17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

67. mál, íþróttalög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. N. hefur haft þetta frv. til meðferðar, og hún var að meginefni til samþykk því markmiði, sem frv. stefndi að, þ. e. að binda frekar fastmælum í lögum, hvernig framkvæmdir eða bygging íþróttamannvirkja væri fjármögnuð. Hins vegar varð að samkomulagi að breyta upphaflega frv. á þá leið að miða það við þá reglu, sem fram kemur í skólakostnaðarlögunum, þ. e. að framkvæmd hefjist ekki, fyrr en fyrir liggur skriflegt samþykki rn. og viðkomandi yfirvalda, í þessu tilfelli íþróttanefndar, og þá hafi verið veitt fjárveiting á fjárlögum. Með þessu er stefnt að því að taka sjálfstæðar ákvarðanir um hvert eitt mannvirki, sem fyrirhugað er að reisa, og tryggja með því, að fjármagn fáist til áframhaldandi byggingarframkvæmda, þegar það í eitt skipti hefur verið samþykkt. Nm. voru sammála um, að þessi regla, sem væri í skólakostnaðarlögunum, hefði reynzt allvel, svo og þeir embættismenn, sem n. hafði samráð við, og því er farið inn á þessa braut.

Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því, að hlutur ríkissjóðs eða íþróttasjóðs í stofnkostnaði íþróttamannvirkja yrði 40% af heildarkostnaði, en í núverandi lögum er heimildarákvæði um, að íþróttasjóður taki þátt í allt að 40% af stofnkostnaði viðkomandi íþróttamannvirkis, en í reynd hefur það verið svo, að íþróttasjóður hefur lagt fram eða gert áætlun um að leggja fram frá 25–40 af hundraði kostnaðar, og fer það þá eftir því, um hvers konar mannvirki er að ræða. Í þeirri till., sem n. leggur fram, er áfram miðað við þessar hundraðstölur, sem í framkvæmd hafa verið notaðar.

Í öðru lagi var gert ráð fyrir því í upphaflega frv., að gerð yrði áætlun um að greiða vangreiddan bókfærðan stofnkostnað íþróttamannvirkja hjá íþróttasjóði á næstu 5–6 árum, og var lagt til, að sú áætlun yrði lögð fram við afgreiðstu fjárlaga fyrir árið 1973. En í trausti þess, að á næstunni verði teknir upp samningar af hálfu íþróttasjóðs eða fjmrn. við viðkomandi aðila um þennan vangreidda bókfærða skuldahala, þá varð það ofan á í n. að leggja til, að bráðabirgðaákvæðið væri fellt niður úr frv.

Ég vil af sérstöku tilefni taka fram, að í brtt. n. er talað um, að gerð íþróttatækja, sem styrkur er veittur til, sé háð samþykki íþróttafulltrúa og fari ekki eftir þeirri reglu, sem ég hef hér rakið, en hlíti sömu meðferð og verið hefur, þ. e. að samþykki íþróttafulltrúa þurfi að liggja fyrir, þegar veittur er styrkur til íþróttatækja. Vildi ég taka fram, að þá er haft í huga, að undir orðið íþróttatæki falli t. d. ýmis hreyfanleg íþróttatæki, eins og skíðalyftur eða annað sambærilegt, þar sem ekki er sem sé um að ræða fasteignir beinlínis.

Ég vildi ekki hafa frekari orð um þetta nál., en vildi taka fram sem upphaflegur flm. þessa frv., að ég er þakklátur meðnm. mínum fyrir góðar undirtektir og skilning á þessu máli, og ég er þeirrar skoðunar, að enda þótt till. hafi ekki verið samþ. óbreytt, eins og hún var í upphafi sett fram, þá miða þessar breytingar mjög í rétta átt og eru því til styrktar, að íþróttamannvirki geti verið byggð með eðlilegum hætti og til þeirra fáist fjármagn á þann veg, að ekki hamli byggingarframkvæmdum.