17.05.1972
Efri deild: 86. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

25. mál, siglingalög

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, hefur nú verið afgr. í Nd. með shlj. atkv. þar viðstaddra þdm., og ég vil því vænta þess, að það geti tekizt einnig hér að afgreiða þetta mál mjög fljótlega.

Meginefni þessa frv. er það, að lagt er til að gera nokkru skýrari ákvæði í lögum um það, að þeir skipverjar, sem verða fyrir tjóni eða slysi við störf sín, séu ekki dregnir til meðábyrgðar eða meðsektar í sambandi við sakir, nema fyrir liggi á ótvíræðan hátt, að þeir eigi sök á tjóninu eða slysinu vegna vítaverðs gáleysis með framkomu sinni. Það hefur verið í alllangan tíma svo, að það hefur þótt ástæða til þess að skipta sök í málum eins og þessum, þannig að skipverjar hafa æðioft þurft að taka á sig verulegan hluta af tjóninu, þ. e. fá ekki tjónbætur nema að vissum hluta, vegna þess að talið hefur verið, að þeir ættu með framkomu sinni einhvern þátt í því, hvernig fór. Samtök sjómanna hafa í nokkur ár lagt mikla áherzlu á það að fá lögunum breytt í þá átt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þetta frv. er flutt af hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni og Pétri Sigurðssyni, og fleiri þm. úr fleiri flokkum hafa komið við sögu í sambandi við flutning þessa máls hér á Alþ. Það er auðvitað augljóst mál, að þessi breyting getur haft það og kemur til með að hafa það í för með sér, að útgerðarmenn þurfi að taka á sig einhver aukin útgjöld, sem þeir munu væntanlega greiða í sambandi við auknar tryggingar. Það verður ekki hægt að komast hjá því, en það er álit mitt, að hér sé um slíkt réttlætismál að ræða, að það sé full ástæða til þess, að þetta frv. nái nú fram að ganga. Í síðustu kjarasamningum lögðu samtök sjómanna mjög mikla áherzlu á það, að þetta frv. næði fram að ganga, og því var lýst yfir, að fullur skilningur væri á þessu sjónarmiði þeirra og reynt að greiða fyrir þessu máli. En nú er orðið mjög áliðið þings og lítill tími eftir og málið hefur því miður, eins og reyndar ýmis fleiri, legið of lengi í þeirri d., og mönnum gefst því heldur stuttur tími til að athuga málið. Bezt hefði mér þótt, ef samkomulag hefði getað orðið um það, að málið fengi að ganga hér í gegnum þrjár umr. án þess að fara til n., en ef óhjákvæmilegt þykir, að sjútvn. fjalli um málið, geri hún það þá á þann hátt, að það þurfi ekki að tefja afgreiðslu þess hér að neinu leyti. (Gripið fram í.) Já, ég býst nú við því og vona, að það verði, en sem sagt, ég legg mikla áherzlu á það, að þetta frv. nái fram að ganga, og vænti þess, að það geti orðið jafngóð samstaða um það hér í þessari d. og var í Nd.