17.11.1971
Neðri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

67. mál, íþróttalög

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef borið fram hér í d. frv. til l., sem felur í sér breytingar á íþróttalögunum, þeim kafla laganna, sem fjallar um íþróttasjóð. Breytingunni er ætlað að leysa að einhverju leyti úr þeim gífurlegu fjárhagserfiðleikum, sem nú blasa við öllum þeim aðilum, sem standa fyrir byggingu íþróttamannvirkja í þessu landi. Er hér reynt hvort tveggja, þ. e. að finna lausn til frambúðar og gera tillögur um úrbætur vegna fyrri skuldbindinga.

Íþróttasjóður ríkisins var á sínum tíma hugsaður sem framlag hins opinbera til íþróttamannvirkja, en vangeta hans frá fyrstu tíð hefur leitt til ástands, sem hefur staðið íþróttastarfseminni verulega fyrir þrifum, leitt til þess, að ríkið hefur safnað skuldum hjá velflestum. sveitarfélögum landsins, og sízt orðið til þess að auka virðingu og álit viðkomandi yfirvalda, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Í till. minni er gert ráð fyrir, að sú skylda sé lögð á herðar íþróttasjóði í stað heimildarákvæðis, sem nú er, að greidd séu 40% stofnkostnaðar íþróttamannvirkis, sem reist er með samþykki íþróttanefndar ríkisins. Jafnframt sé gerð áætlun um greiðslu á vangreiddum bókfærðum stofnkostnaði íþróttasjóðs, sem nú nemur rúmlega 74 millj. kr., og er miðað við, að sú greiðsla fari fram á 5–6 árum. Af þessu tilefni þykir mér rétt að rifja lítillega upp nokkur atriði um framkvæmdir og fjármál, sem varða íþróttasjóð.

Ákvæði í lögum um sjóðinn eru í íþróttalögum, sem upphaflega eru sett 1940 og endurskoðuð 1955–1956 og staðfest sem l. nr. 49 1956. Samkv. þeim skal Alþ. árlega veita fé á fjárlögum til sjóðsins eða sjá honum fyrir tekjum á öruggan hátt. Íþróttanefnd ríkisins annast úthlutun styrkja úr sjóðnum. Styrkveitingar úr sjóðnum skulu miða að því að bæta skilyrði til íþróttaiðkana og létta undir kostnaði félaga vegna íþróttakennslu.

Íþróttanefnd ríkisins hóf störf 1940. Í l. frá 1940 var ekkert ákvæði, sem skuldbatt ríkissjóð til að greiða ákveðinn hundraðshluta af stofnkostnaði hinna ýmsu íþróttamannvirkja, en fordæmi hafði skapazt að áliti íþróttanefndar og mþn. um slíkar fjárveitingar með samþykktum Alþ.:

1 ) Með heimild í fjárlögum allt frá árinu 1929, en þar segir:

„Til þess að gera nýjar steinsteyptar sundlaugar og sundskýli, enda sjeu þær til afnota fyrir almenning og landsstjórnin samþykki uppdrátt og kostnaðaráætlun, helmingur kostnaðar, . . .“

2) Með l. nr. 32 frá 1928, um Sundhöll Reykjavíkur. Önnur þessara samþykkta gerði ráð fyrir, að ríkissjóður greiddi ákveðinn hundraðshluta af stofnkostnaði íþróttamanavirkja eða 50%, en styrkveiting ríkissjóðs til bæjarsjóðs Reykjavíkur vegna smíði Sundhallar Reykjavíkur var upphaflega ráðgerð 50% af stofnkostnaði, en nam rúmum 40% stofnkostnaðar, þegar framkvæmdum var lokið.

Vegna þessa gerði íþróttanefnd ríkisins það hér að starfsvenju að miða þátttöku íþróttasjóðs í stofnkostnaði íþróttamannvirkja við þetta hlutfall, og reyndar er ávallt gengið út frá, að íþróttasjóður leggi til 40% stofnkostnaðar, enda er reikningsyfirlit íþróttanefndar við það mark miðað og nefnd skuldaupphæð í samræmi þar við. Í lögunum er nú, eins og áður er að vikið, gert ráð fyrir því, að íþróttasjóði sé heimilt að veita allt að 40% úr sjóðnum til stofnkostnaðar íþróttamannvirkja.

Eins og fyrr segir, kom fljótt í ljós, að fjárveitingar Alþ. voru sjaldan eða aldrei í samræmi við þær þarfir eða kröfur, sem gerðar voru til sjóðsins, og árið 1963 skipaði menntmrn. nefnd til að endurskoða lagaákvæði um íþróttasjóð. Safnaði sú n. ýmsum upplýsingum um fjárþörf og áætlaðar byggingar og gerði tillögur um breytingar á lögunum, sem fólu í sér einkum eftirfarandi atriði. Þess skal getið, að það var eingöngu hluti nefndarinnar, sem lagði fram þessar tillögur, en embættismenn í nefndinni gerðu sínar aths.

Í fyrsta lagi var það lagt til, að Alþ. samþykkti heimild til handa ríkisstj. um, að það, sem þá var vangoldið af áætlaðri þátttöku sjóðsins í kostnaði við íþróttamannvirki, sem þá var 22 millj. kr., yrði greitt á þremur árum.

Í öðru lagi skyldi á grundvelli áætlunar, sem lögð hafði verið fram um uppbyggingu íþróttaaðstöðu þjóðarinnar næstu 20 árin, þeirri stefnu fylgt fram, að ríkisvaldið styrkti byggingu íþróttamannvirkja, sem reist yrðu og nýtt á þrennan hátt, þ. e. í skólastarfi, með íþróttaiðkunum almennings og með starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga.

Tillögur þessar náðu ekki fram að ganga.

Síðan þetta skeði, hefur sífellt sigið meir á ógæfuhliðina. Til að lýsa þeirri þróun, sem átt hefur sér stað, vildi ég leyfa mér að vitna til bréfs Íþróttasambands Íslands til hæstv. menntmrh., dags. 31. ágúst s. l., með leyfi hæstv. forseta, en þar segir m. a.:

„Vér teljum, að starfsgrundvöllur sjóðsins (þ. e. a. s. íþróttasjóðs) sé brostinn og með sama áframhaldi sé sjóðurinn aðeins til þess að vekja falsvonir þeirra, sem leggja í framkvæmdir í þeirri trú, að íþróttasjóðurinn muni verða þess megnugur að styrkja þær samkv. lögum og reglum. Um 5 ára skeið hefur í fjárlögum verið gert ráð fyrir um og yfir 5 millj. kr. framlagi til sjóðsins. Það út af fyrir sig, að þessi upphæð skuli hafa staðið í stað þessi ár, segir sína sögu. Árið 1967 voru íþróttasjóði veittar 5.4 millj. kr. í fjárlögum. Þá voru ríkisútgjöld um 5 milljarðar kr. Árið 1971 eru í fjárlögum 5 millj. kr. til sjóðsins, en í ár er gert ráð fyrir, að ríkisreikningurinn fari upp í 12 milljarða kr. Miðað við árið 1967 hefðu tekjur sjóðsins þetta ár átt að vera um 13 millj. kr., ef sama hlutfall hefði haldizt. Ef mál þetta er lengra rakið, verður dæmið enn óhagstæðara fyrir sjóðinn“, segir í þessu bréfi. „Árið 1943, sem er raunverulega hið fyrsta fastmótaða fjárhagsár sjóðsins, fékk hann 300 þús. kr. á fjárlögum, en þá voru ríkisútgjöldin tæplega 90 millj. kr., og miðað við þetta ár, 1943, og sömu hlutföll ættu tekjur sjóðsins í ár að vera um 40 millj. kr. Næsta ár á eftir eða 1944 fékk sjóðurinn 450 þús. kr., sem er enn óhagstæðara miðað við árið í ár. Fyrstu 15–16 árin stóð sjóðurinn nokkurn veginn við skuldbindingar sínar, en síðan hefur sigið mjög á ógæfuhliðina. Þegar þessi öfugþróun er höfð í huga, er mjög eðlilegt, að fjárhagur sjóðsins sé bágur, enda var svo komið, að um síðustu áramót átti hann vangreitt samkv. þeim reglum, sem sjóðurinn starfar eftir, um það bil 77 millj. kr. til þeirra íþróttamannvirkja, sem lokið var þá við eða voru í smíðum þá.

Ungmenna- og íþróttasamtök vor, sem byggja starfsemi sína öðrum fremur á íþróttaiðkun og útivist ungra sem eldri, álíta, að sú stefna, sem mörkuð var í upphafi, að virkja hið félagslega framtak með tilkomu íþróttasjóðs, sé heilladrýgst, hvað varðar uppbyggingu íþrótta- og útivistarmannvirkja. En því aðeins er sú stefna framkvæmanleg, að styrkveitingar séu eitthvað í hlutfalli við verðlag og tilkostnað.“

Þetta var tilvitnun í bréf Íþróttasambands Íslands til hæstv. menntmrh. frá 31. ágúst s. l. Í þessu bréfi setur Íþróttasamband Íslands þá ósk fram, að fjárveiting til íþróttasjóðs fyrir næsta ár verði hækkuð í 20 millj. kr., og setur jafnframt fram þá tillögu, að samið verði við þá aðila, sem nú eiga vangreitt framlag hjá sjóðnum, um afslátt og verði eftirstöðvarnar þá greiddar á tiltölulega skömmum tíma samkv. áætlun, eins og segir í erindinu.

Fjárveiting samkv. fjárlagafrv. nú er 13 millj. kr., og enda þótt hún fullnægi engan veginn óskum íþróttasambandsins, má ekki skilja þetta frv., né heldur ræðu mína nú, sem gagnrýni á hendur núv. fjmrh. Mál þetta á sér miklu lengri sögu, eins og fyrr er rakið, og ekki við því að búast, að vandamál íþróttasjóðs verði leyst í einu vetfangi.

Hvað snertir hugmyndina um greiðsluáætlun, sem tæpt er á í bréfi Íþróttasambands Íslands og sett var fram í tillögunum frá 1964 og gerð er till. um í mínu frv., þá er sá skuldahali orðinn svo geigvænlegur, 74–77 millj., að til hreinnar hneisu er. Það hlýtur að vera algerlega óviðunandi og ósæmandi fyrir ríkissjóð að standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að íþróttasjóður skuldi sveitarfélögum og íþróttasamtökum svo stóra upphæð, án þess að eitthvað sé gert til að leysa það mál. Það mál eitt út af fyrir sig krefst skjótra og tafarlausra aðgerða. Ég hef rökstudda ástæðu til að ætla og leyfi mér jafnvel að fullyrða, að þeir aðilar, sem eiga hér hlut að máli, flestir hverjir a. m. k., væru til viðræðu um einhverja eftirgjöf eða afslátt af skuldum þessum, ef það áynnist, að loforð og ákvörðun fengjust um greiðslutilhögun.

Því er ekki að leyna, að stærsti hluti þessarar skuldar er við borgarsjóð Reykjavíkur og íþróttasamtök hér í borg. Bókfærðar skuldir Reykjavíkurborgar og borgarsjóðs Reykjavíkur eru nú rúmlega 55 millj, kr., en að íþróttafélögunum meðtöldum mun þessi upphæð nálgast 65 millj. kr. Að vísu má ætla, að þessar háu upphæðir stafi af hlutfallslega meiri og fleiri byggingum íþróttamannvirkja hér í Reykjavík, og má því halda því fram, að svo vel hafi verið staðið að þeim málum, að ekki hefði það átt að standa íþróttastarfseminni fyrir þrifum, en þess ber að gæta, að í þessa mannvirkjagerð er ráðizt einmitt vegna tilveru íþróttasjóðs og vonarinnar um 40% framlag úr honum. En þegar greiðslur dragast ár og jafnvel áratugi og þegar svo háar upphæðir eru í húfi, er ekki við öðru að búast en afturkippur komi í framkvæmdirnar og erfiðleikar verði hjá viðkomandi sveitarfélagi. Þess er líka að geta, að þau íþróttamannvirki, sem hér er um að ræða í Reykjavík, eru notuð til æfinga og keppni fyrir landsmót og landskeppni, þannig að þau koma landsmönnum öllum að notum, en ekki Reykvíkingum eingöngu.

Í þessu sambandi vildi ég leyfa mér að minna á ályktun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 18. des. 1969, en þar segir og var ályktað:

„Borgarstjórn skorar eindregið á Alþ. og ríkisstj. að taka fjáröflun íþróttasjóðs til endurskoðunar og tryggja honum tekjur, svo að hægt verði að greiða upp loforð sjóðsstjórnar á næstu 5 árum, enda er vitað, að fjárskortur háir mjög byggingu íþróttamannvirkja.“

Þessi till. var samþ. shlj. í borgarstjórn og send Alþ. fyrir rúmlega einu ári. Vandamál annarra sveitarfélaga eru hliðstæð, og er bent á það í grg. með frv. þessu, að nú blasa við verkefni til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum í öllum stærstu kaupstöðum landsins, mannvirki, sem mjög nauðsynleg eru til þess að byggja upp eðlilega íþróttastarfsemi á viðkomandi stöðum, og er þá ekki í grg. minnzt á þá þörf, sem að sjálfsögðu og eðlilega er fyrir hendi í öllum minni kauptúnum og sveitarfélögum landsins.

Ég vildi að lokum segja þetta: Ég tel mig ekki þurfa að fjölyrða um gildi íþróttaiðkana frekar en fram kemur í grg. með frv. þessu. Íþróttir hafa gildi og þýðingu langt umfram hlaupabrautina eða keppnisvöllinn, og í því þjóðfélagi, sem við lifum í nú með auknum frístundum, vaxandi hreyfingarleysi og agaleysi, með auknum áhyggjum okkar af uppeldi æskunnar og ráðabreytni hennar, þá eru íþróttir ekki eingöngu sem líkamsrækt, heldur sem þroskandi félagsskapur og heilbrigt verkefni, sá vettvangur, sem við ættum að beina æskunni að í ríkari mæli. Í öllum þeim þróuðu þjóðfélögum, sem við þekkjum til, er viðurkenndur og metinn þáttur íþróttanna sem æskilegt uppeldislegt og félagslegt viðfangsefni. Ég tel mér trú um, að sá skilningur og velvilji sé sömuleiðis fyrir hendi hér á landi, og meðal almennings er áhugi á íþróttum slíkur, að ekki þarf að kvíða undirtektum eða stuðningi borgaranna í þessu máli né heldur þátttöku og notkun hins almenna borgara á íþróttamannvirkjum. Alls staðar blasa verkefnin við í þéttbýli sem strjálbýli, alls staðar knýja sveitarfélög og íþróttasamtök á. Það er einlæg von mín, að fram komin till. geti stuðlað að sanngjarnri úrlausn þessara mála.

Ég legg til að loknum þessum umr., að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.