfa a. m. k. 5 hluthafar að vera einstaklingar, þótt ýmsir ópersónulegir aðilar, þ. á m. sveitarfélög, geti átt mestan hluta hlutafjárins og ráðið félaginu í raun. Þetta er nú raunar auðveldara fyrir sveitarfélögin hér en áður var, eftir að breyting var gerð á hlutafélagalögunum árið 1957 á þá leið, að ríkið og sveitarfélög og stofnanir þeirra, svo og samvinnufélög, geti farið með atkvæðisrétt í fullu samræmi við 'hlutafjáreign sína, hversu há sem hún er, en áður gat enginn einn aðili farið með meira en 1/5 hluta samanlagðra atkv., þótt hann ætti meira hlutafé en því nam. Samt sem áður hefur hlutafélagaformið ýmsa annmarka fyrir opinbera aðila, enda er það fremur miðað við þarfir einstaklinga.

Það mun hafa staðið til árum saman að breyta hlutafélagalögunum þannig, að þau yrðu sniðin eftir samsvarandi lögum þeirra landa, sem fært hafa löggjöf sína á þessu sviði til nútímahorfs, en þær breytingar hafa ekki enn náð fram að ganga. Víða erlendis hefur hlutafélagalöggjöf verið breytt í þá átt, að ópersónulegir aðilar geti verið stofnendur hlutafélaga og eigendur hlutafjár. Það er misjafnt, hversu margir hluthafar þurfa að vera hið fæsta. Í Danmörku eru þeir 3 og ekki bundið við einstaklinga, en sums staðar erlendis má einn aðili eiga öll hlutabréfin. Svo er t. d. í sumum fylkjum Bandaríkjanna. Þar sem því er þannig varið, getur einn maður eða einn aðili rekið fyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð í hlutafélagsformi. Ef hlutafélagalögum hér yrði breytt í slíkt horf, kynni sú leið að henta sveitarfélögum, en ég óttast, að of langt verði að bíða slíkra breytinga, enda allt í óvissu um þær. Hins vegar tel ég og aðrir hv. flm. þessa frv. brýna nauðsyn, að þegar verði settar lagareglur, er heimili sveitarfélögum að hafa með höndum atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð, og því er þetta frv. flutt.

Ég mun ekki ræða hér einstök atriði þessa frv., en mér er ljóst, að á því kunna að vera einhverjir gallar, og ég er reiðubúinn að styðja hverja þá brtt., sem ég tel til bóta. Í ályktun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem ég gat um í upphafi, er aðeins gert ráð fyrir því að reka áhættusaman atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð. Þetta frv. gengur allmiklu lengra, því að í því er gert ráð fyrir, að sveitarfélög geti stofnað hvers konar atvinnufyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð. Í nafni frv. er einnig talað um þjónustufyrirtæki. Orðið þjónusta ætti þar að falla niður til samræmis við orðalagið í 1. gr.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að heimild sveitarfélaga til stofnunar fyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð eigi ekki að vera mjög rúm og fremur undantekning en regla og bundin því skilyrði, að um sé að ræða áhættusaman atvinnurekstur í atvinnuaukningar skyni. Sveitarstjórnir verða síðan að meta það, hvenær þörf er fyrir slík fyrirtæki. En það er ærið oft, að sveitarfélög þurfa að stofna til atvinnurekstrar í atvinnuaukningarskyni, þegar harðnar í ári, og þetta er eitt af hlutverkum sveitarfélaganna lögum samkvæmt. Upphaflega voru t. d. allar bæjarútgerðir stofnaðar í þessu skyni. Ég hef oft heyrt þá skoðun, að í raun skipti það ekki miklu máli fyrir sveitarfélög, hvort þau reki fyrirtæki með takmarkaðri eða ótakmarkaðri ábyrgð. Bankastofnanir munu eftir sem áður krefjast fullkominna veða og ábyrgða fyrir lánum sínum. Hér verður þó meginmunur á, og hann er sá, að sveitarfélagið ber ekki sjálfkrafa ábyrgð á öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Sveitarstjórn verður að taka um það sérstaka ákvörðun hverju sinni, ef illa gengur, hvort hún ætlar að halda viðkomandi fyrirtæki áfram með því að leggja því til meira fé eða ganga í aukna ábyrgð, en hún getur líka hætt rekstri þess, hvenær sem er, án þess að hætta meiri fjármunum en þegar hafa verið lagðir í fyrirtækið. Að því er varðar viðskiptamenn fyrirtækja þeirra, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, þá eru hagsmunir þeirra ekki verr tryggðir en hagsmunir viðskiptamanna annarra fyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð. Frv. gerir ráð fyrir því, að í nafni fyrirtækisins verði orð eða skammstöfun, sem gefi til kynna, að ábyrgð sé takmörkuð, og þetta tel ég veigamikið atriði. Síldarverksmiðjur ríkisins eru með takmarkaðri ábyrgð. Sama gildir um Fiskiðjuver ríkisins, en ekki bera nöfn þessara fyrirtækja það þó með sér, og hefði þó verið full ástæða til.

Frv. gerir ráð fyrir, að lögreglustjórar haldi skrá um þau fyrirtæki, sem stofnuð verða samkvæmt því, ef að lögum verður, á svipaðan hátt og skrár um samvinnufélög og hlutafélög, en nánari reglur um þetta verði settar með reglugerð. Ég tel nauðsynlegt, að í samþykktum þessara fyrirtækja verði skýrari reglur um verksvið og valdsvið stjórnar og framkvæmdastjóra og menn geti ávallt fengið glöggar upplýsingar um þetta í viðkomandi skrám, svo að þeir þurfi ekki að vera í neinum vafa um réttarstöðu sína sem viðsemjendur eða sem viðskiptamenn slíks fyrirtækis og geti á aðgengilegan hátt fengið upplýsingar um fyrirtækið og það, hvernig ábyrgð sveitarfélaga gagnvart því sé háttað. Það er vert að minnast aðeins á það, að frv. gerir ráð fyrir, að fyrirtækið verði undanþegið opinberum gjöldum eins og annar atvinnurekstur sveitarfélaga, og virðist þetta sjálfsagt og eðlilegt.

Ég vil að lokum láta í ljós þá von mína, að frv. þetta fái góðar undirtektir hv. þm. og verði að lögum á þessu þingi. Það er skoðun okkar flm. þess, að það verði til mikils hagræðis fyrir sveitarfélög og bæti úr brýnni þörf. En fyrirtæki þau, sem hér um ræðir, mundu verða rekin með almenningsheill fyrir augum og til hagsbóta fyrir alla íbúa viðkomandi sveitarfélags.