22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Á þskj. 481 hef ég leyft mér að flytja brtt. við 6. gr. frv. þess, sem hér er til 3. umr. Við 2. umr. málsins boðaði ég brtt. þess efnis, að 6. gr. yrði felld niður, en við nánari athugun taldi ég réttara að breyta gr., til þess að enginn vafi léki á, við hvað væri átt. Ég legg til, að 6. gr. frv. orðist svo:

„Fyrirtæki stofnuð og rekin samkvæmt lögum þessum skulu hlíta skattskyldu eins og félög þau, sem um ræðir í fyrri málslið a-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Grein sú í skattalögunum, sem vísað er til, hljóðar þannig: „Tekjuskatt og eignarskatt greiða þessi félög og stofnanir: A. Hlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila“.

Það er að sjálfsögðu lengri upptalning, en þetta er það, sem vísað er til í brtt. minni. Það ætti að vera grundvallaratriði, að hinum ýmsu félagsformum atvinnurekstrarins sé ekki mismunað í skattgreiðslum eða mismunur sé í skattgreiðslum eftir því, hver rekur fyrirtækið; þess vegna er þessi brtt. flutt. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það fram, að ég er andvígur öllum óþarfaatvinnurekstri sveitarfélaga. Óþarfaatvinnurekstur sveitarfélaga er að mínu mati sá atvinnurekstur, sem einstaklingar eða fyrirtæki rekin af öðrum geta sinnt fyrir sveitarfélög og aðra, en þess er ekki að vænta, að einstaklingar geti keppt við sams konar fyrirtæki sveitarfélaga, ef ekki gildir sama regla um skattgreiðslur, hver sem að rekstrinum stendur. Nú eru raunar engin ákvæði í lögum, sem takmarka heimildir sveitarfélaga til þess að stofna til atvinnurekstrar. Í öllum tilfellum er sá atvinnurekstur með ótakmarkaða ábyrgð viðkomandi sveitarsjóðs á bak við sig auk skattfríðinda, sem hann nýtur. Ég er þeirrar skoðunar, að þessar heimildir ætti að takmarka. Það gerist að vísu ekki með samþykkt þessa frv., en hins vegar er ég sannfærður um, að þau sveitarfélög, sem telja sig af einhverjum ástæðum þurfa að efna til atvinnurekstrar, munu nota þetta form, og þar með tel ég vera stigið spor í rétta átt.

Ég er ekki sammála þeim skoðunum, sem hér hafa komið fram um, að samþykkt þessa frv. muni hafa í för með sér stóraukinn atvinnurekstur á vegum sveitarfélaga, auk þess sem það muni innleiða ábyrgðarleysi hjá sveitarstjórnum eins og hér hefur einnig verið talið. Eins og ég sagði áðan, þá eru raunverulega engar takmarkanir í lögum nú á heimildum sveitarfélaga til að efna til atvinnurekstrar, og allur er reksturinn með ótakmarkaða ábyrgð sveitarsjóðs á bak við sig. Það er einmitt þetta, sem er óeðlilegt, enda hefur það leitt til alls konar vafsturs sveitarfélaga, sem þau ættu ekki að koma nálægt, vegna þess að aðrir geta leyst þær þarfir ýmsar. Þar fyrir utan hefur það leitt til ábyrgðarleysis, eins og dæmin sanna. Mér er fyllilega ljóst, að atvinnurekstur ýmissa sveitarfélaga hefur verið nauðsynlegur, bæði til þess að afstýra atvinnuleysi og eins hefur það beinlínis verið forsenda þess, að unnt hefur verið að koma ákveðnum greinum á fót. Það hefur verið forsenda, að sveitarfélögin stæðu þar á bak við. Hins vegar réttlætir það ekki, að um ótakmarkaða ábyrgð hefur ætíð verið að ræða.

Því hefur verið hreyft hér í umr., að samþykkt frv. muni hafa í för með sér breytt mat lánastofnana í viðskiptum þeirra við sveitarfélögin, þegar um yrði að ræða mat á því, hvort lána ætti fé til fyrirtækis eða rekstrar á vegum sveitarfélags, ef fyrirtækið eða þá reksturinn væri í þessu formi. Ég efast í sjálfu sér ekkert um, að þetta er rétt, en ég tel það einmitt vera til góðs. Fremur yrði það þá metið, hvort reksturinn væri í það góðu lagi, að ástæða væri til að lána til hans. Á það hefur áreiðanlega oft skort og sjálfsagt m. a. vegna þess, að vissa hefur verið fyrir því, að sveitarsjóðirnir stæðu á bak við.

Þá hefur það einnig komið fram í umr., að þetta form væri í sjálfu sér tilgangslaust, vegna þess að lánastofnanir mundu ætíð krefjast ábyrgðar sveitarsjóðs fyrir lánum. Ég held, að slíkt fari að sjálfsögðu eftir því, hvað reksturinn er í góðu lagi, hvað hann er öruggur að mati lánastofnunar, en annars er ekki nema gott um það að segja, að lánastofnanir athugi betur sinn gang, áður en lánað er til e. t. v. vafasams rekstrar á vegum sveitarfélaga, en umfram allt tel ég það vera til bóta, að umr. mundu verða í sveitarstjórn hvert sinn, sem leitað væri ábyrgðar sveitarsjóðs. Ég leyfi mér að efast um, að nokkrar teljandi umr. hafi orðið í ýmsum sveitarstjórnum um ýmsar vafasamar fjárskuldbindingar, sem einstök fyrirtæki sveitarfélaga hafa gert. En með þessu formi verður ekki hjá því komizt, að það verði kannað ofan í kjölinn, hvort rétt sé að veita ábyrgð sveitarsjóðs.

Ég fylgi þessu frv. í trausti þess, að brtt. mín verði samþ., svo og í þeirri trú, að samþykkt frv. muni ekki leiða til aukinna umsvifa sveitarfélaga á sviði atvinnurekstrarins, heldur muni samþykkt þess leiða til betra rekstrarforms þess atvinnurekstrar, sem sveitarfélögin telja sig þurfa að sinna.