16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

25. mál, siglingalög

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér litla brtt. við þetta frv., við 1. gr. frv. Sú brtt. er á þskj. 637 og er þannig, að síðasti málsl. gr. orðist þannig:

„Lækka má fébætur eða láta þær niður falla, ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, hefur með framkomu sinni sýnt vítavert gáleysi, sem leitt hefur til slyssins eða tjónsins“, en niðurlagið á gr. var þannig: „Lækka má fébætur eða láta þær niður falla, ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, er meðvaldur þess eða meðábyrgur.“

Hér er um nokkurn eðlismun að ræða, eins og heyra má, en þetta frv. miðar sérstaklega að því að draga úr því, frá því sem verið hefur, að hægt sé að skipta sök eins og mjög hefur verið títt í sambandi við slys eða tjón, sem m. a. verða á skipum, þannig að verulegur hluti tjónbótanna sé lagður á herðar þess, sem fyrir tjóninu verður, aðeins vegna þess, að talið er, að hann sé að einhverju leyti meðábyrgur þess, að slysið eða tjónið varð. Sjómannasamtökin í landinu hafa barizt fyrir því nú um árabil að fá þessu breytt og lagt á það mjög mikla áherzlu, en nú er sem sagt með þessu frv. tekinn upp sá háttur, að það er ekki hægt að leggja tjónbótaskylduna á þann, sem fyrir slysinu verður eða tjóninu verður, nema sannað sé á hann vítavert gáleysi, sem hafi síðan leitt til tjónsins eða slyssins. En reglan hefur sem sagt verið sú, eins og flestir hv. alþm. kannast við, því að þetta mál hefur verið hér til umr. nokkrum sinnum áður, að það hefur verið í mjög mörgum tilvikum, að tjónbótunum hefur verið skipt á milli aðila, vegna þess að sá, sem fyrir tjóninu hefur orðið, hefur þótt þar eiga einhverja hlutdeild að.

Ég vænti þess, að þessi till. verði samþykkt til þess að gera hér ákvæði frv. nokkru skýrari og ákveðnari til þess að ná því marki, sem raunverulega er stefnt að, en ég legg fyrir mitt leyti mikla áherzlu á það, að þetta frv. nái fram að ganga. Það hefur verið lögð sérstök áherzla á það af samtökum sjómanna, m. a. við gerð kjarasamninga, og þeir hafa fengið góðar undirtektir um það, að fullur skilningur væri á því að gera þessa breytingu, sem í þessu frv. felst.

Ég vænti svo, að brtt. mín verði samþ. og frv. nái fram að ganga á þessu þingi.