17.11.1971
Neðri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

67. mál, íþróttalög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Þegar ég sá frv. á þskj. 73, þá varð mér á að hugsa, að það hefði verið sannarlega þörf á því og ánægjulegt, ef hv. þm. Ellert Schram hefði verið fyrr kominn hér inn á Alþ. og getað ýtt við samherjum sínum, meðan þeir réðu hér málum í þessu efni. Það hefði sannarlega verið þörf á því að gera það, því að það var talað fyrir daufum eyrum, þegar ég og aðrir hv. þm. í minni hl. hér á Alþ. voru að reyna að hafa áhrif í þá átt að auka fjárveitingar til íþróttasjóðs.

Það er rétt, sem hv. 9. landsk. þm. segir, að ástandið er orðið mjög alvarlegt og raunverulega algerlega tilgangslaust að reyna að framkvæma lögin nú vegna fjárskorts, og svo hefur lengi verið og hefur farið vaxandi. Mér var það ánægja að hlusta á það í ræðu hv. 9. landsk. þm., þegar hann vitnaði hér í bréf Íþróttasambands Íslands, þar sem það skýrði frá því, að á fyrstu 15–16 árum sjóðsins hefði mátt segja, að fjárveitingar hefðu að mestu mætt fjárþörfinni. Síðan þá hefur sigið á ógæfuhliðina, og nú er svo komið, að 70–80 millj. kr. skuld er hjá íþróttasjóði og til þess að mæta þessu hefur hann á árinu 1971 5 millj. kr. Það hefur staðið ábreytt nú s. l. 5–6 ár, og sjá allir, hvernig að málinu hefur verið staðið — að slíku nauðsynjamáli sem þessu skuli á engan hátt hafa verið sinnt í þeim hækkunum, sem hafa orðið á fjárlögum síðustu ára.

Ég fór að kynna mér till. okkar í minni hl. hér á Alþ., sem við gerðum um þessi mál fyrir nokkrum árum, og er hér með þskj., þar sem samfleytt var reynt að þoka þessu áfram, og var þó aldrei um það að ræða, að farið væri út í neinar öfgar í þeim efnum, heldur reynt að stilla till. það í hóf, að von væri um árangur. Síðasta tilraun okkar framsóknarmanna í þessum efnum var svo sú að leita eftir því, að ríkið mætti taka lán til þess að greiða upp skuldir íþróttasjóðs á þremur árum. Allt kom fyrir ekki. Það var sama, hvað reynt var til þess að þoka þessu máli áleiðis. Það var ekkert gert í þá átt, og skuldirnar uxu ár frá ári, og nú, þegar breytt var um stefnu í þessu máli á fjárl. 1972, er þetta framlag hækkað um 160%. Að vísu er það ekki há tala miðað við fjárlögin, þegar litið er á upphæðina sjálfa, en það er veruleg hækkun, þegar um svo mikla hlutfallshækkun er að ræða, eins og hér átti sér stað, þ. e. um 160%. Þá var ekki meiri áhugi hjá Morgunblaðinu en svo, að það var talað um, að litið drægi vesalan, þegar þeir sögðu frá því, að fjmrh. hefði skýrt frá þessu. Þetta var þó meira mál en svo, að þeir gætu ráðið við það, þeir ágætu menn, á sinni löngu stjórnarsetu. Það var erfiðara að draga en svo, að það væri á þeirra færi að koma því til rétts vegar.

Nú gleður það mig hins vegar, að þessi hv. 9. landsk. þm. hefur tekið sig út úr hópnum og vill styðja þetta mál, og ég tek sannarlega undir það með honum, að það er full þörf á því að styðja þessi mál æskunnar, og það þýðir ekki að vera að tala um, að æskunni verði á ýmiss konar mistök, nema gerðar séu einhverjar tilraunir til þess að koma í veg fyrir þau. Það verður ekki gert með neinu öðru en því að láta unga fólkið í landinu fá verkefni við sitt hæfi, og eitt af — þeim verkefnum eru íþróttirnar — og þær eru í fremstu röð.

Á síðari árum hefur það orðið mjög áberandi, að íþróttirnar hafa færzt inn á það svið, að boltakeppni eins og handbolti og körfubolti og slík keppni eða slíkir leikir hafa verið ríkjandi hjá skólaæskunni. Úr leikfiminni, sem áður var mest stunduð, hefur dregið, en í þetta sótt. Af þessu leiðir, að íþróttasalirnir verða að vera stærri og þannig úr garði gerðir, að þessir leikir geti farið þar fram. Það þýðir að sjálfsögðu, að kostnaður verður meiri við íþróttamannvirkin og þeir staðir, sem ekki geta staðið undir því að koma upp hæfilegum íþróttamannvirkjum, til þess að æskan geti stundað þar slíka leiki, dragast aftur úr og skapa sinni æsku miklu lélegri skilyrði til íþróttaiðkana en þeir staðir, sem geta leyst þennan þátt. Það skortir mjög á það, að við höfum getað þetta og við þurfum að taka á þessu máli með myndarskap. Ég er sammála hv. 9. landsk. þm. um það.

Eins og ég gat um áðan, gerðum við um það till. fyrir nokkrum árum, minni hl. fjvn., að samið yrði um að taka lán til þess að greiða þær skuldir, sem á íþróttasjóðnum hvíldu þá. Um leið og ég minni á þetta, vil ég skýra frá því, að ég hef mjög hugsað um þessa leið þennan tíma, sem ég hef verið fjmrh. Ég tel í raun og veru, að það sé brýn nauðsyn á því að skera þarna á línuna, til þess að íþróttasjóðurinn verði starfshæfur aftur, en það hefur hann ekki verið um langt skeið. Bezta lausnin á því væri að semja um að greiða skuldirnar á nokkrum árum, til þess að hægt væri að nota fjárveitingarnar að verulegu leyti til framkvæmda svo sem nauðsyn ber til.

Ég þarf náttúrlega ekki að vekja athygli á því, að til þess að hægt verði að sinna þessum málum og greiða úr þeim, er óhjákvæmilegt að auka fjárveitingar, og það þýðir það, að fjárlögin hækka, og svo er um marga útgjaldaliði, sem hefur orðið að taka tillit til við fjárlagaundirbúning nú, þó að núv. valdhafar hafi ekki tekið ákvarðanir um það, en þann þátt ætla ég ekki að fara út í að þessu sinni. Ég vil bara undirstrika það og mun athuga það mjög nákvæmlega, hvort ekki sé leið til þess að ganga svo frá skuldum íþróttasjóðs, að hægt verði með fjárveitingu í ár, á næsta ári og síðar að hefja aftur greiðslur á framkvæmdum þeim, sem stofnað er til. Ef koma á lagi á þessi mál, svo sem nauðsyn ber til og að verður stefnt, þá verður að sjálfsögðu að gera áætlanir um framkvæmdirnar og ákveða fyrir fram, hve mikið verður hægt að gera á hverju ári. En ég fagna hverjum liðsmanni, sem vill sinna þessu máli, því að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, sem við megum ekki láta vera svo vanhirt sem verið hefur um langt skeið.