13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e. vil ég taka það fram, að eins og frv. ber með sér, þá er hér um að ræða happdrættislán ríkissjóðs vegna vega- og brúagerða á Skeiðarársandi, svo að það orkar ekki tvímælis, að ríkissjóður er hér aðili sá, sem er að taka þetta lán.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Sunnl., að vísítölutryggð bréf geta orðið dýr, en svo er einnig og ekki síður með erlend lán, sem hafa verið tekin til vegagerðar og hafa reynzt þjóðinni alldýr, þó að framkvæmdin hafi verið eftirsótt og enginn hafi viljað af henni sjá. Betra er þó, að það sé innlent fjármagn, sem þannig er tryggt, heldur en erlent.

Hitt vil ég svo segja út af þessum ábendingum frá Seðlabankanum í sambandi við happdrættislánið, að mér þótti það of mikil ábyrgð á minni hendi, ef ég hefði ákveðið án samráðs við nokkurn að láta málið ganga fram án þess að gera á því breytingu eftir að hafa verið aðvaraður um, að nokkur hætta gæti verið á ferðum, ef málið mistækist. Þess vegna var það, sem ég óskaði eftir því við Seðlabankann, að hann hefði samband við þm. Austf., sem hefðu rætt við mig um málið og sýnt á þessu mikinn áhuga, til þess að ekki væri teflt í neina tvísýnu. Þess vegna er þessi heimild hér fram komin, og það mun að sjálfsögðu verða skoðað mjög gaumgæfilega, hvort menn vilja taka á sig þá áhættu að bjóða þetta út, ef það mistækist, sem ég dreg í efa, að menn mundu gera, þegar það er skoðað í heild.

Út af því, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, að þarna gæti orðið um tekjustofn að ræða fyrir ríkissjóð, eða fjárútvegunarstofn er nú réttara að orða það, þá hafði ég nú veit því fyrir mér um tíma, hvort þetta ætti ekki að verða stærra mál og tengja það þá fleiri vegum, en að athuguðu máli og til þess að ekki væri hægt að segja með neinum rétti, að verið væri að spilla fyrir þessu máli á einn eða annan hátt, þá varð það niðurstaðan í ríkisstj., að málið skyldi verða einangrað, eins og hér er gert, og reynt að tryggja framgang þess eins og frekast væri unnt.