25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Flm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Í tilefni af því, sem fram hefur komið í þeim umr., sem hér hafa farið fram út af því frv., sem hér er til 1. umr., vildi ég undirstrika fyrst það, sem ég reyndi að leggja áherzlu á í framsöguræðu minni, að samkv. sveitarstjórnarlögum er það eitt af hlutverkum sveitarstjórna að reyna að koma í veg fyrir atvinnuleysi, þegar hætta er á slíku. Ég benti einnig á, að það hefðu sveitarfélög gert með ýmsum hætti. Bæjarsjóður Hafnarfjarðar stofnaði Bæjarútgerð Hafnarfjarðar á kreppuárunum kringum 1930 með ótakmarkaðri fjárhagsábyrgð. Borgarstjórn Reykjavíkur setti á stofn Bæjarútgerð Reykjavíkur til þess að efla atvinnulíf þess byggðarlags. Eiga sveitarfélögin að hafa sömu skilyrði og einstaklingar til þess að stofnsetja og reka slík fyrirtæki til atvinnuaukningar? Einstaklingsframtakið hefur hlutafélagsformið til þess. Þeir, sem taka þátt í hlutafélögum til þess að efla atvinnulíf á þann hátt, bera einungis fjárhagsábyrgð í gegnum hlutafjárframlag sitt. Það, sem fyrir okkur vakir, sem að þessu frv. stöndum, er að reyna að koma hlutunum þannig fyrir, að áhætta sveitarfélagsins geti orðið söm við rekstur atvinnufyrirtækja.

Það hefur verið gert mikið úr því hér, að mikil hætta væri á ferðum fyrir lánardrottna í sambandi við stofnun fyrirtækja samkvæmt slíku rekstrarformi, þ. e. að lánardrottnar slíkra fyrirtækja væru settir í einhverja meiri hættu en ef um hlutafélag einstaklinga væri að ræða. Ég tel, að ástæðulaust sé að ætla, að svo yrði. Ég skal ekki fara út í að ræða um reynslu þá, sem Vestmanneyingar höfðu af bæjarútgerð sinni á sínum tíma eða önnur sveitarfélög, sem náðu misjöfnum árangri með slíkum rekstri á sínum tíma. En ég fullyrði, eins og ég reyndar gat um í ræðu minni hér áðan, að sú reynsla, sem við Hafnfirðingar höfum haft af bæjarútgerð okkar, hefur þrátt fyrir allt og þrátt fyrir ýmsa erfiðleika á stundum verið mjög til góðs fyrir allt atvinnulíf bæjarins allt frá stofnun fyrirtækisins.

Það er út af fyrir sig sjónarmið, sem ég virði og skil, að sumir menn hafa þá lífsskoðun, að það beri að reyna að takmarka allan atvinnurekstur á vegum sveitarfélaga svo sem frekast er kostur, eins og fram kom hér hjá hv. 9. landsk. þm. En ég verð að segja það, að mig furðar stórlega, að 3. landsk. þm., sem hefur viljað kalla sig jafnaðarmann, skuli tala á þann veg, sem hann hefur gert í þessum umr. (Gripið fram í: Er þetta rekstrarform til á Norðurlöndum?) Nákvæmlega þetta rekstrarform mun ekki vera til. (Gripið fram í: Eru nokkrir jafnaðarmenn á Norðurlöndum?) Ég veit ekki, hvaða samband þarf að vera á milli þess, að jafnaðarmenn séu til á Norðurlöndum, og þess, að þeir hafa ekki komið fram með þetta mál. Ég held, að við mættum bara vera hreyknir af því, Íslendingar, að koma með eða fá fram það, sem felst í þessari hugmynd, sem frv. grundvallast á, sem hér er til umr.

Það er samhljóða álit bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, að það sé algerlega óviðunandi fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bíða eftir því, að endurskoðun fari fram á hlutafjárlögunum, eins og hv. 3. landsk. þm. talaði um í ræðu sinni. Hafnfirðingar leggja á það ríka áherzlu, að skilyrði skapist til að reka Bæjarútgerð Hafnarfjarðar með fyrirkomulagi í líkingu við það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar á von á þúsund tonna togara á næsta hausti, sem kostar 150 millj. kr. eða jafnvel enn meira. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vildi gjarnan koma rekstrarformi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar í það horf, svo fljótt sem við verður komið, að hægt verði að reka hana á svipaðan hátt og einstaklingsframtak getur rekið sín fyrirtæki á grundvelli hlutafélagalaga.