16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Ég vil aðeins greina frá því, hvers vegna ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Það var vegna þess, að ég vildi kanna þetta mál örlítið betur, og ég vil láta þess getið hér, að ég mun flytja brtt. þess efnis, að 6. gr. verði felld niður.

Ég er fylgjandi þeirri meginstefnu frv., að sveitarfélögum verði heimilað að stofna til atvinnurekstrar með takmarkaðri ábyrgð. Við vitum það, að sveitarfélög geta nú stofnað til atvinnurekstrar, og ég sé ekki, að þetta frv. í sjálfu sér breyti neinu um það, en með þessu frv. verður þeim gert kleift að stofna til atvinnurekstrar með takmarkaðri ábyrgð án þess að þurfa að vera að beita einhverjum brögðum, sem við vitum ósköp vel, að oft hefur verið gert. Sveitarfélög hafa tekið þátt í rekstri hlutafélaga, en þau hafa ekki getað verið stofnendur þeirra, en eftir stofnfund hafa þau getað eignazt meiri hluta í hlutafélaginu og farið með öll völd í því. Ég er sem sé fylgjandi frv., en mun leggja fram brtt. þess efnis, að 6. gr. verði felld niður.