02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

150. mál, sala Markúsarsels, Tunguhlíðar og Veturhúsa í Geithellnahreppi

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Markúsarsel, Tunguhlíð og Veturhús í Geithellnahreppi hafa árum saman verið í eyði. Þetta eru dalajarðir, sem liggja við afréttirnar ofan byggðarinnar, eins og hún er nú. Hreppsnefnd Geithellnahrepps telur eðlilegt að hreppurinn eignist jarðirnar, svo að haga megi nytjum þeirra með því móti, sem bezt samrýmist þörfum hreppsbúa. Hefur hreppsnefndin farið þess á leit að fá jarðirnar keyptar, en flm. þessa frv. fallast á sjónarmið hreppsnefndarinnar og leggja til. að hv. Alþ. heimili að selja hreppnum jarðirnar.

Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.