04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

273. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þótt hér sé ekki langt frv., þá er sannarlega hreyft hér mikilsverðu máli, því að hér er við mikið vandamál að etja, eins og frummælandi benti á. Ég verð nú að segja það, að þar sem málið er eins viðkvæmt og flestir vita, þá finnst mér það nokkuð seint fram komið, því að jafnvel þótt sumir í samtökum sveitarstjórnarmanna séu þessu sammála, þá er lausnin ekki auðveld. Við í Alþfl. lögðum fram þáltill. á þessu þingi og höfum gert það áður, og reyndar var það einn maður að því er mig minnir frá Sjálfstfl., Ásberg Sigurðsson, sem lagði á síðasta þingi líka fram þáltill. um að skora á ríkisstj. að hefjast handa og fá hæfa menn til að semja löggjöf um afréttir og óbyggðir og eignar- og afnotarétt viðkomandi sveitarfélaga og ríkisins sjálfs. Þetta er mikið mál, og ég held, að þetta sé það mikið mál, að eitt svona frv., þó að því fylgi góður hugur, bæði frummælanda og okkar hinna hér í d., geti varla leyst það svona skyndilega.

Það kemur fram í 1. gr. frv., að ef eigi eru aðilar sammála, þá skuli sýslunefnd skera úr. Frummælandi tók fram, að hann sæi ekki aðra lausn betri. Ég er ekki löglærður maður, en mér dettur í hug, að ekki væri úr vegi, að hæstiréttur mundi þá skipa sérstakan mann, því að vissulega gæti í sýslunefndum verið deilt innbyrðis af fulltrúum hreppanna. Slíks eru dæmi áður fyrr hér á Íslandi, þannig að það eitt gæti valdið mikilli togstreitu innan sýslunnar. Undir þau orð flm. vil ég taka, að tímabært er að skipa þessu svæði sess í sveitarstjórnarlögum og í stjórnarskránni, og einmitt vegna þess, að í dag eru tímamót í sögu sveitarstjórnarmála, það eru 100 ára tímamót, þá er verðugt að taka þessi mál, sem eru erfið og viðkvæm, til meðferðar. En nú vill svo til, að flm. þessa frv. er frsm. allshn. í Sþ., er hefur sent frá sér meirihlutanál. um þáltill. okkar Alþfl.manna, og sjá þeir ekki ástæðu til að vísa henni einu sinni til ríkisstj., heldur vísa henni frá, og þykir mér það lélegt, þar sem málið er stórmál og þarf að taka það föstum tökum. Það er óhjákvæmilegt, og það verður ekki undan því ekizt. Jafnvel þó að sérstakt mál sé fyrir dómstólunum um eignarréttaraðild ríkisins að vissu landsvæði, sem á að nota til virkjunar núna, þá er ekki hægt annað en skoða þessi mál öll sem eina heild. Það verður margra ára barátta, ef á að dómtaka hvert mál og bíða eftir niðurstöðu, þar sem ágreiningur er um afréttarsvæði og nytjar þeirra. Við í Alþfl. ætlumst alls ekki til þess, að nytjar bænda séu dregnar frá þeim og þeirra réttur sé rýrður, alls ekki, en við viljum hafa það á hreinu, hvernig um slíkan rétt er, hver á landið og hverjum ber þá skylda til að varðveita það og fara um það höndum á réttan og viðeigandi hátt, svo að það eyðist ekki. Menn líta á þessi landsvæði, eins og frummælandi sagði, sumir jafnvel sem sína eign í gegnum afnotarétt, og það út af fyrir sig er eðlilegt. En fyrir alla framtíð er það bezt fyrir viðkomandi notendur að hafa sinn rétt tryggðan og skjalfestan og eins fyrir ríkið, sem þarf á þessu landi að halda í sambandi við stórvirkjanir. Fyrir allan landslýð er líka nauðsynlegt að hafa allt á hreinu, hvað þarf að borga fyrir réttinn og með hvaða hætti er hægt að tryggja hann til almannaþarfa í landinu, þá vonandi einnig fyrir þá, sem hafa haft nytjar af þessu svæði áður. Sum þessara svæða eru óbyggðir, sem hafa gildi núna vegna stórframkvæmda og breytinga á vatnsföllum og hugsanlega meira að segja vegna gróðurmyndunar í kjölfar gróðursetningar, sem kostuð er af ríkinu. Hér er því stórmál á ferðinni, sem er varla hægt að vísa frá. Þó að menn séu ekki sammála um vissa upptalningu, sem á að athuga, þá er málið það viðamikið, að ekki er annað hægt en Alþ. taki afstöðu til þess, svo að þetta verði leyst, og setji hæfa menn í það að finna þessu rétta og sanngjarna löggjöf.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Ég tel hæpið, að við getum afgreitt þetta frv. héðan af, af því að það kemur svo seint fram, en vissulega hefði verið æskilegt, að d. hefði fengið þessi mál fyrr til athugunar og getað leitað umsagnar víða og reynt að kanna, hversu mjög hugur manna stefnir í þá átt að fá þetta á hreint, með umsögn viða að af landinu, því að ekki getum við reiknað með, að þetta sé aðeins á tilteknu svæði hér sunnanlands. Það hafa fallið dómar um mál norðan heiða og e. t. v. eru víða átök, þó að þau séu ekki komin fyrir dómstólana.

Herra forseti. Ég tók aðeins til máls vegna þess, að hér er í sjálfu sér hreyft mikilvægu máli, þó að frv. sé ekki stórt í sniðum, en ég vona, að flm. skilji það, að ég vil, að málið fái víðtæka athugun, því að það er í eðli sínu stórmál.