13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er einhver smávegis misskilningur hjá hv. 1. þm. Austf. Ég var ekki að tala um það, að Seðlabankanum hefði kannske ekki verið Ljóst, að við Sunnlendingar hefðum áhuga fyrir því að fá hringveginn. Ég sagði, að Seðlabankanum hefði e.t.v. ekki verið ljóst, að það væri almennur vilji fyrir þessu, vilji allra þm. og vilji flestra landsmanna. Það var þetta, sem ég sagði. Hitt vissi ég, að Seðlabankinn vissi vel um hug okkar Sunnlendinga og þá sérstaklega minn, vegna þess að það lá fyrir bréf í Seðlabankanum, sem ég skrifaði í maímánuði s.l., um það, að þessu máli yrði hraðað. Ég skrifaði fjmrn., og fjmrn. skrifaði aftur Seðlabankanum, og ég er hér með afrit eða tilvitnun í bréf frá mér, þannig að það fer ekkert milli mála. En hv. 1. þm. Austf. hefur misskilið orð mín áðan, og það getur alltaf komið fyrir, og skal ég ekkert lasta það. Það getur komið fyrir okkur alla, en ég átti við almennan áhuga, en ekki aðeins okkar Sunnlendinga.