11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

71. mál, innlent lán

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 78 hefur ríkisstj. leyft sér að flytja frv. til l. um heimild til þess að gefa út og taka innlent lán. Gert er ráð fyrir því í þessu frv., að sama form verði viðhaft á útgáfu á innlendu láni og viðhaft hefur verið hér á undanförnum árum, að gefin verði út ríkisskuldabréf eða spariskírteini fyrir allt að 200 millj. kr.

Kjör, sem þessi lán njóta, verða þau sömu og verið hefur um slík spariskírteinalán að öðru leyti en því, að spariskírteinin verða skráð á nöfn, en skattfrelsi og önnur þau atriði, sem þau hafa notið, hliðstæð því, sem sparifé nýtur, verður einnig á þessu láni. Reynsla hefur fengizt fyrir því, að verulegur markaður hefur verið hér á landi fyrir slík lán, og er gert ráð fyrir því, að nú sé einnig hagstætt að selja slík spariskírteini, og þess vegna er þetta mál fram komið.

Ástæðan til þess, að farið er út í sölu á þessum spariskírteinum nú, er sú, að afla á fjár til þátttöku í þeim framkvæmdum, sem ríkisstj. hyggst beita sér fyrir á næsta fjárlagaári, og er ekki gert ráð fyrir, að þessu fé verði eytt á árinu 1971, heldur verði það tengt framkvæmdaáætlun, sem hæstv. ríkisstj. mun leggja fyrir síðar á þessu Alþingi.

Ástæðan til þess, að framkvæmdaáætlun var ekki látin fylgja fjárlagafrv., var fyrst og fremst sú, að gert er ráð fyrir breytingu í sambandi við framkvæmdir ríkisins, þar sem hér mun verða lagt fyrir frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, og mun hún þá vinna að undirbúningi framkvæmdaáætlunarinnar, enda hefur reynslan orðið sú á undanförnum þingum, að þó að drög eða till. að framkvæmdaáætlun hafi verið lögð fyrir með fjárlagafrv., þá hefur afgreiðslan alltaf orðið á siðari hluta vetrar, og mun svo verða einnig á þessu þingi. Þetta frv. á því að afla fjár til framkvæmda á næsta ári í þær framkvæmdir, sem ríkisstj. mun beita sér fyrir, og er að mati hennar nauðsynlegt að reyna að fjármagna þær framkvæmdir með innlendu fjármagni, ef nokkur tök eru til.

Ég leyfi mér að fara fram á það við hv. d., að hún reyni að hraða afgreiðslu þessa máls, og hefði ég helzt viljað fara fram á það við hv. Alþ., að þetta mál gæti fengið afgreiðslu í næstu viku, vegna þess hvað það er seint fram komið, og munu vera dæmi um það, að slíkur hraði hefur átt sér stað í afgreiðslu slíkra mála hér á hv. Alþ. Tel ég mig muna það rétt, að þegar fyrst var farið inn á slíka fjáröflun um framkvæmdalán með enska láninu, þá var því sérstaklega hraðað hér í gegnum hv. Alþ. Ég treysti því, að það náist samstaða um, að svo verði einnig nú.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.