04.05.1972
Neðri deild: 70. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

145. mál, iðnfræðsla

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. við þetta mál út af nál., sem hér liggur fyrir, og út af þeirri framsögu, sem hv. frsm. flutti hér áðan. Eins og skýrt kemur fram í nál., þá skrifum við hv. þm. Gunnar Thoroddsen undir þetta álit með fyrirvara einungis vegna þess, að okkur fannst, að sú fjáröflunarleið, sem í þessu frv. er bent á, væri ekki æskileg og satt bezt að segja hélt ég, að hv. þm. hér væru nokkuð sammála um það, að það væri orðið allt of algengt að fara þessa fjáröflunarleið, þegar um þörf mál er að ræða, að bæta við nýjum og nýjum mörkuðum tekjustofnum. Það kom mér því svolítið á óvart, að menn skyldu ekki geta fallizt á það að kanna þá möguleika, að þessi fjáröflunarleið yrði farin, sem við hv. þm. Gunnar Thoroddsen bentum á í þessu sambandi.

Ég vil aðeins undirstrika það hér, að því fer víðs fjarri, að með þessu séum við á einhvern hátt andstæðir þessu máli. Við teljum, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða, og ég vil fagna því, að þetta mál er hér komið fram. Ég vildi aðeins undirstrika þetta, þannig að það kæmi alveg skýrt og greinilega í ljós.

En úr því að ég er kominn hér í ræðustól og verið er að ræða um iðnfræðslulöggjöfina og um framlög ríkisins til iðnfræðslunnar á undanförnum árum, þá vil ég aðeins benda á eitt atriði í því sambandi, sem ég tel, að sé mjög mikilvægt. Það er, að það hefur átt að koma upp svonefndum kjördæmisiðnskólum, þ. e. einum aðaliðnskóla fyrir hvert kjördæmi í landinu, eins og við vitum. Og það hefur því miður verið sú sorgarsaga, að veruleg togstreita hefur verið um það víða, hvar þessir iðnskólar skyldu rísa. Ég held, að ég fari með rétt mál, að það sé veigamikil ástæða fyrir því, að ekki hefur þokazt lengra á undangengnum árum í því að koma iðnskólum upp heldur en verið hefur. Það kunna að vera fleiri ástæður fyrir því, ég er ekki að fortaka það, en ég vil benda á, að þetta hefur verið mikið vandamál. Nú er þetta víða að leysast, þetta sérstaka vandamál. Mér er tjáð, að mörg kjördæmi, byggðarlög þar hafi komið sér saman um, hvar þessir skólar eigi að rísa, og því vil ég vænta þess, að nú fari að komast skriður á iðnskólabyggingar í landinu.