04.05.1972
Neðri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

253. mál, þingsköp Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég stóð upp til þess að þakka hv. n. fyrir þá miklu vinnu, sem hún hefur lagt í þetta mál. Hún hefur tekið það mjög rækilega fyrir, eins og sést á því, að hún hefur ritað frv. upp og aukið í það ýmsum atriðum. Mér sýnist flest af því, sem hv. n. hefur aukið í, vera aðgengilegt og sumt ótvírætt til bóta. Ég vil aðeins benda á eitt atriði í sambandi við 10. gr. frv., sem ég hygg, að væri rétt að taka til skoðunar, en það er, að gert yrði skylt að taka fyrirspurnir á dagskrá eigi síðar en 8 dögum eftir að þær eru viðurkenndar. Mér sýnist það vera öruggara og tryggara að hafa slíkt ákvæði í frv. Ég sé ekki, að það sé neitt í því, sem kemur í veg fyrir, að forseti gæti dregið að taka fyrirspurn á dagskrá. Ákvæðið, sem í greininni er, er til þess að tryggja ráðh. gegn því, að fyrirspurn sé tekin fyrirvaralaust á dagskrá, en mér finnst vanta trygginguna fyrir spyrjandann.; frsm. mun hafa minnzt á, að þetta væri til skoðunar hjá n.

Ég hef ekki um þetta fleiri orð — önnur en þau að leggja hina mestu áherzlu á, að þetta mál gæti orðið að lögum á þessu Alþ., og vil biðja hæstv. forseta d. og hv. allshn. að leggjast á eitt, til þess að svo megi verða. En þá má að sjálfsögðu ekki verða mjög langur dráttur á því, að lokaafgreiðsla fari hér fram, enda hygg ég, að þau atriði, sem eftir er að athuga, séu þannig vaxin, að það ætti að vera hægt að komast að niðurstöðu um þau afar fljótlega í nefndinni.