16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég er andvígur þessu frv. af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég álít, að sveitarfélög eigi að einskorða sig sem mest við að standa fyrir samfélagslegri þjónustu. Að vísu má taka það fram, að oft og tíðum kann að bera nauðsyn til þess, að sveitarfélögin ráðist út í ýmiss konar atvinnurekstur, og á það þó sérstaklega við, þegar atvinnuleysi herjar á. Þetta er fyrri ástæðan fyrir því, að ég er andstæður þessu frv.

Hin síðari er sú, að ég fæ ekki með neinu móti séð, að hvaða gagni þetta mætti verða. Í fyrsta lagi hefur komið fram, sem rétt er, að sveitarfélög hafa átt þess kost að reka félög með takmarkaðri ábyrgð. Í öðru lagi er mér alveg ókunnugt um það, að þannig standi á í þjóðfélagi okkar, að nokkur aðili mundi t. d. greiða fyrir slíku fyrirtæki, án þess að krafizt yrði alveg frá upphafi næstum því hvernig sem fyrirtækið stæði — ótakmarkaðrar ábyrgðar sveitarfélagsins. Það yrði þá í hæsta lagi, að þessi takmarkaða ábyrgð gæti komið til góða, ef einhverjir sakleysingjar yrðu til þess að eiga viðskipti við félagið og félagsskapinn án þess að gá að hagsmunum sínum nægjanlega vel.

Það er örugglega alfarið venja hjá öllum bönkum og lánastofnunum í tilfellum sem þessum að krefjast aukaábyrgðar sveitarfélags, þegar þannig stendur á eins og standa mundi á í þessu tilfelli.