22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, þar sem ég á sæti í n., sem fjallaði um þetta mál. Nál. undirritaði ég með fyrirvara, og fyrirvari minn var fólginn í því, að ég er andvíg 6. gr. frv., sem undanþiggur þar umrædd fyrirtæki frá greiðslu opinberra gjalda. Mér finnst sjálfsagt, að þessi fyrirtæki sitji að þessu leyti við sama borð og önnur sams konar fyrirtæki rekin af öðrum aðilum og sé ekki ívilnað umfram þá. Ég fylgi því brtt., sem hv. 11. landsk. þm. flytur og tekur af öll tvímæli um þetta efni. Ef sú till. fellur, mun ég hins vegar greiða atkv. gegn frv.