08.05.1972
Efri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Forsetinn hefur þegar gert grein fyrir því, hvers vegna það er ég, sem stend hér. Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv. til l. um heimild sveitarfélaga til stofnunar og starfrækslu atvinnu- og þjónustufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð. N. hefur athugað frv., eins og það kom frá Nd. Alþ., og mælir með samþykkt þess óbreytts. Einn nm., Auður Auðuns, var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Frv. þetta fjallar, eins og hv. þm. er kunnugt, um heimild sveitarfélaganna til að stofna til atvinnu- og þjónustufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð. Þessi fyrirtæki skal auðkenna á sérstakan hátt með orðinu: „STÁ“, og ætlazt er til þess, að stofnfé þeirra sé a. m. k. 100 þús. kr. Þetta var allmikið rætt í n., og nm. gerðu sér grein fyrir því, að þau tilvik gætu verið fyrir hendi, að nauðsynlegt væri fyrir sveitarfélag að stofna til þjónustu- eða atvinnufyrirtækis og þá mikið öryggi í því að geta gert sér grein fyrir því á hverjum tíma, hve mikil ábyrgð sveitarfélagsins væri gagnvart þessu fyrirtæki. Í meðferð málsins í hv. Nd. var gerð á því sú breyting, að slík fyrirtæki, sem hér um ræðir, skuli bera opinber gjöld eins og um hlutafélög væri að ræða, og að gerðri þessari breytingu kom okkur saman um það að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt.