25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi láta það koma fram hér við þessa 1. umr., að ég tel, að sú n., sem fær þetta frv. til athugunar, ætti að íhuga það mjög vel, hvort nokkur ástæða sé til þess að fara að lögfesta eitt rekstrarform til viðbótar því, sem fyrir er. Ég held, að ef sveitarfélögin vilja — og telja sig þurfa að — stuðla að aukinni atvinnu, þá hafi þau opna leið til þess. Frsm. minntist á hlutafélagaformið, en ég tel, að það liggi alveg opið fyrir sveitarfélögum, sem vilja stuðla að aukinni atvinnu, að fara einmitt þá leiðina að vera meðeigandi í slíkum atvinnurekstri, láta einstaklingana taka þar höndum saman við sveitarfélagið. Ég er sannfærður um, að það er miklu betra form en það, sem hér er lagt til.

Eins og fram kom í ræðu frsm., er aðalástæðan fyrir flutningi þessa frv. að forða sveitarfélögum frá áföllum, sem þau kynnu að verða fyrir, ef þau leggja út í áhættusaman atvinnurekstur. Í sambandi við þetta hlýtur að rifjast upp fyrir manni það, sem skeði hér á nýsköpunarárunum, þegar mjög mörg sveitarfélög réðust í að gera út togara og mörg af þeim urðu fyrir allverulegum skakkaföllum, urðu úti með verulegt fé til þess að komast út úr málinu. Hvað hefði skeð, hefði þetta form þá verið, að sveitarfélög víðs vegar um landið hefðu getað stofnað til slíkra stóratvinnufyrirtækja aðeins með tilgreindu framlagi og tilgreindri ábyrgð? Hver hefði þá átt að borga þann halla, sem sveitarfélögin urðu að greiða, þegar þau voru að losa sig út úr bæjarútgerðunum aftur? Ég tel, að menn verði að hafa í huga, að allir aðilar, sem samskipti mundu hafa við sams konar fyrirtæki og hér er lagt til, að stofnað yrði, líta það nokkuð öðrum augum, ef nafn sveitarfélags er tengt því. Þeir telja sig vera að lána eða veita fyrirgreiðslu slíku fyrirtæki og lána því, ef sveitarfélag á annað borð er sá aðilinn, sem á þetta að öllu leyti. Aftur á móti, ef um einstaklinga eða hlutafélög er að ræða, þá metur hver, sem lánar þessu fyrirtæki, það sjálfur, hvort hann telur fyrirtækið gott og hvort hann telur það þess virði að veita því fé og veita því fyrirgreiðslu. Það er einmitt þetta, sem ég óttast mjög, að yrði litið öðrum augum, ef sveitarfélagið er raunar „einkaaðili“, þótt það sé með takmarkaða ábyrgð; það fer ekki fram hjá mönnum. Þeir teldu þá fyrirtækið gott, og því væri lánað, jafnvel þó að það væri kannske talið vafasamara, ef um einstaklingsfyrirtæki væri að ræða.

Ég satt að segja er ekki almennilega búinn að átta mig á því, en einhvern veginn finnst mér, að blærinn á frv. sé í heild sá, að það eigi að fara að stofna til fyrirtækja í nafni sveitarfélaga eða sveitarfélögin eigi að fá aðstöðu til þess að stofna fyrirtæki og ætli svo að geta sloppið undan þeim skyldum, sem hljóta að hvíla á þeim, sem stofna til áhættusams atvinnurekstrar. Ég tel, að þær sveitarstjórnir, sem slíkt spor stíga, eigi að gera sér ljóst fyrir fram, að þær verði að taka áhættuna af því, sem þar er um að ræða. Þær eiga ekki að hafa leyfi til þess að vera að tengja nafn sveitarfélagsins við fyrirtækið og segja svo: Stofnframlagið er milljón. Okkar ábyrgð er þetta og síðan varðar okkur ekki meira um fyrirtækið.

Ég tel að það sé verið að leiða inn ábyrgðarleysi hjá sveitarstjórnarmönnum, ef þeim er gefin heimild til þess að gera slíka hluti og ef þeir leggja út í að framkvæma þá. Þar sem ég þekki til sveitarstjórna, er ég sannfærður um það, að það mundi ekki ein einasta sveitarstjórn á landinu, ef hún stofnaði fyrirtæki samkv. þessum l. og það færi eitthvað á annan veg en til hefði verið stofnað, láta aðra borga skakkaföllin af því. Ég þekki þá sveitarstjórnir illa, ef þær teldu sig ekki standa ábyrgar fyrir gerðum sínum og teldu sig vera bótaskyldar, jafnvel þó að það hefði eitthvað í upphafi verið bundið við einhverjar tilteknar greiðslur. Það er auðvitað hlutur, sem liggur beint við, að sé stofnað til áhættusams atvinnurekstrar og verði á honum halli, þá verður auðvitað að borga hallann, og það eiga ekki þeir að greiða, sem í góðri trú veita fyrirgreiðslur. Auðvitað eru það þeir, sem til atvinnurekstrarins stofna. Ef það er gert á þann hátt, sem hérna er lagt til, eiga þeir strax í upphafi að gera sér ljóst, að þeir eiga ekki að vera að stofna fyrirtæki, sem þeir ætla síðan að hlaupa frá og skilja eftir með skuldirnar, sem aðrir eiga að borga. Einnig þarf að gefa gaum að því atriði, sem hér kom fram hjá öðrum ræðumanni, 2. flm. frv., þ. e. að þessi fyrirtæki skuli undanþegin opinberum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga samkv. sömu reglum, sem gilda á hverjum tíma við sömu atvinnustarfsemi. Hvað felst í þessu? Eiga t. d. aðstöðugjöld til sveitarfélaganna að vera undanþegin slíku? Ef farið er inn á þá braut að opna leiðir til stofnunar félaga, sem eru undanþegin öllum gjöldum til ríkis og bæja, þá eru þetta orðin fyrirtæki, sem hafa alveg séraðstöðu. Það eiga þá aðrir aðilar að greiða skattana fyrir þessi fyrirtæki, og ég veit ekki, hversu heppilegt eða heilbrigt það er í þjóðfélaginu, að menn geti stofnað til fyrirtækja og haft þann forgangsrétt að þurfa ekkert að hugsa um opinber gjöld, þau séu undanþegin. Þetta er að mínum dómi allt of mikill forgangur til einstakra aðila.

En ég tel sem sé, að n., sem fær þetta frv. til meðferðar, eigi að athuga það mjög vel frá öllum hliðum, áður en hún mælir með, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir.